28.8.07

áfengisbölið verður að hafa sinn gang


eins og lesendur vita er ég mikill unnandi áfengis. þess vegna svíður mér staða þess í samfélaginu, enda er hún stórundarleg.

við búum við gamalgróna ríkiseinkasölu og vel má vera að það sé eina rétta leiðin. hef samt verulegar efasemdir. kaupi hins vegar þau rök að verði sala á bjór og vínum leyfð í verslunum muni það leiða af sér hærra verð, minna framboð og verri þjónustu. eins og maður sér svo allt of víða seinni árin með aukinni samþjöppun og hringamyndun í verslun. og rétt að geta þess sem ÁTVR hefur gert vel á undanförnum árum með stóraukinni og bættri þjónustu, amk á stærstu stöðunum.

það er líka mjög vafasamt að banna áfengisauglýsingar meðan þær blasa hvarvetna við í sjónvarpi og í tímaritum. áberandi í íþróttageiranum öllum. en harðbannaðar og fyndið að sjá hvað menn komast upp með í þeim efnum. ólæsilegt orðið léttöl einhvers staðar úti í horni á skilti eða auglýsingu réttlætir grímulausa áfengisauglýsingu. mér finnst þetta bara fyndið.

jafn skondið er að maður getur labbað sig inn í Staðarskála eða söluskála KS í Varmahlíð og keypt sér flöskubjór í sjoppunni. kaldan meira að segja.

og að láta sér detta í hug að bæjarbragnum í miðborg Reykjavíkur verði breytt með því að hætta sölu á kældum bjór í ríkinu í Austurstræti er aumkunarverðari hugsunarháttur en tárum taki. enda hefur forsjárhyggja undir þessum formerkjum aldrei leitt neitt af sér en í besta falli yfirklór.

27.8.07

Cohen i Populus

á miðnætti síðasta laugardags hófust tónleikar í Populus tremula þar sem húsbandið góða flutti lög og kvæði kanadíska meistarans Leonards Cohen.

er skemmst frá því að segja að mínir ágætu vinir og félagar voru guðdómlegir – takk fyrir mig!

20.8.07

vargöldin í miðbænum

innan fárra daga lýkur búskap mínum í miðbæ Reykjavíkur þegar ég flyt út Tryggvagötu og inn í Laugardal.

téður miðbær hefur verið mikið í fréttum undanfarið, bæði vegna meints stríðsástands þar að næturlagi um helgar og líka vegna fyrirhugaðs niðurrifs gamalla húsa neðst við Laugaveg.

nú er það svo að þótt ég hafi búið síðustu sjö mánuði í jaðri miðbæjarins hefur vargöldin um nætur farið gjörsamlega framhjá mér og ég hef ekki haft sinnu á því að vera hræddur við að láta sjá mig í bænum um helgar. að vísu lítið verið á næturgöltri og kannski þess vegna sem ég er óstunginn enn af uppdópuðum hnífamönnum. ekki svo mikið sem verið vakinn upp um nætur af skrílslátum. en svosem vel í sveit settur hvað þetta varðar með gluggana út í portið bakvið hús.

Vilhjálmur borgarstjóri er reyndar búinn að finna brelluna sem á að leysa þennan „vanda“. og hálfnaður að koma henni í framkvæmd. það er semsé búið að fjarlægja ísskápinn í ríkinu við Austurstræti svo þar fær maður ekki lengur kældan bjór. væntanlega allt annað líf í bænum á eftir. til að bíta höfuðið af skömminni vill Villi þessi helst loka þessari sömu búð.
sem er einhver hjákátlegasta ræsisendaaðgerð sem ég hef heyrt fleygt lengi. pissa í skóinn.

---

samtímis er mikið fjallað um þessa tvo húskofa við Laugaveginn sem bisnissmenn vilja rífa og nýta lóðirnar undir stærri hús sem skili meiri arði. nýta lóðirnar. hef sjálfur lúmskan grun um að þarna séu menn á villigötum, þótt ég sé engin sérstök málpípa friðunar alls sem gamalt er. en þetta er varasöm stefna eins og reyndar allt bullið í tengslum við töfrahugtakið „þéttingu byggðar“. á þeim vettvangi hafa á síðustu árum verið gerð stórkostleg mistök í Reykjavík, blokkahverfin nýju í Túnunum og í Sogamýri skýrustu dæmin um það.
og borgaryfirvöld (svipað mál uppi í miðbæ Hafnarfjarðar síðustu daga) standa með lóðareigendum sem verða að byggja stórt til að lóðirnar skili ásættanlegum arði.

---

ég er með tillögu um allsherjar lausn á þessum deilumálum um stórhýsi í grónum miðbæjum. gerum tilraun í Reykjavík.
tillagan er sú að verk- og valdsvið Óbyggðanefndarinnar svokölluðu verði víkkað út og hún fái umboð til að gera kröfu til þess að Laugavegur, alla vega neðanverður, og Kvosin öll verði gerð að þjóðlendu með öllu því sem þar stendur.

væri nefnilega fjandi gaman að fylgjast með viðbrögðum hús- og lóðareigenda í Reykjavík ef ríkið tæki hús þeirra og lóðir eignarnámi með sama hætti og það hefur verið að gera með land í einkaeigu í stórum stíl á landsbyggðinni síðustu árin.

