15.1.09

UPP Í KOK AF KJAFTÆÐI

það er orðið langt um liðið síðan ég skrifaði eitthvað um samfélagsmál eða pólitík. kreppuna hef ég kosið að láta eiga sig enda svo yfirfljótandi umfjöllun um efnahagsmál síðustu mánuði að hverri nýrri frétt þarf að troða ofan í yfirfullt kok manns með hlaðstokki.


en nú er mér mál í framhaldi af frétt í RÚV í gær um verðfall á sorpi og stórauknum kostnaði við endurvinnslu.
ég hef í fjölda árað þusað í mínum hópi um endurvinnslu á sorpi og varað við einhliða áróðri og bulli í þeim málaflokki. er þá einkum að tala um endurvinnslu á pappír og pappírsvörum.
fréttin í gær var um að verð sem fæst fyrir m.a. bylgjupappa sem fluttur er úr landi til endurvinnslu hafi fallið um allt að 95% á síðustu mánuðum og nú fáist 5-10€ fyrir TONNIÐ af bylgjupappa. þá er eftir að flytja vöruna sjóleiðis til Skandinavíu og endurvinna hana. mismuninn greiða íslenskir neytendur og skattgreiðendur – kostnað sem er að margfaldast. sem væri í sjálfu sér allt í lagi ef maður bara VISSI að þetta þjónaði þeim tilgangi að vernda náttúruna, hlífa umhverfinu og spara náttúruauðlindir.
eftir stanslausan áróður í aldarfjórðung er það löngu orðið að viðurkenndum sannleika að öll endurvinnsla sé góð; stuðli að minni mengun og betri nýtingu náttúruauðlinda. það er ekki að sjá að nokkur spyrji sig hvort þetta sé alltaf raunin. hvað varðar endurvinnslu á pappír frá Íslandi hef ég verulegar efasemdir og er reyndar sannfærður um hið gagnstæða. rök mín eru eftirfarandi:

1. að því ég best veit kemur nánast allur pappír sem notaður er á Íslandi, t.d. til hvers konar prentunar, umbúða og hreinlætis frá Skandinavíu – semsagt frá Finnlandi og Svíþjóð. pappírsframleiðsla í þessum löndum er sjálfbær og gengur ekki á nokkurn hátt á náttúruauðlindir. ég líki nytjaskógrækt sem þeirri sem stunduð er í þessum löndum við kartöflurækt; það er sáð, uppskorið og sáð aftur. Svíar settu í lög á 19. öld að skógareigendum væri skylt að rækta meiri skóg en þeir fella til nytja og þannig hefur það verið og þannig er það. þess vegna er það út í hött þegar fólk telur sig vera að vernda skóga, jafnvel regnskóga Amason, með því að endurvinna dagblöð og mjólkurfernur frá Íslandi. því skógarnir vaxa þeim mun meira sem meira er höggvið.

2. að endurvinna pappír frá Íslandi hefur í för með sér að auk þess að safna úrgangspappír í þar til gerða gáma eða tunnur úr stáli og plasti (hér minni ég á að plast er framleitt úr olíu og stálframleiðsla er orkufrek og gengur á náttúruauðlindir), flokka og flytja til hafnar og síðan sjóleiðis yfir Norður Atlantshaf. siglingin ein og sér kostar óhemju af olíu með tilheyrandi útblæstri kolefna – semsé mengun sem gengur á náttúruauðlindir og stuðlar að gróðurhúsaáhrifum. það er semsagt alls ekki sjálfgefið að endurunninn pappír sé umhverfisvænni en „nýr“ pappír sem unninn er úr sjálfbærum skógum, þvert á móti.

3. endurvinnslan sjálf er orkufrekt ferli og mér hefur aldrei verið sýnt fram á að það geti á nokkurn hátt verið hagstæðara náttúrunni að ganga í gegnum það ferli frekar en að frumvinna pappír úr nýjum viði úr sjálfbærum skógum sem nóg er til af.

---

til er afar einföld leið til að endurvinna pappír sem er langtum hagkvæmari en nokkur önnur. það er að urða pappírinn og breyta honum aftur í mold, þaðan sem hann kom upphaflega. í rauninni þarf ekki annað til þess en heppilegt landrými sem næst neytendum pappírsins. og hvað sem hver segir um það þá er fráleitt að halda öðru fram en að á Íslandi sé landrými nóg. á heppilegum stöðum mætti síðan rækta nytjaskóg upp úr þessari mold og þegar þar að kæmi höggva skóginn til að vinna úr honum pappír. það væri raunveruleg endurvinnsla.

2 Comments:

Blogger Kristján Pétur said...

Félagi Mainstone þarna held ég bara að þú hafir rétt fyrir þér.
Meikum mold ekki reyk

21:03  
Blogger Kristján Pétur said...

Félagi Mainstone þarna held ég bara að þú hafir rétt fyrir þér.
Meikum mold ekki reyk

21:04  

Skrifa ummæli

<< Home