29.4.07

á hverfanda hveli

vinn í því að þróa nýju tilveruna og nú er allt breytingum undirorpið.

þegar ég hætti á Stíl í vetur og réði mig í vinnu í Fókus í Hafnarfirði var ég að skipta um vinnu í annað sinn á aldarfjórðungi, raunar á því sem af er raunverulegri starfsævi. stórmál semsagt.

í vikunni sem leið sagði ég upp í Fókus og mun ljúka störfum þar þann 15. júní nk. sem byggir á því að ég er að flytja mig í fullt starf hjá því góða útgáfufélagi Uppheimum ehf. á Akranesi. með félaga mínum og vini Kristjáni Kristjánssyni sem stofnaði og starfrækir það ágæta fyrirtæki.
hlakka verulega til að takast á við verkefni á þeim vettvangi og svosem enginn nýræðingur í því. verð starfandi hönnuður og mun taka þátt í allri starfsemi félagsins. bókmenntamaðurinn í mér er alsæll – og það er hönnuðurinn og myndlistarmaðurinn líka. tek formlega til starfa í Uppheimum þann 1. júlí.

seinnipart júní tek ég frí og fer með elskunni minni til Krítar.

meira um sundlaugar

það er nefnilega þannig að ég hef talsverðan áhuga á sundlaugum. heimsæki slíka staði oft og örast ef maður er á þvælingi. dr. Gunni er með stjörnugjöf fyrir sundlaugar á vefnum hjá sér – hugsa að ég fari ekkert að feta í þau spor.

sundlaugar eru ávallt börn síns tíma og spegla stefnur og strauma í arkitektúr, túrisma, íþróttamálum og auðvitað pólitískar áherslur á hverjum stað þegar laugin var búin til.

lærði sjálfur að synda í lauginni á Þelamörk í Hörgárdal – 25 m steypt ker með hyldúpum enda þar sem var á þeim árum mikið fjölmúlavíl úr fúaspýtum og þjónaði sem stökkpallur. hámark karlmennskunnar var að dýfa sér af háa pallinum og vildu hné linast við að standa þar uppi. laugin var ísköld, eða þannig. 26-27°C og helvíti á jörð. hataði sundlaugar fram á fullorðinsár en hefur semsagt alveg snúist við.

uppáhaldssundlaugin mín er á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. 50 m steypt laug sem aldrei hefur verið máluð, fjaran við annan endann og kindur á beit í kring. sjóðheit og botninn sleipur af slími. hef átt þar frábærar stundir með krökkunum.

sundlaugin í Borgarnesi er líka æðisleg, hvort sem maður kemur til að leika við krakka eða synda. mikið fyrirmyndarmannvirki og hef komið þangað margoft síðasta árið, raunar oftar en í nokkra aðra laug.

en sem fjölskyldustaður til að leika sér, synda og njóta lífsins á Akureyrarlaug vinninginn. tvímælalaust og er bænum til mikils sóma. þar er allt flott.

sú lélegasta sem ég hef komið í er semsagt á Sauðárkróki og kynntist henni í gær. ferðar virði bara að mæta til að taka út þetta fyrirbæri.

28.4.07

bara svo þið vitið það . . .

sundlaugin á Sauðárkróki er fáránleg. absúrd mannvirki sem ég hvet alla til að heimsækja.

eins og óþægilega stór hluti mannvirkja sem tengjast uppeldi og fræðslu ungdómsins teiknuð og smíðuð á árunum upp úr sjötíu og af slíkri tröllheimsku að það er bara til að brosa að því.

27.4.07

betri er krókur en kelda

undir kvöldið liggur leiðin á Sauðárkrók ásamt Ella. höldum ásamt Guðbrandi Ægi samsýningu á myndlist á Króknum sem verður opnuð á sunnudag og markar upphaf Sæluviku. sjálfur ætla ég suður aftur á morgun eftir upphengingu og sleppa því að vera við opnun enda búinn að vera mikill þvælingur undanfarnar helgar. þetta verður trúi ég bráðgaman og kominn tími til að fá nasasjón af Sauðárkróki sem ég þekki alls ekki neitt. hef farið í kaupfélagsbúðina þeirra stóru og þar með er eiginlega upp talið.

annars er stefnan sett á að koma lífi í þessa bloggsíðu með vorinu.

