10.10.08

sýning og bók í farvatninu







smellið á auglýsinguna til að lesa.

þrjár braghendur

Góður þykir greiði okkar gersku vina.
Þrautir er þeim ljúft að lina.
Landar: Gefum skít í hina!

---

Dagar uppi Davíðs lýður. Döpur þjóðin
vísast allan missir móðinn.
Mæðir blóðrás ríkissjóðinn.

---

Þúsundkalla þykir mörgum þörf að spara.
Mín vegna þeir mega fara,
manndóminn ég á til vara.

6.10.08

Mamma er orðin áttræð!


Edda Jóhannesdóttir Jensen – áttræð 4. október 2008


Hún mamma fer nú sennilega að reskjast.

Þessi litla skotta sem flögrar milli landshluta og landa út í eitt, alltaf eins og klippt út úr tískublaði – þetta stelpukorn á semsagt áttræðisafmæli í dag.

Stelpan sem byrjaði að keyra bíl fyrir svosem áratug síðan og lét sig ekki muna um að demba sér út í umferðina hérna í Reykjavík þegar hún hafði orðalaust tekið sig upp úr heimahögunum og flutt suður með allt sitt hafurtask – þessi stelpa er áttræð í dag.

Hún mamma okkar, þessi spengilega dama með flotta hvíta hárið, sem málar fíngert postulín og heklar dúllur milli þess sem hún siglir norður á Hornstrandir eða skýst til Danmerkur að heimsækja ættingja og vini, er áttatíu ára – hvort sem þið trúið því eða ekki. Ég er handviss um að hún trúir því ekki sjálf, enda ekkert sem bendir til að hún sé neitt að kikna undan öllum þessum árum.

Og eitt af hennar mörgu hlutverkum er að lesa sögur og ljóð fyrir „gamla fólkið“ hérna á Hrafnistu.


Ég ætla ekki að fara í langar upprifjanir eða sögur af mömmu úr æsku okkar systkinanna. Ekki vegna þess að ekki sé af nógu að taka, heldur þveröfugt.

Því auðvitað var mamma alltaf til staðar og var – eins og mömmur eru á stóru heimili í sveit – sjálfgefin stærð í lífinu.
Hvort sem maður var svangur eða þreyttur, með skrámuð hné eða ælupest; hún var alltaf til staðar og kom öllu í lag á þennan áreynslulausa og eiginlega ósýnilega hátt sem bara mömmur gera.

En á fullorðinsárum þegar maður fór að líta til baka fór ekki frá því að maður furðaði sig á hinu og þessu.

Það var kannski ekkert svo sjálfgefið og áreynslulaust að taka barnung kaupstaðarstelpa við búsforráðum í eyðikoti úti í sveit og vera svo allt í einu komin með sex börn. Sandskúra gólfin, berjast við kolamaskínuna, þrífa glösin á olíulömpunum, taka slátur í tugavís.
Með fjölda manns í fæði, sauma og prjóna öll föt á barnaskarann og halda þeim hreinum og í lagi. Og á sumrin fylltist bærinn af gestum sem þurftu að borða, fá þvegið af sér og gista. Krakkar í sveit bættust við okkur systkinin sex og barnabörnin komu snemma og áttu sitt annað heimili á Rauðavík.

Það var örugglega oft þröngt í búi en okkur skorti aldrei neitt.
Það er nefnilega þannig að hún mamma getur allan fjandann.

Einhvern veginn gerðist það í öllu þessu annríki sem bóndakonan býr við að hún kunni hvað sem var: Saumaði spariföt eins og skreðari, eldaði og bakaði allt það gúmelaði sem hugurinn girntist, þreif bæinn og heimilisfólkið án þess að nokkur tæki eftir því, safnaði vetrarforða í búið. Og var alltaf til staðar.
Glímdi oft við erfið veikindi en kom ávallt til baka.

Og eftir að fækka tók í heimili þegar við hurfum eitt og eitt úr hreiðrinu, hvert að sinna sínu lífi, tóku félagsmál og önnur trúnaðarstörf við.
Mamma var virk í félagsmálum kvenna á Norðurlandi um áratuga skeið og meðhjálpari var hún lengi í Stærri-Árskógskirkju. Til að kóróna þetta gerðist hún svo hreppstjóri í Árskógshreppi. Mamma mín er lögga!

Já, hún getur allan fjandann og er auðvitað á fullu ennþá og ekki ástæða til annars.

Hún getur dansað og hún getur sungið. Hún syngur með Kór eldri borgara í Mosfellsbæ og stundum sæki ég hana þangað eftir æfingar og þekki hana á sönglinu þegar hún nálgast. Og enn er hún meðhjálpari og ef annað hefur ekki dugað til þá tryggir það henni örugglega vist í góða staðnum þegar þar að kemur eftir einhverja áratugi. Fólk sem er sísyngjandi og raulandi hefur það fínt og ég held að frú Edda sé rétt að byrja.

Það er nefnilega þannig að einn algengasti frasinn hennar mömmu á betur við um hana sjálfa en flest annað: „Það er svo óskaplega gott í þessu.“

Hjartanlega til hamingju með daginn mamma!