Kveðja til vinar
Sigurður Heiðar Jónsson lést 7. júní 2011.
Þessi mikli öðlingur verður til moldar borinn í dag, 16. júní.
Siggi – mikið skelfilega sakna ég þín.
Það voru engin takmörk fyrir því hvað við gátum kjaftað eftir að við loksins kynntumst. Á tíunda áratugnum þegar miðaldra gæi, lágvær en einbeittur á vínrauðum jakkafötum og með hringlótt gleraugu fór að láta til sín taka á félagsfundum í Gilfélaginu með svo beinskeyttum fyrirspurnum og hnitmiðuðum ábendingum að framhjá varð ekki horft.
Milli okkar varð fljótt kunningsskapur sem hverfðist um skáldskap og aðrar listir, en þróaðist á fáum misserum í vináttu. Vináttu sem með árunum varð dýpri, hlýrri og einlægari en ég hef átt við aðra menn. Og öll þessi kjaftakvöld og -dagar gegnum árin þar sem ekkert var okkur óviðkomandi og enduðu um helgar á Café Karólínu í reykjarkófi, djúpum bjórglösum og rjúpu. Þurftum samt með tímanum ekkert á því að halda að vera kenndir til að tala saman í fullum trúnaði og gráta hvor á annars öxl. Sem við svikalaust gerðum þegar á þurfti að halda. Þú – þetta eldklára ljúfmenni með þína miklu fortíð – gafst mér meira en mér bauðst nokkru sinni færi á að endurgjalda. Og svo veit ég að er um fleiri.
Haustið 1998, þegar þú varst orðinn allt í öllu í Listagilinu, var að þínu frumkvæði gengin fyrsta Ljóðagangan í eyfirskum skógi. Ári síðar steigstu á trjástúf og fluttir kvæðið Haustskógur, eftir Rúdólf Rósenberg – hliðarsjálfið sem þú beittir löngum fyrir þig og lést jafnvel gefa út bók. Þetta kvæði reyndist bera í sér spá um það sem koma skyldi ásamt leiðbeiningum. Því lýkur svona:
hve léttbært er ei lífsins haust og laust við sorg og trega
er litaskrúð í blaðverkinu blindar augu mín
og máttur lífsins virðist ætla að vara eilíflega
í vinafjöld þótt hausti að við leiki, ljóð og vín
Kjarni málsins semsagt. Populus tremula var stofnað haustið 2004. Enginn okkar sem tekið hefur þátt í því starfi er samur eftir. Drjúgur þáttur í hversu gjöfult allt það hefur verið og er, byggir á þeirri staðreynd að í því félagi hefur kynslóðabil ekki þekkst. Þótt aldursmunur sé nægur til að kynslóð eða tvær gætu hæglega skilið að hina elstu og yngstu, hefur ávallt ríkt jafnræði og virðing. Gagnkvæm. Það er þér að þakka, sem hafðir þennan eiginleika að umgangast aðra án fordóma eða fyrirfram gefinna forsenda. Af einskærum áhuga á öðru fólki. Áhuga á lífinu.
Dauðadóminn hlaustu sjálfur fyrir fáum árum. Þessi misseri sem liðið hafa síðan hafa verið samfellt námskeið í því hvernig lifa má með reisn – sigur andans yfir efninu. Skilur okkur hin nú eftir harmi slegin en stolt.
Af öllu því sem hent hefur mig um dagana er það að hafa eignast þig að vini eitt hið allra besta. Öllum sem syrgja færi ég samúðarkveðjur; BHS og börnum þínum öllum votta ég dýpstu samúð, afkomendum nær og fjær, ættingjum, félögum og vinum. Polulusgenginu. Innilegar þakkir öllum þeim sem gerðu þér kleift að bera höfuðið hátt til hinsta dags.
Takk fyrir allt minn kæri vinur,
Aðalsteinn Svanur Sigfússon
2 Comments:
Tek undir hvert orð. Þakka þér Aðlsteinn.
Kristján Pétur
Ákaflega vel mælt - takk fyrir. Þórgnýr
Skrifa ummæli
<< Home