31.10.06

furðurfuglaflensa

á dögunum var mér bent á það að í kringum mig væri mikið af skrítnu fólki. og þá var ekki átt við eintóma uppsalagísla.

held að þetta sé nú misskilningur en byggðist á því að ég var að segja einhverjar sögur af hinum og þessum sem ég hef rekist á eða umgengist undanfarin misseri.

það er þó í þessu þannig sannleikskorn að mér hefur hlotnast sú gæfa að kynnast og umgangast, lengur eða skemur, fjölda fólks sem ekki lætur stjórnast af viðurkenndri meðalhegðun eða gleypir hráar kröfur umhverfisins til slíkrar hegðunar. þetta er líkast til algengara meðal þeirra sem lifa og hrærast í listum en þeirra sem gera það ekki og væri fróðlegt að vita hvað er orsök og hvað afleiðing í því samhengi.

vissulega kannast maður við dæmi þar sem fólk leggst í sjálfskipuð skringilegheit til þess eins að stimpla sig inn í heim listarinnar en það er nú oftast til að fela eigin vanmátt og erindisleysu í þann heim. og svo er hitt að smáborgararnir eiga það til að búast við því af listafólki að það sé skrítið fólk. stundum gaman að leika sér að slíku smá stund.

en „skrítna“ fólkið kringum mig er ekkert skrítið. það er þvert á móti upp til hópa óvenju vel gert fólk sem ber meiri virðingu fyrir eigin lífsskoðunum og lífinu almennt heldur en staðalímyndum og smáborgaraskap.

blessunarlega rekur á fjörur manns einn og einn furðufisk – þeir eru ágætir líka og gaman að segja af þeim sögur.

30.10.06

frost


þetta er hrímaður melur við Leiruveg – er bara til að minna á að enn einn fjandans veturinn er skollinn á. en getur svosem verið nógu sætt ef maður er þannig skapi farinn.

reykingar og reykleysi

fékk ansi góða ábendingu á dögunum – að vísu frá miklum nikótínista eins og ég er sjálfur.

semsé þá að með stórauknu reykleysi á vinnstöðum er líka hverfandi annar þáttur; semsé reykpásurnar. með reykpásum hverfur mikilvægur móralskur þáttur á vinnustöðum og samskipti vinnufélaga verða mun takmarkaðri. er þess handviss að þetta sé vondur bisniss.

á mínum vinnustað erum við örfáir enn syndumspilltir svælarar og förum þónokkrar ferðir á dag „í garðinn“. þar er bannað að tala um vinnuna. við kryfjum þjóð- og heimsmálin á örfáum mínútum oft á dag. svo beint að skjánum aftur.

er svo sannfærður um að þessar pásur auka afköst við vinnuna yfir daginn og lyfta andanum oft og tíðum. og hef stundum orðað það þannig að ég reyki mér til heilsubótar. sem er nú kannski aðeins yfir strikið en alla vega veit ég að þessi aðgerð að standa upp, hreyfa sig og kjafta um annað en verkefnið sem verið er að vinna í augnablikinu, er bráðholl.

sá brot úr einhverjum morgunsjónvarpskjaftaþætti á skjá einum í morgun þar sem var saman komið fólk nýlega hætt að reykja og var að vitna. menn voru sammála um að þeir væru að græða svo mikinn tíma. ég gef skít í þá kenningu.
þegar ég loksins hætti að reykja mun ég ótrauður halda áfram að fara í reykpásur. ef ég verð ekki dauður.

28.10.06

morð dagsins

http://visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20061028/LIFID08/110280037/1120/LIFID

þarna er frétt með spjalli við Ævar Örn Jósepsson um næsta reyfara sem KK í Uppheimum gefur út á næstu dögum. kápan er ennþá bara til í vélinni sem þetta er skrifað á en sleppur vonandi þaðan á morgun.

hef lesið þessa sögu (eins og hún var fyrir tveimur vikum) og fyrir þá sem á annað borð fíla krimma er þessi í flokki með þeim albestu íslensku. Ævar hefur komið sér upp verulega persónulegum stíl við þessi skrif sem ég er alveg að kaupa.

