26.2.07

nafni

25.2.07

Nýr bloggari!

jæja, nú er Sigurður Ormur farinn að blogga enda á ellefta ári. sjáum hver eljan verður enda kallinn almennt ekki tölvuvæddur, hvað þá netttengdur. en byrjar á þessu í föðurhúsum og verður kannski þannig.
slóðin á strákinn er: http://www.blog.central.is/sigurdurormur

24.2.07

óhreinu börnin hennar Evu

hef markvisst forðast að kjafta hér um dægurmál hverju sinni. t.d. ekki skrifað orð um Byrgið eða Breiðavík. en nú fæ ég ekki orða bundist. klámhundarnir og „þjóðarsáttin“ um að hafna þeim.

nú hefur semsagt samfélagið sameinast undir forystu borgarstjórnar Reykjavíkur og annarra merkra stofnana og samtaka um það merka framtak að úthýsa hópi fólks vegna þess á hvaða vettvangi það hefur kosið að starfa. semsé í klámiðnaðinum. og hælist um að hafa haft árangur sem erfiði.

ástæðan er sú að þessi iðnaður er Íslendingum og Íslandi ekki þóknanlegur. skinhelgin sem af þessu öll skín er himinhrópandi.

ekki svo að skilja að ég ætli að mæla þessum bransa bót; ekki vafi á því að innan hans grasserar alls konar viðbjóður. sem á við um allan bisness sem veltir alvöru peningum.

fáar iðngreinar standa traustari fótum í mannheimum en klámiðnaðurinn. vegna þess að hann nærist á grunnatriði í eðli skepnunnar. greddunni. allir þekkja klám. allir skoða klám. með einum eða öðrum hætti. hvað sem mönnum kann að finnast um bransann. eða eins og Davíð kall frá Fagraskógi orti fyrir lögnu: „Sumir gera allt í felum.“ orti þar í orðastað stelpunnar sem öfundaði húsfreyjuna á Melum.

kjarninn í þessu máli öllu er hins vegar ótengdur kláminu sjálfu heldur því að hér sé hægt að sameinast um að úthýsa tilteknum hópum, starfsstéttum eða öðrum sem eiga eitthvað sameiginlegt, á þeim forsendum að þeir séu okkur ekki þóknanlegir af einhverjum ástæðum. ættum við til dæmis að hafna því að ljótt fólk komi til íslands? allir vita að hvergi á byggðu bóli býr fallegra fólk en á Íslandi – eigum við ekki að setja á lágmarkskröfur um útlit þeirra sem gista landið? hátt enni, beint nef...

23.2.07

höfuðborgarsólin


hef lengi gert óspart grín að mítunni um veðurblíðuna á Akureyri og rokið og rigninguna sem eilíflega á að vera í Reykjavík.

vann mér m.a. óvild nokkurra Akureyringa fyrir margt löngu þegar ég vann út frá staistík í þessu efni á samsýningu í Listasafninu á Akureyri. þar sem mælingar sýna fram á umtalsvert hærri meðalhita í Reykjavík og tala nú ekki um fjölda sólskinsstunda sem er miklu meiri hérna syðra.

er í sjálfu sér ekkert upptekinn af þessu – nema þessari bráðfyndnu mítu um hina eilífu blíðu á Akureyri. það er í raun ekkert annað en markaðssetning og áróður sem hefur tekist með afbrigðum vel. er í rauninni að mestu leyti lygi.

og ólst upp við sífellt ergelsi fyrir norðan þegar Jón Múli var ör af sumarblíðunni í morgunútvarpinu á gömlu gufunni og talaði um höfuðborgarsólina. og að hitamælingarnar væru kolvitlausar af því að þær væru gerðar á Veðurstofunni uppi á Öskjuhlíðarhálendinu. þetta fór svo í taugarnar á Eyfirðingum að Jón var hataður fyrir vikið.