16.4.07

guði það sem guðs er

að undanförnu hef ég setið þrjár fermingarveislur og tvær framundan í vikunni. skondið því slíka veislu hef ég ekki sótt í tæpan áratug fyrr en núna allt í einu í löngum bunum.

reyndar er það svo að þessar þrjár sem af eru hafa allar verið í fjölskyldu Signýjar, sem er um það bil heilli kynslóð yngri en mitt lið þótt örfá ár skilji okkur að. hennar ættingjar og vinir eru að ferma börnin sín þessa dagana meðan mitt fólk er meira í því að ferma barnabörnin. í gær var elsta systkinabarn Signýjar fermt. í janúar var elsta systkinabarn mitt fertugt... ég hef verið afabróðir í meira en tuttugu ár. þetta með systkinaröðina og tímann er skemmtilegt fyrirbæri.

hitti t.d. fyrir nokkrum árum mann sem er náskyldur mér. hann er líklega um áratug yngri en ég, kannski aðeins meira. þegar við hittumst var Atli minn nýlega fæddur en þessi frændi minn hefði hæglega getað átt 10 - 15 ára gömul börn. skyldleikinn er þannig að langafi þessa manns var föðurbróðir minn! ég og afi hans semsagt bræðrasynir. og hann nokkrum árum yngri en ég.

þetta er skemmtilegt hvernig kynslóðir geta brenglast á einni öld.

já, ætla semsagt ekki að níða fermingar í dag, þótt ég hafi á þeim sterkar skoðanir og sé illa við fyrirbærið. eins og reyndar allt sem frá kirkjunni kemur, eða svo gott sem. ekki orð um það meir í dag.

15.4.07

stelpan á leiðinni heim


seint í kvöld kemur hún Katla mín heim til Íslands. eftir hálft ár á Spáni.

verður æðislegt að fá hana upp á skerið og naut þess að bjarga henni fyrir horn eldsnemma í morgun á flugvellinum í Malaga. með yfirvigt. og framundan alls konar fjölskyldumóment og gestagangur í Tryggvgötunni.

hasar


síðustu tuttugu mínúturnar hef ég upplifað í fyrsta sinni að vera þátttakandi í einhverju sem er eins og almennilegur spennuþáttur í sjónvarpi. mjög áhrifaríkt og kannski ljótt að segja það en mér fannst gaman.

á slaginu tíu upphófust hróp í portinu bakvið húsið mitt sem gluggarnir hjá mér snúa að. hrópað á hjálp. og ósjálfrátt bregst maður þannig við að koma til hjálpar.

um portið hljóp hrópandi maður, hálfklæddur og blóðugur, veinaði á hjálp. ég gaf mig fram við hann og bauð aðstoð. hringdi á 112 og lýsti staðháttum og ástandi mannsins, sem var illa skorinn á báðum höndum. tók hann upp á veröndina, vatt handklæði um hendur hans og talaði hann niður. kallgreyið var í losti, augljóslega illa farinn af sukklíferni og ekki í lagi. en aðallega hræddur og meiddur. var kurteis og þakklátur fyrir aðstoðina.

svo mætti löggan á svæðið skömmu síðar, 4 ungir strákar og bara einn þeirra einkennisklæddur. og voru svo flottir og pro að það hálfa væri nóg. þekktu fórnarlambið og þekktu árásarmanninn strax af gælunafninu. urðu tens þegar þeir áttuðu sig á því að árásarliðið, sem var að handrukka fíkniefnaskuld, væri sennilega enn í húsinu. og þegar sást aftan á strák á mótorhjóli bruna út úr portinu var ljóst að þar var handrukkarinn á ferð og löggustrákarnir brugðust við nákvæmlega eins og maður sér í góðum breskum lögguþætti. hröð, markviss viðbrögð, talstöðvar í eyranu og þustu út. gogogo.

