29.4.07

meira um sundlaugar

það er nefnilega þannig að ég hef talsverðan áhuga á sundlaugum. heimsæki slíka staði oft og örast ef maður er á þvælingi. dr. Gunni er með stjörnugjöf fyrir sundlaugar á vefnum hjá sér – hugsa að ég fari ekkert að feta í þau spor.

sundlaugar eru ávallt börn síns tíma og spegla stefnur og strauma í arkitektúr, túrisma, íþróttamálum og auðvitað pólitískar áherslur á hverjum stað þegar laugin var búin til.

lærði sjálfur að synda í lauginni á Þelamörk í Hörgárdal – 25 m steypt ker með hyldúpum enda þar sem var á þeim árum mikið fjölmúlavíl úr fúaspýtum og þjónaði sem stökkpallur. hámark karlmennskunnar var að dýfa sér af háa pallinum og vildu hné linast við að standa þar uppi. laugin var ísköld, eða þannig. 26-27°C og helvíti á jörð. hataði sundlaugar fram á fullorðinsár en hefur semsagt alveg snúist við.

uppáhaldssundlaugin mín er á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. 50 m steypt laug sem aldrei hefur verið máluð, fjaran við annan endann og kindur á beit í kring. sjóðheit og botninn sleipur af slími. hef átt þar frábærar stundir með krökkunum.

sundlaugin í Borgarnesi er líka æðisleg, hvort sem maður kemur til að leika við krakka eða synda. mikið fyrirmyndarmannvirki og hef komið þangað margoft síðasta árið, raunar oftar en í nokkra aðra laug.

en sem fjölskyldustaður til að leika sér, synda og njóta lífsins á Akureyrarlaug vinninginn. tvímælalaust og er bænum til mikils sóma. þar er allt flott.

sú lélegasta sem ég hef komið í er semsagt á Sauðárkróki og kynntist henni í gær. ferðar virði bara að mæta til að taka út þetta fyrirbæri.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home