þetta átti ekki að vera auglýsing um bók. nema hvatning til að lesa hana ef menn lesa glæpasögur sér til afþreyingar. stundum eru þær reyndar flottur litteratúr, sbr bækur Rússans sem kallar sig Boris Akúnín og Svíans Henning Mankell. þeir sem hafa áhuga geta sótt bók Ævars, Sá yðar sem syndlaus er, á Amtið eftir hálfan mánuð. og kastað svo fyrsta steininum.

kenning dagsins

í fyrrakvöld við bestu hugsanlegu aðstæður varð til enn ein „kenningin“.
hún byggir á staðreyndum og reynslu og er einfaldlega svona:

það þarf ekki mikið til að gera lífið æðislegt. bara 157 sentímetra.

færslur flæða

hef greinilega verið farinn að þjást af köldum kalkún eftir að hafa hunsað blogg í nokkra daga. hér kemur þriðja færsla dagsins:

er svo yfirgengilega lánsamur kall að eiga þrjú börn sem öll eru heilbriðg á sál og líkama. það elsta, Katla mín, komin á þrítugsaldur og minnsti guttinn, hann Atli, röskra þriggja ára. milli þeirra er knattspyrnuhetjan og ljósmyndarinn Sigurður Ormur á ellefta ári.

þriggja ára fólk er afar skemmtilegt þegar maður nær því á spjall – það er ekkert kjaftæði heldur bara grjótharðar staðreyndir, frumþarfir og óduldar tilfinningar. semsagt fullkominn heiðarleiki.

á dögunum varð mér á að hnerra við eldhúsborðið og þessi sami Atli Sigfús bað guð að hjálpa mér.
í einhverjum hálfkæringi spurði ég hann að bragði hver hann væri þessi guð.

guttinn horfði beint í augun á mér í tvær eða þrjár sekúndur og svo kom þetta svar: „ég er þriggja ára.“

veraldarvesenið

þessi færsla hér að neðan er einfaldlega stolin af ruv.is með copy/paste aðferðinni. segir allt sem segja þarf um þetta:

„Hans Blix, fyrrverandi yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak, segir hernám landsins gjörsamlega misheppnað, hlutskipti þjóðarinnar sé enn ömurlegra um þessar mundir en undir einræðisstjórn Saddams Husseins, fyrrverandi forseta. Í nýlegu viðtali við Politiken segir Blix Bandaríkjastjórn í mikum vanda. Hún þurfi að velja milli tveggja kosta, báðir séu afleitir. Yfirgefi Bandaríkjaher Írak tafarlaust brjótist út blóðugt borgarastríð. Fari Bandaríkjamenn hinsvegar hvergi verði þeir áfram skotmark ýmissa andspyrnu-og hryðjuverkahópa án þess að koma á stöðugleika. Blix segir að snöggtum skárra hefði verið að hernema ekki Írak.

Vissulega væri Saddam þá enn við völd, sem væri vont, en Írakar byggju þó ekki við algjöra vargöld. Bandaríkjamenn, og fylgiþjóðir þeirra, virtu Blix að vettugi þegar hann óskaði eftir því að vopnaeftirlitssveitir hans fengju að ljúka störfum í Írak vorið 2003. Hernám væri ekki nauðsynlegt til að hafa uppi á ætluðum gjöreyðingarvopnum Íraka. Bandaríkjastjórn staðhæfði hins vegar að brýna nauðsyn bæri til að tortíma þessum vopnum strax, áður en þau kæmust í hendur hryðjuverkamanna. Engin gjöreyðingarvopn hafa enn fundist í Írak."

brjálaður ævinlega

hmmm – þetta var nú ágætis pása.

við feðgar, ég og Atli Sigfús, erum nýkomnir úr BYKO. gerðum okkur sérstaka ferð þangað til þess að kaupa kopp.
að kaupa kopp er talsverð manndómsvígsla og yfirlýsing um að frumbernsku sé lokið.

sem var ekki það sem kveikti þessi skrif. heldur er þetta svona lesendabréf hins brjálaða neytanda sem fann loksins vöruna sem hann leitaði að (hjálparlaust þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá aðstoð). og af fjölmörgum kössum í nýju Bykobúðinni á Akureyri sat fólk á tveimur. og á öðrum þessara tveggja voru starfsmenn ekki færri en þrír eða fjórir að spjalla meðan biðröðin lengdist unz ekki sá fyrir endann á.

lenti í hinni röðinni sjálfur og bara tvennt á undan mér, ég með þennan eina andskotans hlandkopp á 699 kall.

tók 25 mínútur og í röðunum tveimur minnst 20 manns og allir brjálaðir. gerðist ekkert. starfsfólkið á þessum tveimur kössum ýmist að kjafta saman eða í símann.

akkúrat þarna er BYKO búið að byggja nýja búð fyrir milljarða en innra skipulag er þannig að kúnnarnir sem álpast þangað inn fá ekki þjónustu. enga.