í framhaldinu mætti hugsa sér að fletta malbikinu af Laugaveginum og sjá til þess að hann verði að holóttum drullupollamalarvegi í staðinn, svona af því að það er svo miklu sætara og umhverfisvænna.

17.8.07

þúsund ár dagur, ei meir

í dag er liðið ár frá því að þessi bloggsíða var tekin í gagnið. og umtalsvert vatnsmagn til sjávar runnið síðan og miklar vendingar orðið á högum bloggarans. og ekki séð fyrir endann á því róti þar sem flutningar eru framundan á næstu dögum.

á fyrsta bloggdegi fékk ég sendingu frá félaga mínum og vini, Kristjáni Kristjánssyni, þar sem hann dró mig sundur og saman í háði fyrir að leggjast í blogg. vitnaði þá í hann og geri aftur í tilefni dagsins:

... „Bloggið er reyndar soldið sérstök sjálfspyntingaraðferð - en klárlega í anda þeirra syndasela sem vilja AGA sig til ákveðinna verka sem þeir alla jafna myndu aldrei láta sér detta í hug að nenna að inna af hendi - eins og að halda sálardýpkandi dagbók eða setja saman skárri texta en kjaftæði um daginn og veginn."

---

stefnan er sú að byrja aftur að skrá athugasemdir um lífið og tilveruna á þessari síðu, hef hunsað það í blíðunni í sumar.

ekki nóg með það...

í tíufréttum á RÚV í gærkvöldi var sagt frá fjölda heimilislausra í Kaupmannahöfn og griðastað fyrir unga heimilislausa Dani.

vissulega vont að þarna sé mikill fjöldi heimilislausra en ágætt að eitthvað er verið að klóra í bakkann. það sem vakti athygli mína var orðalag fréttamannsins í lok fréttarinnar um þessa ungu heimilisleysingja, eitthvað á þessa leið:

„það er ekki nóg með að þetta fólk sé undir þrítugu, drjúgur hluti þess er einnig háður áfengi og eiturlyfjum."

eymingja fólkið – ekki bara dópistar og fyllibyttur heldur líka svo hörmulega sett að vera undir þrítugu!
má þakka fyrir að vera ekki allt undir 23ja ára aldri... en kannski er það ekki jafn heilög tala fyrir yfirvöldum í Køben eins og hjá þeim á Akureyri.

15.8.07

Reykjanes er töff



smábíltúr að kvöldlagi í vikunni að Kleifarvatni, Krýsuvík og Vigdísarvöllum. magnað umhverfi og hafði ekki komið áður að Vigdísarvöllum. í kvöldsól er þetta ævintýraheimur, hrjóstrugur og kaldranalegur en ægifagur. maður hugsar ósjálfrátt til Kjarvals.

neðri myndin er úr mosavöxnu hrauninu nærri Vigdísarvöllum, hin frá Fúlapolli við Seltún. þar er hressandi hverasvæði sem minnir um margt á hveraröndina við Námaskarð þótt minni sé í sniðum. sýður allt og kraumar og kæmi ekki á óvart að sjá þrífork gægjast upp úr brennisteinsútfellingunum. örstuttur bíltúr frá höfuðborginni í annan og gjörólíkan heim. af nógu slíku er að taka.

13.8.07

gay pride







fylgdist á laugardaginn var með gleðigöngu samkynheigðra. frábær dagur, mikil gleði og umfram allt samstaða og einhugur. tók slatta af myndum og hér eru nokkur sýnishorn. og þótt dómkirkjan og Jón Sigurðsson snúi baki í gay pride vakti athygli að hópur presta tók þátt í göngunni. sem mér fannst ansi mögnuð yfirlýsing.

frá upphafi gay pride á Íslandi hefur veðrið leikið við göngufólk. því hefur verið haldið fram að það sé staðfestig á því að guð sé hommi.

8.8.07

Akureyri kvödd


á föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi afhenti ég og kvaddi Spítalaveg 15 á Akureyri eftir 24 ára gifturíka búsetu þar, með hléum reyndar. búinn að selja.

þarna var æskuheimili barna minna og í þessu húsi bjó ég allan fyrri helming fullorðinsáranna. mun sakna staðarins og einkum útsýnisins en þeim söknuði fylgir enginn tregi.

með þessari aðgerð hef ég slitið önnur tengsl við Akureyri en vina- og fjölskyldubönd, enda búa krakkarnir mínir þar allir. en verð að öllum líkindum minna á ferðinni fyrir norðan eftir þessar breytingar en verið hefur þetta hálfa ár eftir að ég kom suður um.

í Eyjafirði á ég þó enn mitt einbýlishús að Niðurlotum, heila 6 fermetra (að utanmáli) og tveggja hektara skóg. það er mér kappnóg aðstaða, svona í sól og sumaryl amk.

eyjar











var svo lánsamur að dvelja í Vestmannaeyjum dagana 27.-29. júlí sl. í góðum félagsskap.

heillandi umhverfi og vorum svo heppin með veður að það hálfa væri hellingur. upplifði hvítalogn á Stórhöfða.

skil ekki enn af hverju ég hafði ekki komið þarna áður. magnaður staður, náttúra og saga. bærinn fallegur en kynntumst heimamönnum lítið, vorum að sinna öðru.

læt myndirnar duga að sinni.