varð stórhrifinn af löggunni þarna. unnu verulega vel og skipulega. djöfullegt hins vegar að vita af svona hlutum í húsinu og í fyrsta sinn sem ég sé eitthvað dúbíus í gangi. en veit vel að ég er staðsettur á varasömum slóðum hvað þetta varðar.

fyrir saklausa sveitastrákinn að norðan var þetta hrein skemmtun. myndin er tekin við dyrnar út á veröndina hjá mér.

14.4.07

væðingin

hef nú verið búsettur í 10 vikur í miðbæ Reykjavíkur. þennan miðbæ hafði ég hunsað nær algjörlega síðustu áratugi en þekkti hann ágætlega forðum, bjó hér nokkrum húsum fjær síðasta árið mitt í Reykjavík fyrir réttum tuttugu árum.

ég rölti ögn um bæinn og síðast núna rétt áðan í vorblíðunni. farinn að kannast við mig á nokkrum kaffihúsum og restúröntum. fyrir nautnasegg sem nennir ekki að elda er þetta varasamt umhverfi. en það er ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur breytinguna á miðbæ Reykjavíkur síðustu 20 ár. sem er bæði mikil og lítil.

ásýnd miðbæjarins hefur ekki breyst í neinum veigamiklum atriðum, helst að viðhaldi húsa hafi farið fram enda eignir í kvosinni fokdýrar orðnar. að vísu eru miklar framkvæmdir í gangi við sjávarsíðuna og kranaskóginn ber við himin.

fyrsta breytingin sem ég tók eftir og er veruleg er að nánast öll verslun er horfin í kvosinni. í Reykjavík er þessi litli miðbæjarkjarni frá Lækjargötu að Grjótaþorpi orðinn pakkfullur af veitingastöðum og kaffihúsum. alls staðar og úr nógu að velja. yfirbragðið er að þessu leyti orðið mjög alþjóðlegt. að vísu eru þessi staðir full einsleitir en gaman að tylla sér á góðum degi við glugga að Austurstræti og lepja kaffi eða öl.

stóra breytingin er í mannlífinu. t.d. iðaði Austurstræti af lífi núna áðan, inni og úti. breytingin er sú að þetta er alþjóðlegur borgarmiðbær. það úir og grúir af fólki hvaðanæva að úr heiminum allan ársins hring. hvar sem maður kemur eru útlendingar innan um og stundum í miklum meirihluta. mér finnst þetta æðislegt og það er fullkomlega vandræðalaust.

og oftar er en ekki er afgreiðslufólkk á matsölustöðum og kaffihúsum útlendingar. angrar mig ekki en gæti gert það ef maður bjargaði sér ekki á ensku.

miðbærinn í Reykjavík hefur semsagt breyst til hins betra og ég nýt þess að vera hluti af honum.

13.4.07

játningar fíkils

er nú farið að teygjast milli færslna, enda vor í lofti og annríki á öllum vígstöðvum. sjáum hvað setur.

en á leið heim úr vinnu í Hafnarfirðinum áðan heyrði ég í útvarpi Umferðarstofu talað um að Borgarnesslöggan hefði um páskana haft afskifti af einum ökumanni vegna ölvunar en fjölda ökumanna (minnir að talan 10 hafi verið nefnd) vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna.