þetta er fáránlegt og þarna fer ég aldrei aftur. framvegis mun ég kaupa það sem ég þarf að sækja í byggingarvöruverslanir í Brynju við Laugaveg. handviss um að það er fljótlegra að skreppa þangað.

22.10.06

ekki orð að marka

ekki orð að marka gunguna:
(Do not choose a cowards explanation)
svona orti Leonard Cohen á skerinu Hydra í Eyjahafi árið 1999:

Suddenly the night has grown colder.
The God of love preparing to depart.
Alexandra hoisted on his shoulder,
They slip between the sentries of the heart.

Upheld by the simplicities of pleasure,
They gain the light, they formlessly entwine;
And radiant beyond your widest measure
They fall among the voices and the wine.

Its not a trick, your senses all deceiving,
A fitful dream, the morning will exhaust
Say goodbye to Alexandra leaving.
Then say goodbye to Alexandra lost.

Even though she sleeps upon your satin;
Even though she wakes you with a kiss.
Do not say the moment was imagined;
Do not stoop to strategies like this.

As someone long prepared for this to happen,
Go firmly to the window. Drink it in.
Exquisite music. Alexandra laughing.
Your firm commitments tangible again.

And you who had the honor of her evening,
And by the honor had your own restored
Say goodbye to Alexandra leaving;
Alexandra leaving with her lord.

Even though she sleeps upon your satin;
Even though she wakes you with a kiss.
Do not say the moment was imagined;
Do not stoop to strategies like this.

As someone long prepared for the occasion;
In full command of every plan you wrecked
Do not choose a cowards explanation
That hides behind the cause and the effect.

And you who were bewildered by a meaning;
Whose code was broken, crucifix uncrossed
Say goodbye to Alexandra leaving.
Then say goodbye to Alexandra lost.

Say goodbye to Alexandra leaving.
Then say goodbye to Alexandra lost.

2 sýningar

í gær voru opnaðar tvær merkilegar sýningar í Gilinu:

annars vegar ljósmyndir Kára Fannars Lárussonar í Populus tremula, teknar í Nicaragua í vor leið – þrusuflottar myndir sem eru svo pakkfullar af upplýsingum og skilaboðum um að flysja fjandans tilgerðina og uppskafningsháttinn utan af tilverunni að það er beinlínis krefjandi vinna að njóta þeirra. leggi maður samt í það verk skilar það sér beint inn í kvikuna á manni sjálfum.

svo opnaði Reynir Jónsson í Ketilhúsinu sýninguna sem var hengd upp á miðvikudaginn var. og skemmst frá því að segja að hann fékk hundruð glaðra gesta og var hrókur alls fagnaðar. langt síðan ég hef glaðst jafn mikið með öðrum og sannarlega verðskuldaði hann að eiga slíkan dag. svona dag ættu allir að upplifa amk einu sinni á ævinni; ekki fyrir egoið endilega heldur er það beinlínis hollt að standa í sviðsljósinu smá stund og vera gestgjafi – og takist að gera það af auðmýkt og virðingu fyrir því sem gott er og fagurt er til einhvers unnið.

hvorugur þessara pilta sem opnuðu í gær kallar sig listamann – enda þurfa þeir þess ekki. hafa þetta töts fyrir tilverunni sem máli skiptir og skynja fegurðina, hversu andstyggileg sem hún kann að vera.

til hamingju drengir!

21.10.06

oktoberfest

síðustu daga hef ég fengið að heyra ótöluegan fjölda fleygra setninga; svona speki, húmor og orðaleiki, hvert öðru betra. ætti að taka þetta saman í bók en er bara búinn að gleyma þessu öllu...

vinnustaðapartí í gær sem varð einhver alleiðinlegasta samkoma sem ég hef tekið þátt í lengi. hér með hættur slíku með þessu liði enda í miklu betri félagsskap á öðrum vígstöðvum.

eftir þetta partí náði ég hinsvegar að enda í heimahúsi og vera settur í að spila á rafmangsgítar með kornungum dreng sem lék á trommur. hann var greinilega ekki vanur því að spila með einhverjum sem kunni alveg tvö grip þokkalega og ljómaði eins og sólin allan tímann – verulega gaman og vorum báðir svona 10 ára á meðan. er ekki frá því að börn séu betra og skemmtilegra fólk en aðrar manneskjur.

