29.11.07

malbiksvetur

orðið langt síðan ég fylgdist síðast með vetrarkomunni á suðvesturhorninu svona frá degi til dags. og finnst skammdegið orðið fjandi dimmt þessa dagana.

í vikunni gerði fyrstu hálku vetrarins sem eitthvað kveður að í Reykjavík með ísingu dag eftir dag, alveg snjólaust enn og því koldimmt allan sólarhringinn.

kom vetrardekkjum undir bílinn fyrir nokkrum dögum og ákvað að hætta að nota nagladekk (sem ég hef verið grjótharður á að nota til þessa) og er afar ánægður með þá ákvörðun. hef oft lýst því yfir að dagurinn sem nagladekkin eru sett undir bílinn sé versti dagur ársins, sú aðgerð lýsi endanlegri uppgjöf fyrir vetrinum og viðurkenningu á margra mánaða skammdegisdrunga og kulda framundan.

að sleppa nöglunum gerir þetta mun léttbærarara, svo hlálegt sem það nú er, því maður finnur sáralítinn mun á vetrar- og sumardekkjum; ekki glamrandi og spólandi naglar á auðu malbiki öllum stundum, sem aftur gerir að verkum að þegar loksins þarf á nöglunum að halda eru þeir uppslitnir eða hreinlega horfnir úr dekkjunum.

mér finnst gaman að keyra bíl, og vil eiga bíla sem gaman er að aka. og að aka góðum bíl á auðu malbiki með ískrandi naglasurgið í eyrunum er ömurlegt. og svo er það þetta með slit á malbiki og svifryksmengun – það er engin ástæða til að gera lítið úr því.

en hvað um það, í myrkrinu þessa vikuna hefur hugurinn aftur og aftur leitað suður á bóginn og hef staðið mig að því að skoða ferðatilboð til Kúbu og Kanaríeyja... því eins og ég hef margoft haldið fram:
maðurinn, rétt eins og aðrar skepnur, er ekki mikið flóknari búnaður en sólarrafhlaða.

21.11.07

lífið í bleiku


í gærkvöldi sá ég þá ágætu bíómynd La Vie en Rose – sem segir söguna af Edit Piaf.

þetta er snilldarmynd um hrikalegt lífshlaup. áhrifamikil, falleg, sorgleg og feiknavel gerð að öllu leyti.

hef sáralítið kynnt mér sögu þessarar konu og því kom mér á óvart hversu lygileg og hádramatísk ævisaga hennar er, frá fæðingu til grafar. þar er ekkert einfalt, þægilegt né ódýrt. þrotlaus barátta, sigrar og ósigrar, gleði og sorg. mikil sorg. hún náði ekki fimmtugu áður en allt var þrotið – en hvílík gjöf sem hún færði öðrum.

ráðlegg öllum að sjá þessa.

20.11.07

Kúba og kýrhausar


skrítnir hlutir hrærast í þeim kýrhausum sem kenna sig allra hausa helst við frelsi, einstaklingsframtak og sjálfstæði. nýlegt dæmi frá BNA hefur verið í fréttum og hér á Fróni er ekki hörgull á þeim.

í guðs eigin landi hafa einhver yfirvöld verið að pota í Boeing verksmiðjurnar og vilja banna þeim að selja flugvélar til krimmanna í Icelandair Group. ekki af því að félagið heiti svona korní nafni heldur vegna þess að það gæti hent sig að þessum líka fínu þotum væri flogið til Kúbu með túrista. sem er auðvitað í trássi við bandarísk lög sem stefna að því að svelta kúbsku þjóðina frá kommúnisma. en hefur ekki alveg verið að virka frekar en önnur viðskiptabönn nokkurs staðar, nokkurn tíma.
hvað um það, ég á erfitt með að sjá í þessu mikla baráttu fyrir frelsi og framtaki. eða yfirleytt nokkuð annað en hallærismennsku.

á okkar kæra Íslandi hafa framámenn úr Framsóknarflokknum og ekki síður Sjálfstæðisflokknum farið fram með offorsi árum saman gegn landeigendum og þjóðnýtt einkalönd í stórum stíl.

13.11.07

rúdólf rósenberg


við Signý erum á leið norður um næstu helgi.

aðalástæðan er bókmenntakvöld í Populus tremula þar sem kynnt verða ljóð hulduskáldsins Rúdólfs Rósenberg. Rúdólf er alterego míns góða vinar Sigurðar Jónssonar og hefur ort ágæt kvæði hin síðari ár en ekki farið hátt með þessa iðju.
Populus mun gefa út bók með þessum ljóðum í tilefni dagsins.

hlotnast sá heiður að fá að lesa hluta ljóðanna og ætla mér að syngja tvö þeirra – upphátt!

hlökkum til að mæta í kjallarann, hitta félagana og taka þátt í þessari uppákomu.