14.4.07

væðingin

hef nú verið búsettur í 10 vikur í miðbæ Reykjavíkur. þennan miðbæ hafði ég hunsað nær algjörlega síðustu áratugi en þekkti hann ágætlega forðum, bjó hér nokkrum húsum fjær síðasta árið mitt í Reykjavík fyrir réttum tuttugu árum.

ég rölti ögn um bæinn og síðast núna rétt áðan í vorblíðunni. farinn að kannast við mig á nokkrum kaffihúsum og restúröntum. fyrir nautnasegg sem nennir ekki að elda er þetta varasamt umhverfi. en það er ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur breytinguna á miðbæ Reykjavíkur síðustu 20 ár. sem er bæði mikil og lítil.

ásýnd miðbæjarins hefur ekki breyst í neinum veigamiklum atriðum, helst að viðhaldi húsa hafi farið fram enda eignir í kvosinni fokdýrar orðnar. að vísu eru miklar framkvæmdir í gangi við sjávarsíðuna og kranaskóginn ber við himin.

fyrsta breytingin sem ég tók eftir og er veruleg er að nánast öll verslun er horfin í kvosinni. í Reykjavík er þessi litli miðbæjarkjarni frá Lækjargötu að Grjótaþorpi orðinn pakkfullur af veitingastöðum og kaffihúsum. alls staðar og úr nógu að velja. yfirbragðið er að þessu leyti orðið mjög alþjóðlegt. að vísu eru þessi staðir full einsleitir en gaman að tylla sér á góðum degi við glugga að Austurstræti og lepja kaffi eða öl.

stóra breytingin er í mannlífinu. t.d. iðaði Austurstræti af lífi núna áðan, inni og úti. breytingin er sú að þetta er alþjóðlegur borgarmiðbær. það úir og grúir af fólki hvaðanæva að úr heiminum allan ársins hring. hvar sem maður kemur eru útlendingar innan um og stundum í miklum meirihluta. mér finnst þetta æðislegt og það er fullkomlega vandræðalaust.

og oftar er en ekki er afgreiðslufólkk á matsölustöðum og kaffihúsum útlendingar. angrar mig ekki en gæti gert það ef maður bjargaði sér ekki á ensku.

miðbærinn í Reykjavík hefur semsagt breyst til hins betra og ég nýt þess að vera hluti af honum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home