19.10.06

sérsveitin

tók í kvöld þátt í skemmtilegu verkefni:

var í fjögurra manna sérsveit sem aðstoðaði roskinn áhugamálara að hengja upp og raða saman sinni fyrstu myndlistarsýningu. listamaðurinn er Reynir rakari Jónsson, auðmjúkur gagnvart listinni og gegnheill unnandi fagurra hluta.

í sérsveitinni voru auk mín Sigurðru Papa Populus, Óli G. og Eiki. úr þessu varð gott samstarf, skemmtileg vinna og ágæt sýning í Ketilhúsinu, heiðarleg og einlæg.

svo verða einhverjar kápupælingar fram eftir þótt úthaldið hafi nú einhvern tíma verið meira til að vinna 18 tíma vinnudag oft í röð.

16.10.06

glæpir

um þessar mundir er ég í óða önn að lesa handrit að nýrri íslenskri glæpasögu sem snillingurinn í Uppheimum ætlar að gefa út eftir nokkrar vikur. mitt hlutverk er að hanna kápuna og auglýsingarnar.

verulega spennandi verkefni og ætla að gera hvað ég get til að leysa það vel af hendi. sagan er fín og reyndar með betri íslenskum glæpasögum sem ég hef lesið. gaman af þessu og veitti ekki af í haustdrunganum öllum!

15.10.06

unginn floginn

fór með hana Kötlu mína á flugvöllinn núna áðan, um hálfsexleytið. árdegis og nokkuð síðan maður hefur verið á róli á þem tíma að erindast.

hún verður á sunnanverðum Spáni í kvöld og kemur ekki til baka fyrr en næsta vor. spænskunám og frábært framtak hjá minni, stoltur af henni eins og alltaf.

við þessa kveðjustund rifjaðist upp kvöldið sem hún fæddist fyrir tuttugu árum. það kvöld breyttist heimurinn og verður aldrei samur. allt það tilfinningarót kom mér svo gjörsamlega í opna skjöldu.

13.10.06

dimman dettur á

fyrirsögnin er stolin frá Megasi: Tvær stjörnur.

en dimman er dottin á. maður vaknar í myrkri og vakir lengi kvölds í myrkri. saknar sumarsins.

sumarið 2006 kom norður á 17. júní með blómstrandi reyniviði og angandi ösp og sólin skein um miðja nótt. því lauk með dýrðarhausti sem tók enda á sunnudaginn var þegar fór að snjóa og litirnir hurfu af runnum og trjám.

þessa sumars naut ég til fulls og það gerði mig að betri manni. var ekki vanþörf á og vona að það haldi. hef tekið flest viðhorf til lífsins og heimsins til endurskoðunar eins og ég hef svosem nefnt á þessum vettvangi. og held áfram að glenna upp skjáina og líta í kringum mig í forundran að enn skuli veröldin vera í lit. þótt skeggrótin sé orðin svarthvít.

þrátt fyrir að hafa varla tekið frí frá vinnu í sumar náði ég því að fara helgarferðir tvær í Skorradal, Bjarmalandsför yfir Kjöl í afmælisveislu í Árnessýslu, helgarferð á Snæfellsnes og tvær ferðir í Jökulsárgljúfur auk fjölmargra annarra bíltúra, langra og stuttra. og að vera gestgjafi oftar og meira en nokkru sinni. kynnast nýju fólki, styrkja vinabönd. brosandi út að eyrum allan tímann.

sumrinu 2006 er lokið. sakna þess en minnist þess glaður lengi. kveð það með erindi úr kvæði Megasar sem ég nefndi í upphafi:

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.

12.10.06

orð dagsins

það er fátt eins gefandi og fallega orðuð kaldhæðni. þetta fékk ég t.d. sent í dag frá góðum vini:

„Ah, women. They make the highs higher and the lows more frequent.“
(Friedrich Nietzsche)

og í vikunni barst tal að því fyrirbæri að eldast, sem er sívinsælt umræðuefni á mínum aldri. þetta var niðustaðan:
„það er bara um tvennt að ræða. að eldast eða drepast.“

og einhverntíma varð til þessi frasi:
„arfgengir sjúkdómar eru smitandi. þeir smitast í langflestum tilfellum við kynmök.“ (ASvS)

10.10.06

gott fólk

núna á sjötta tímanum byrjaði að snjóa. fyrsta hríð haustsins og grátt í rót.

framundan versti dagur ársins, þegar nagladekkin fara undir bílinn. þoli ekki þá aðgerð – er uppgjöf fyrir langvarandi kulda og myrkri. eftir nokkrar vikur ríkir nóttin allan sólarhringinn. með hverju árinu fellur mér veturinn verr í geð.

aðferðin til að bregðast við því hefur það sem af er öldinni verið sú að hverfa til Gran Canaria upp úr áramótum í nokkrar vikur. af því verður örugglega ekki að þessu sinni. í staðinn er að viða að sér spennandi verkefnum og eiga gefandi samskipti við gott fólk. rembist við að halda mig að verki á báðum þessum vígstöðvum.

