15.3.08

borgirnar við sundin



af og til heyrir maður í fólki að agnúast út í þann gamla og góða sið að íslenska staðarheiti. að ekkert sé hallærislegra en tala um Lundúnir, Dyflinni, Miklagarð. þegar ég heyri þetta spyr ég venjulega hina reiðu hvað höfuðborg Danmerkur heiti. það verður vandræðaleg þögn og svo er skipt um umræðuefni. nóg um það.

skrapp semsé til Kaupmannahafnar örstutta helgarferð um daginn, bara tvær nætur og átti þar stefnumót við hana Signýju. það er gaman að eiga deit við elskuna sína þar og svo fyndið sem það kann að vera var ég gersamlega ókunnur þessum bæ. hafði gist þar eina nótt fyrir rúmum tuttugu árum síðan, nánast millilending.
eftir á að hyggja er samt það sem upp úr stendur úr þessum túr á dögunum hvað það var ægilega helvíti kalt. hitastigið stóð í núll gráðum en mér, gömlum sveitahundi af Árskógsströndinni, hefur ekki í annan tíma orðið kaldara. mætti þó kappklæddur.

hvað um það: margt fannst mér fallegt í Höfn, frekar einsleitt reyndar, en þangað hyggst ég koma fljótlega aftur og þá að sumarlagi. hins vegar hefur maður verið minntur rækilega á það af og til í vetur að í Reykjavík er fallegra en á flestum stöðum. þótt tekist hafi frábærlega að klúðra útliti sjálfs bæjarins er umgjörðin gjörsamlega geggjuð, hún er svo flott.

færslunni fylgja myndir úr borgunum við sundin.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home