í tilefni af þessum pælingum er hérna mynd sem var tekin af svölunum á Perlunni núna áðan í frábæru veðri. síðustu viku hefur mér fundist vera maí en ekki febrúar.

reyndar orðaði góður vinur minn það þannig í mín eyru á dögunum að veðurfarið síðustu misserin væri eins og vél sem hefði verið tekin sundur en menn ekki kunnað að raða rétt saman. allt virkar öfugt og út úr kú.

21.2.07

matvælaverð og vaskur

er ekki alveg að skilja þessar meiningar sífellt undanfarið í fjölmiðlum um lækkun viriðsaukaskatts á matvæli um næstu mánaðamót. gengur allt út að efast um að þessi lækkun skattsins skili sér til neytenda og hafa þurfi massíft eftirlit með því að svo verði.

sko, ég veit ekki betur en verð matvæla sé frjálst á Íslandi og stýrist af samkeppni. og hvað sem öðru líður þá er nú virk og raunveruleg samkeppni á þessum markaði – þótt verðlag sé vissulega hátt á evrópskan mælikvarða.
en því verður ekki stjórnað með tilskipunum þar sem álagning er frjáls.

sé ekki nokkra ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu. þarna mun nefnilega sístemið um frjálsa samkeppni virka. það gerir það annað slagið. þeir selja einfaldlega mest sem bjóða lægsta verðið. nú og svo lætur maður sig stundum hafa það að borga meira til að fá góða þjónustu og vöruúrval.

19.2.07

símanúmer og addressa

til að það sé nú alveg á hreinu er nýtt farsímanúmer 864 0366.
stórmál að skipta svona um símanúmer. verður langt þangað til ég verð búinn að læra það.

gamli heimasíminn, 462 6078, er í fullu gildi.
vinnusíminn er 565 4400.
vinnunetfang er adalsteinn@focus.is

og póstáritun er:
Tryggvagata 6, íbúð 201
101 Reykjavík.

17.2.07

bókastúss

undanfarið hef ég auk annarra hluta verið mikið að stússast í kringum bókaútgáfu. og færst í aukana frekar en hitt.

hef eins og menn vita tengst Uppheimum mikið frá stofnun þess fyrirtækis sem hönnuður á kápum og kynningarefni. er nú kominn á skrá yfir starfsmenn þess félags enda fara umsvif þess sívaxandi og gaman að taka virkan þátt í því. síðast í gær sendi ég frá mér kápu á kiljuútgáfu á nýjustu glæpasögu Ævars Arnar.

síðustu tvö ár var ég svo mjög innvinklaður í útgáfu Skógarbókar Grænni skóga, ritstýrði því verki framan af auk þess að hanna útlit bókarinnar og leggja drög að umbroti hennar. sagði mig reyndar frá því verki á síðustu metrunum vegna annríkis á öðrum vígstöðvum en bókin kom út með sóma í byrjun desember.

svo núna síðustu vikur hefur það merka félag Populus tremula ráðist í útgáfu lítilla bóka. sú fyrsta kom út í gær – úrval ljóða eftir Jón Laxdal Halldórsson. tengd bókmenntakvöldi sem haldið var í gærkvöld og tókst frábærlega.
Populuskver númer tvö fór frá mér í prentun í gær; textakver Guðmundar Egils sem halda mun trúbadúrtónleika í Populus um næstu helgi. þessir gripir eru prentaðir í 100 eintaka upplagi sem er númerað og áritað af höfundum.

fyrir lok starfsárs Populus tremula í sumarbyrjun verða komnar út lágmark fjórar bækur og nokkur verkefni á teikniborðinu. t.a.m. er þegar ákveðið að gefin verða út kver með textum Kristjáns Péturs Sigurðssonar og Guðbrands Siglaugssonar í tenglsum við trúbadúrakvöld þeirra síðar í vetur.

þetta er bráðgaman og á tímum stafrænnar prenttækni hlægilega auðvelt í framkvæmd.

að framanverðu



hér eru svo tvær myndir af mínu nánasta umhverfi að framanverðu. svona 20 metra gangur á kajann og á fallegum febrúarmorgni er þetta makalaust fínt að hafa í kringum sig. meira að segja hvalbátarnir eru flottir.

