26.7.07

gersemi



lék túrista í gær og fór á Þingvöll og þaðan að Geysi. var eiginlega ekkert sérstakt, búinn að koma á þessa staði of oft til að þeir nái að heilla mann, jafnvel í dýrðarverðri eins og í gær. var reyndar gaman að keyra Lyngdalsheiðina eins og alltaf.

en eftir að hafa séð Strokk freta þrisvar var haldið örstutta leið inn í skóginn í Haukadal þar sem Skógrækt ríkisins hefur ræktað gífurlega barrskóga á undanförnum áratugum með frábærum árangri.

fyrir nokkrum árum var gert mikið átak í lagningu göngustíga og merkingum í skóginum og er skemmst frá því að segja að þetta er magnað útivistarsvæði. stígurinn upp með Svartagili er frábær og umhverfið allt feikifallegt og raunar framandlegt með þessum hávaxna barrskógi.

við Geysi var fjöldi fólks í bálhvössum norðanþræsingi en í skóginum, þar sem ekki hreyfir vind, var varla kjaftur á ferð.

látið ekki þessa perlu fram hjá ykkur fara og gangið upp í gilið næst þegar þið verðið á þessum slóðum.

24.7.07

fygli




þessa glæsilegu portrettmynd af smyrilsunga tók Heiða systir mín á Héraði á sunnudaginn var. get ekki stillt mig um að flíka henni hérna.

kríurnar og æðurin voru gómuð við Gróttu að kvöldi 12. júlí.

grefillinn






Atli Sigfús átti semsé afmæli á dögunum og af því tilefni fékk hann afhentan pakka að Niðurlotum um helgina. í pakkanum var grafa sem þeir bræður hjálpuðust að við að setja saman og koma í starfhæft ástand. algjört hit! smá myndasyrpa af því ferli og að lokum ein af Sigurði Ormi sem er að læra á gítar um þessar mundir. í stopulu heimanámi hjá pápa sínum.

flækingur








meira af svona persónuegum fréttum af eigin högum:

í rúman mánuð hef ég verið á stanslausum flækingi og svo verður áfram næstu vikur. og hef notið þessa dýrðarsumars sem verið hefur undanfarinn mánuð. glórulaus blíða upp á hvern dag síðan við komum frá Krít fyrir mánuði.

síðan þá er ég búinn að keyra tæpa 6.000 km. tvær langar helgar fyrir norðan, með strákunum á Niðurlotum og tvær helgar í bústað í Borgarfirði. búinn að fá alveg nýja mynd af því héraði og kynnst því betur. fór m.a. langa göngu frá Stóru-Skógum að Hreðavatni. Aldeilis frábært svæði og ekki spillti að rölta þessa 15 km í logni og +20°C hita með stelpunni sem maður er svona líka skotinn í.

framundan eru Vestmannaeyjar um næstu helgi og svo norður að Svínavatni og vonandi eitthvað til Akureyrar um verslunarmannahelgina. enda erindi þar sem Populusmenn munu standa fyrir tvennum tónleikum. Kristján Pétur í Deiglunni og Baldvin Ringsted, Bela, í Populus.

myndirnar að þessu sinni eru allar úr Borgarfjarðarhéraði, póstkortaklisjur úr blíðunni, teknar á nýja viðhaldið: Canon EOS400D...

17.7.07

Quatro Años


Atli Sigfús Aðalsteinsson er fjögurra ára í dag!

þessi eldklári og íðilskemmtilegi sérvitringur hefur náð þessum merka áfanga í lífinu. ætla að knúsa hann hressilega um næstu helgi fyrir norðan. og svara játandi þegar hann spyr: „Þú ert pabbi minn, er það ekki? Og ég er sonur þinn?“ býst við að um helgina náum við að vera vinnumenn um stund að Niðurlotum.

3.7.07

Niðurlot














kominn að Niðurlotum í júnílok 2007. nokkrir dagar í sól og skógi við varðeld um nætur með þeim sem eru kærastir. myndirnar sýna ekki allt það fólk en þeim mun meira af pöddum og flugum. dýrðardagar við innanverðan Eyjafjörð og hunsaði vini og félaga á Akureyri. svo miklu betra að verja tímanum við holugröft og bílaleik, badminton og blak, grill og gítarspil við eldinn.

Sigurður Ormur kenndi Atla, litla bróður sínum, hvernig maður kveikir, heldur logandi og umgengst varðeld. og hvernig maður umgengst bitlausa öxi til að kljúfa viðinn. gestum var boðið upp á ketilkaffi.

sá sami Sigurður gróf holu sem er slíkt mannvirki að hann var kominn langt niður fyrir landnámslagið. og mætti innrétta meðalstóra leiguíbúð í þeim kjallara sem er girtur jarðvegi eldri en nám Helga og Þórunnar á landi í Eyjafirði.

bjuggum í góðum félagsskap kóngulóa, geitunga og þúfutittlinga. uglur sáust ekki að þessu sinni og voru vonbrigði. skyldi varp hafa brugðist?

undir helgarlok flaug Signý norður og náðum að njóta þess að fjöllin fyrir handan urðu bleik af ungri sól.