það er umtalsverð gæfa í því fólgin að eiga nána og trausta vini, eiga trúnað þeirra og svara í sömu mynt. hef verið svo ljónheppinn að síðustu misseri hefur fjölgað í þeim hópi kringum mig og vinn í því að svo verði áfram. að eiga alltaf reiðubúna öxl til að halla sér að þegar á bjátar, að deila gleði með öðrum.

þetta er vissulega væmin aulaspeki en hef reynt hana talsvert á sjálfum mér. helsta markmið hvers manns í lífinu hlýtur að vera að ná því að vera þokkaleg manneskja. besta leiðin til þess er að eiga samskipti við gott fólk.

8.10.06

heimsyfirráð eða dauði




jæja, þá er bókmennta- og trúbadúrkvöldið frá. var eitthvað það alskemmtilegasta sem ég hef gert um dagana. húsið smáfylltist af ættingjum, vinum og kunningjum og kom þeim satt að segja flestum verulega á óvart með músíkinni. var þarna það fólk flest sem næst mér stendur og konur gerðu sér ferð að sunnan til að vera á staðnum...

enginn smáléttir að vera búinn að þessu loksins, nú er sá pakki ekki að bögga mann lengur.
fleiri myndir hér: http://www.simnet.is/adalsteinn.svanur/pages/bokmkv06.html

gamall vinur og granni frá Kristnessárunum, Hallmundur Kristinsson, sendi mér eftirfarandi vísu í tölvupósti og þykir svo vænt um sendinguna að ég stelst til að birta hana hér án leyfis höfundar:

Að fitla við gítarinn virðist þú vanur,
vel tekst að samhæfa texta og lag.
Ágæti trúbador, Aðalsteinn Svanur,
eigðu að verðleikum hrós mitt í dag.

takk fyrir mig!

5.10.06

reynir


reynihrísla í Glerárgili 4. október. haustið er jú fallegt þótt það sé fullt af þunglyndi og trega.

4.10.06

mannkynið eins og það leggur sig

hafið þið pælt í því hvaða pláss tegundin maður tekur á jörðinni svona samanlagt? hvað maðurinn er stór?
ég skal segja ykkur það. að því gefnu að við teljum 6.000.000.000 sálir í heildina.

við skulum ímynda okkur að við höldum útitónleika þar sem hvert einasta mannkvikindi á jörðinni mætir til að hlusta og sjá. hver maður þarf einn fermetra lands til að rúmt sé um alla standandi á útitónleikum og það er yfrið pláss.
hvað haldið þið að hópurinn þeki stórt landsvæði?
spurði tvö gáfumenni í gær og annar svaraði að hópurinn myndi þekja alla Evrópu. hinn spurði hvort Bandaríkin myndu duga.

staðreynd: Ísland er 103.000 ferkílómetrar að flatarmáli eða þar um bil. sex milljarðar manna með einn fermetra á mann þurfa 6.000 ferkílómetra. ergo: mannkynið upp á endann þekur um 6% af Íslandi. við gætum t.d. haldið þessa útitónleika norðan við Vatnajökul.

pælið í þessu.

3.10.06

miðaldra

góð vinkona mín er fertug í dag og er að asnast til að taka það nærri sér.
var í kaffi hjá henni áðan og hún hefur aldrei verið flottari og er á fullu að mennta sig. stendur sig eins og hetja í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. lætur samt þetta smotterí bögga sig.

veit að það tekur meira á stelpur en stráka að fara inn á nýjan áratug en blæs samt á að það sé einhver katastrófa. hvert æviskeið er blómatími sé rétt á haldið og hef alla vega notið þess verulega að vera á fimmtugsaldri – er jafnvel að segja að hugsa um að gera það í nokkur ár enn. eitt er t.d. að fullorðið fólk er loksins farið að hlusta á mann.

en það er líka vinna að njóta lífsins og þarf að sinna því starfi af alúð til að viðunandi árangur náist.

1.10.06

bræðurnir Aðalsteinsson 1.10.06