14.2.07

Grjótaþorpið


þetta er eina myndatakan í borg óttans enn sem komið er. hluti af umhverfi mínu af veröndinni sem snýr inn að Grjótaþorpi. mér finnst þetta fínt útsýni þótt kunnugum í Spítlavegi þyki ekki mikið til koma.
er svona almennilegt gamalt port í elsta hluta borgarinnar.

13.2.07

vantar gistipláss á Akureyri um páskana

jæja. orðinn húsnæðislaus á Akureyri og þarf að vera fyrir norðan um páskana. stefnan sett á sýningu í Deiglunni og halda uppá aldarfjórðungs starfsafmæli í myndlistarbransanum.

semsagt: ef þið vitið af húsnæði sem þarf að gæta eða stendur tómt um páskana er ég reiðubúinn! eða þolanlega gistingu á viðráðanlegu verði. líklega norður á skírdag og heim á annan páskadag. samt ekkert verið neglt í því.

látið mig endilega vita ef ykkur dettur eitthvað í hug.

meira um Kjalveg

þetta er nýjasta áhugamálið. Kjalvegur hinn nýi.

skv. skoðanakönnun Fréttablaðsins er rúmur meirihluti þjóðarinnar mótfallinn uppbyggðum vegi yfir Kjöl. samt þó nokkur meirihluti þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins hlynntur hugmyndinni.

hin nýtilkomna „umhverfisvitund“ Íslendinga er á undraskömmum tíma að kljúfa þjóðina til mikilla muna meir en áður hafði tekist í þéttbýli (suðvesturhornsins) og dreifbýli. umhverfisvitund sem Draumalandið og Ómar lands og þjóðar eiga drjúgan þátt í.

ekki misskilja mig svo að ég sé fyrirfram á móti umhverfis- eða náttúruvernd. hef beinlínis verið og verð áfram talsmaður slíkra sjónarmiða eins og nánast allt það fólk sem byggir jarðarkúluna og á til hnífs og skeiðar. það er hins vegar þegar umræðum er stýrt á villigötur með tilfinningarökum sem eiga sér litla stoð sem ég neita að fylgja múgnum. Bryndís Schram orðaði aðspurð hvort hún væri umhverfisverndarsinni svar sitt eitthvað í þá átt að það væru að sjálfsögðu allir.

sú umhverfisvernd sem byggir á því að friða umhverfi annarra til að eiga aðgang að því sjálfur á sunnudagsrúntinum í júlí er tilgerðarleg og beinlínis skammarleg. ofneysla, sóun náttúruauðlinda og brjálæðisleg bílaeign þéttbýlisbúa (eins og reyndar flestra Íslendinga) er staðreynd og eykst stöðugt. samhliða brjálæðislegum framkvæmdum, ekki síst við umferðarmannvirki til að bera bílaflotann. á sama tíma vilja hinir sömu hindra vegabætur sem óhemjuhagsmunir heilla byggðarlaga byggjast á. byggðarlaga í dreifbýli nota bene.

vissulega myndi Kjölur breytast við að þar lægi almennilegur vegur. en gleymum því ekki að þar hefur legið vegur frá því að land byggðist. líkt og Hellisheiði breyttist við Suðurlandsveg og breytist enn þegar hann verður tvöfaldaður. sem er, líkt og heilsársvegur um Kjöl, mikið samgöngubót og heillaskref.

12.2.07

kúnst og kúnstir á Kjarvalsstöðum

datt inn á fínar sýningar á Kjarvalsstöðum um helgina. önnur þeirra, K-þátturinn, er sett upp af Einari Garibalda, þeim ágæta myndlistarmanni, sem velur verk á sýninguna og stýrir henni. varpar hátíðleikanum fyrir róða og hefur valið frábær málverk á þessa sýningu. það er sífelld nautn að rýna í góðan Kjarval – tala nú ekki um fyrir fólk með ástríðu fyrir málverkum. hlutur Kjarvals og val Einars á verkum málarans er semsé afburðagott.