þetta minnti mig á hugtakanotkun sem hefur böggað mig árum saman. semsagt öll þessi samheiti yfir dóp sem eru svo misvísandi og jafnvel notuð í kolröngu samhengi. og þegar ég segi dóp á ég við það sem mér finnst réttast að kalla ólögleg vímuefni.

dettur ekki í hug eitt augnablik að mæla þeim bót – síður en svo. það er hins vegar þessi hugtakafrumskógur sem ég kýs að fjalla um núna.

dóp á eins og allir vita nokkur samheiti sem eru semsagt misgáfuleg. hef þegar nefnt það sem mér finnst ganga en svo eru samheiti eins og eiturlyf, vímuefni og fíkniefni. að yfirfæra þetta allt yfir á ólögleg vímuefni er bull.

nota semsagt sjálfur svona hversdags eiturlyf, vímuefni og fíkniefni. sem öll eru lögleg og teljast til normal daglegs lífs á Íslandi.
– eiturlyfin nota ég t.d. á exemið mitt góða og smyr á það oft í viku.
– vímuefnið er alkóhól. kaupi það út í búð eða jafnvel í kaupfélaginu í Varmahlíð og mestur hluti þess okurverðs sem ég greiði fyrir það fer til samneyslunnar í gegnum ríkishítina.
– fíkniefnin eru flest: fyrrnefnt alkóhól er eitt þeirra. til viðbótar koma svo nikótín (sama ríkishít og samneysla) og loks koffein, sem ég tel magnaðast þeirra fíkniefna sem ég hef ánetjast og myndi síst geta verið án.

þetta eru semsagt bara þau eiturlyf og fíkniefni sem undirritaður er háður. fjöldi fólks er háður öðrum LÖGLEGUM fíkniefnum og eiturlyfjum.

ók tvívegis um umdæmi Borgarnesslöggunnar um páskahelgina og í bæði skiptin proppfullur af þessum efnum öllum, að alkóhólinu undanskildu. en samt með fullt af fíkniefnum í blóðinu. slapp við lögguna að þessu sinni. (það er reyndar annað en segja má um Blönduósslögguna sem nappaði mig á norðurleiðinni á 111. hundraðasta og ellefta meðferð á ökumanni... en er allt annað mál. ríkishítin samt.)

1.4.07

suður með sjó


örstutt hlé á „umræðum“ um auglýsingar.

fór í gær með Signýju í helgarbíltúr suður með sjó. litum á strandið við Hvalnes þar sem Wilson Muuga er búið að standa af sér úthafsbrimið upprétt og óhaggað í ársfjórðung. makalaus fjandi. og útgerðarmenn stefna að því að draga skipið á flot með vorinu. þetta eru töffarar og væru vísir með að ná koppnum aftur út á sjó.

það er eitthvað heillandi við strandað skip, veit ekki hvað það er en er svona samt. mér fannst þetta beinslínis fallegt. var skýjað og dálítið brim í hífandi sunnanroki.

vorum svo heppin að hitta útgerðarmann skipsins á staðnum, eiganda Nesskipa. enginn bilbugur á honum.

hann benti okkur hins vegar á nokkur fiskiker sem stóðu á fjörukambinum í svona 200 m fjarlægð frá veginum sem liggur niður að strandstað. í þessum kerjum er olíumengað þang sem hreinsað hefur verið úr fjörunni. allt í lagi með það, þótt satt að segja hafi ég ekki nokkra trú að olíuleki af því tagi sem þarna varð hafi yfirhöfuð nokkur áhrif á nokkurn hlut í lífríki strandarinnar. enda skoðuðum við í eitt kerið; í því var slatti af þangi og sjó eða rigningarvatni. og olíumengunin var ekki meiri en svo að það var engin olíubrák á vatninu.
í þessi ker er semsagt handtíndur þari á fjörukambinum. til að koma menguðu þanginu burtu (hvert sem það nú kann að vera) er ekki við það komandi að nota nokkurs konar ökutæki heldur er leigð þyrla í verkið.
í þessu öllu er einhver firring, einhver algjör della og misskilningur á því sem máli kann að skipta. efast ekki um að allt er þetta bull af góðum huga gert en er samt bull. af því að ég hef verið talsmaður náttúrverndar alla tíða og er enn leyfi ég mér að segja þetta. þarna er einhver úrkynjun í gangi.