15.3.08

myndir af hugarheimi



í dag opnar minn góði vinur Arnar Tryggvason sína aðra myndlistarsýningu í Populus tremula.
bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins!

Myndverk Arnars hafa vakið verðskuldaða athygli enda sýnir hann ljósmyndir af húsum, götum og landslagi sem er ekki til – ljósmyndir af hugarheimi.
Hvert verk er samsett úr aragrúa ljósmynda sem Arnar bútar niður og raðar saman upp á nýtt – byggir ný hús og mótar nýtt landslag. Og þrátt fyrir að myndefnið hafi yfir sér framandlegan blæ er áhorfandinn þess jafnframt fullviss að hann þekki myndefnið, hafi gengið þarna um, komið í þessi hús.

Addi býður okkur í ferðalag um framandi heimaslóðir.

borgirnar við sundin



af og til heyrir maður í fólki að agnúast út í þann gamla og góða sið að íslenska staðarheiti. að ekkert sé hallærislegra en tala um Lundúnir, Dyflinni, Miklagarð. þegar ég heyri þetta spyr ég venjulega hina reiðu hvað höfuðborg Danmerkur heiti. það verður vandræðaleg þögn og svo er skipt um umræðuefni. nóg um það.

skrapp semsé til Kaupmannahafnar örstutta helgarferð um daginn, bara tvær nætur og átti þar stefnumót við hana Signýju. það er gaman að eiga deit við elskuna sína þar og svo fyndið sem það kann að vera var ég gersamlega ókunnur þessum bæ. hafði gist þar eina nótt fyrir rúmum tuttugu árum síðan, nánast millilending.
eftir á að hyggja er samt það sem upp úr stendur úr þessum túr á dögunum hvað það var ægilega helvíti kalt. hitastigið stóð í núll gráðum en mér, gömlum sveitahundi af Árskógsströndinni, hefur ekki í annan tíma orðið kaldara. mætti þó kappklæddur.

hvað um það: margt fannst mér fallegt í Höfn, frekar einsleitt reyndar, en þangað hyggst ég koma fljótlega aftur og þá að sumarlagi. hins vegar hefur maður verið minntur rækilega á það af og til í vetur að í Reykjavík er fallegra en á flestum stöðum. þótt tekist hafi frábærlega að klúðra útliti sjálfs bæjarins er umgjörðin gjörsamlega geggjuð, hún er svo flott.

færslunni fylgja myndir úr borgunum við sundin.

mannýgi


af því að farið er að fella þunga dóma yfir bullandi bloggurum er freistandi að reyna að vekja það hobbí til lífsins á ný - sjáum til.

löggan á höfuðborgarsvæðinu er skemmitlega áberandi í mjölfiðlunum þessa dagana. Stefán, sonur hans Eika, hefur verið að berja sér á brjóst bálillur yfir því að að dómarar hafi ekki tyftað almennilega nokkra útlenda pörupilta sem lentu í slag við löggur á Laugaveginum.

auðvitað veit ég ekkert um það mál, var ekki í þessum slag, en hef með sjálfum mér fagnað þessum dómi. því auðvitað er það ekkert flókið að takist ekki að sanna sekt ber að sýkna. löggan, hversu ágæt sem hún er, má undir engum kringumstæðum fá að panta dóma yfir sakamönnum. og eins og ég hef oft sagt: frekar vil ég þúsund glæpona gangandi lausa en einn saklausan í tugthúsi.

svo er á forsíðu Fréttablaðsins í dag aðalfyrirsögn um að löggan vilji hunda til valdbeitingar. hmmmm. mikið langar kallagreyin að vopnast. sé þá fyrir mér með skilríkin sín á bumbunni og tækjabelti (eins og Batman átti) að siga honum Spora: urrdanbíttann!

þarna liggur ónýtt tækifæri í landkynningu og ferðaþjónjustu. í þessu máli legg ég til að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gangi á undan með góðu fordæmi og marki sérstöðu sem eftir yrði tekið um gjörvalla heimsbyggðina. semsagt þá að í stað þess að kenna einhverjum hefðbundnum hundspottum að ráðast á menn þjálfi löggan upp kindur til valdbeitingar. mannýg rolla er verulega ógnandi þegar hún stappar niður annarri framlöppinni og starir á andstæðinginn manndrápsaugum. og íslenska kindin er jú forngripur frá landnamsöld. verum nú stolt af upprunanum og fortíðinni og ræktum upp stofn af fallegu ofbeldisfé.