öllu verri er umgjörð sýningarinnar. að mínu mati sumsé. því einhverra hluta vegna eru í öllum hornum salanna tveggja, sem sýningin er haldin í, skilti niðri við gólf með númerum og textum. skiltin eru stór og hvít, giska á svona 60x120 sm á stærð með neongrænum texta og köntum. er bara ljótt. forljótt. æpa á gesti og vinna grimmilega gegn málverkunum.

þarna eru menn með kúnstir við kúnstina sem er ekki að gera sig. svona nokk hafa menn kallað listrænt rúnk.

enn mun reimt á Kili

auðvitað á að leggja heilsársveg yfir hálendið. Kjölur sjálfsagt ekki verri leið en hver önnur.

og almennilegan upphækkaðan og malbikaðan veg. hvað sem jeppaeigendur í þéttbýli rembast við að halda einkarétti á öræfunum í krafti þess að eiga sinn Hummer eða breyttan Land Cruiser.

helst af öllu hefði ég viljað sjá hugmyndir um alvöru hraðbraut þarna yfir þar sem leyfður ökuhraði væri svona 120 eða 130 km/klst. með því mætti stytta ferðatímann milli landshluta enn frekar en tekst með styttingu. en þetta er útópía og ég veit það.

möguleikar héraðanna beggja vegna fjalla við slíkan veg eru óteljandi og mikilvægir. eða af hverju halda menn að sveitarfélög eins og Árborg séu hluthafar í Norðurvegi? og skiptir miklu meira máli en stytting milli Akureyrar og Reykjavíkur ein og sér.

þau rök Ómars lands og þjóðar að með slíkri framkvæmd sé gripið fram fyrir hendurnar á komandi kynslóðum eru að mínu mati ekki rök. því það er nokkurn veginn alveg sama í hvaða framkvæmdir við förum, við erum að gera akkúrat þetta. hefur verið þannig síðan á steinöld. menn hafa ekkert verið að kvarta yfir þessum þætti þegar hugað er að tvöföldun Reykjanesbrautar (sem er frábær framkvæmd) eða lagningu Sundabrautar.

9.2.07

elli nyrðra


elli kallinn, Erlingur Jón Valgarðsson, opnar málverkasýningu í Gallery Jónas Viðar í Listagilinu á morgun, laugardag, kl. 14:00.

músík og allt á opnun. gangi þér vel kammerat!

7.2.07

101

jams. kominn í áfangastað í 101. nokkuð síðan reyndar en ótengdur enn og hálf sambandslaus við umheiminn þess vegna. býst við símalínu á morgun eða hinn og þá er allt klárt.

bý semsagt á mögnuðum stað. í jaðri Grjótaþorps niðri við höfnina. í gamla hverfinu mínu síðan fyrir réttum 20 árum. og verulega gaman að búa sér til heimili á nýjum stað. íbúðin er sú minnsta sem ég hef búið í fram að þessu en smellpassar utan um mig akkúrat núna. handan við götuna, svona 20 metrum frá útidyrunum hjá mér er Sægreifinn með hættulega góða humarsúpu.

byrja að vinna á nýjum stað strax eftir helgi og veitti ekki af nokkrum frídögum eftir hamagang síðustu viku. var útkeyrður. kominn í fínt form núna og nýt lífsins.

svo áður en langt um líður þarf ég að fara að huga að því að undirbúa næstu sýningu sem verður í Deiglunni um páskana. verður stórfamæli því á næstu páskum verða liðin 25 ár frá því að ég hélt mína fyrstu sýningu. aldarfjórðungur í myndlist semsé.

allt í blóma og sólin skín.

1.2.07

tilvitnun dagsins

„Það eru sérstök hlunnindi að líka vel við stúlkuna sem maður er ástfanginn af.“

þetta er haft eftir Clark Gable í Fréttablaðinu í dag. er algjörlega sammála sjarmörnum og hef orðað þetta með svipuðum hætti. er nefnilega ekki sjálfgefið að þetta tvennt fari saman. lít á mig sem gæfumann að vera í þessari stöðu.