25.6.07

sældarlíf




mikið fjandi er gott að vera á Krít!

að vísu er yfirstandandi hitabylgja sem fór stigvaxandi frá fyrsta degi og náði hámarki í gær, daginn eftir að við Signý komum heim. sem þýddi að undir vikulokin var orðið illbærilega heitt fyrir mig – yfir mann lagðist slen og hvergi hægt að vera nema í skugga. en æðislegt samt.
ætla ekki í neinar langlokur um þetta. var dýrðlegt frí í letilífi. sól, sjór og sandur milli þess sem maður rannsakaði gríska matargerðarlist sem sló mig algerlega út af laginu, er hreint frábær.

gamli bærinn í Hania er yfirgengilega flottur og elstu byggingar 900 ára gamlar.

15.6.07

nýtt líf – nýtt símanúmer

hef skipt um farsímanúmer. það nýja er 893 8560.

hef líka hætt störfum í skiltabransanum og flýg til Krítar á morgun. hlakka svo til að komast í sólarfrí að því verður ekki með orðum lýst. og hver veit nema maður druslist til að blogga eitthvað að því loknu...

1.6.07

sumarið er að renna í hlað

maí fór að mestu framhjá mér þetta árið og er það miður. kosturinn við maí er birtan og lífið sem vaknar um allt. vann þennan vormánuð af mér og missti eiginlega af vorinu.

sumarið kom svo í gær með hlýindum og þyt í laufi um alla borg.

núna á eftir ætla ég að stíga um borð í Fokker 50 og halda norður – eyða helginni í sumarblíðu með krökkunum, vinum og ættingjum auk þess að afhenda íbúðina í Spítalaveginum nýjum leigjendum. er meira á dagskránni en ég mun komast yfir en hlakka til að hitta mitt fólk.

spennandi tímar

hjá okkur félögum, mér og Kristjáni Kristjánssyni í Uppheimum, eru spennandi tímar og skemmtilegir framundan.

Uppheimar hafa verið talsvert í sviðsljósinu undanfarna viku enda útgáfan að koma inn á sviðið í bókaútgáfu með afgerandi hætti um þessar mundir. til Uppheima leitar nú hver stórkanónan úr bókmenntakreðsunum af fætur annarri.

á höfundalista útgæfunnar eru nú til dæmis:
Ævar Örn Jósepsson, sem nýverið var tilnefndur til Glerlykilsins.
þar er líka Ari Trausti Guðmundsson, sem kemur með nýja skáldsögu í haust og hefur gefið út ljóð og skáldsögu á vegum Uppheima nú þegar.
Böðvar Guðmundsson kemur eftir langt hlé fram í sviðsljósið á árinu með smásagnasafn – fínar fréttir fyrir lestrarhesta.
Bjarni Bjarnason verður einnig með nýja skáldsögu og á næstu vikum verður skáldsaga hans, Endurkoma Maríu, gefin út á ensku á vegum Uppheima. Einnig munu Uppheimar gefa Vargatal Sigfúsar Bjartmarssonar út á ensku í sumar.
Frétt vikunnar er svo sú að einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar, Gyrðir Elíasson, er genginn til liðs við Uppheima og í haust kemur út ný skáldsaga eftir hann. handritið ætla ég að lesa á Krít eftir hálfan mánuð.

læt þýðingapakkann biða næstu færslu en þar er einnig margt forvitnilegt og þýðendur ekki af verri endanum.

fyrir bókabéusinn er það hreinræktað ævintýri að fá að taka þátt í þessu. það er augljóst orðið að Uppheimar eru að taka sér stöðu í íslenskum bókmenntaheimi sem metnaðarfullt útgáfufyrirtæki sem góðskáldin eru að flykkjast til. það byggir á því að Kristján hefur gert allt rétt og vel frá upphafi og heldur því áfram. ég hlakka til þess eins og jólanna í æsku að losna úr öðru harki og vinna fyrir Uppheima óskiptur og heill. er þess fullviss að við munum blómstra.