27.3.07

Lohan er komin


hún er komin að kveða burt snjóinn. snjó hvað?

hef ekki opnað útvarp svo í dag að ekki sé verið að tala um fugla. fuglar eru merkilegir (samt kannski ekki eins merkilegir og englar sem HKL sagði í Guðsgjafarþulu að væru merkileg dýr) enda fastir gestir í fréttum eins og ég nefndi fyrir skemmstu.

á Borgarfirði eystri hafa menn heyrt og séð heilar tvær lóur í dag og í gær. lóan sem sást í dag er að sögn heimamanna ekki sú sama og sást í gær en þó lík henni.
ég hef líka upplifað þetta, að sjá tvær lóur sem voru sláandi líkar hvor annarri. datt bara ekki í hug að hafa samband við fréttastofuna út af því.

í morgunfréttunum var talsvert fjallað um óvininn sjálfan, sílamávinn.
borgaryfirvöld í Reykjavík ætla semsagt að gera tilraun með að drepa hann á mannúðlegri hátt en áður.
hingað til hefur sílamávurinn einfaldlega verið skotinn. nú verður tekin upp sú skemmtilega nýbreytni að sérsveit borgarinnar mun í vor ganga á varpstöðvar sílamávs og dreifa brauðmolum í hreiður. í brauðmolunum verður svefnlyf. síðan þegar bíbí fer að lulla eftir að hafa tekið lyfin sín fer sérsveitin annan stofugang og drepur fuglana meðan þeir sofa.

mannúðin sem í þessari aðgerð er fólgin er tvíþætt:
annars vegar særast engir fuglar og komast undan, þeir eru allir drepnir með skilvirkum hætti.
hins vegar, og í því liggur snilldin, er engin hætta á að saklausir fuglar verði fórnarlömb í þessari helför. vegna þess að þeir eru bara svæfðir. éti góðu fuglarnir svefnlyfin eru þeir einfaldlega vaktir af svefninum.

það getur vel verið að sílamávur sé í eðli sínu vondur fugl, hef ekkert kynnt mér það. fréttamenn hafa samt ekki bent mér á aðrar sakir sem á hann eru bornar en þær að honum finnist fátt skemmtilegra en að borða andarunga. andarungar eru jú sætir og góðir og þess vegna er þetta athæfi mávsins ólýsanlega ljótt. og það sem böggar borgaryfirvöld mest er að kvikindin éta andanungana á Tjörninni. því er spurning, af því að ráðhúsið stendur nú beinlínis í þessari sömu tjörn, hvort borgarstjórn ætti ekki hreinlega að koma því inn í lögreglusamþykkt borgarinnar að ekkert dýr megi borða annað dýr?

annars virkar þetta svosem ágætlega, að drepa bara vondu dýrin.

svo skal ég hætta í bili að tjá mig um góða og vonda fugla og önnur dýr.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

svo geriðst það reyndar í tíufréttum að Náttúrfræðistofnun steig fram og mótmælti þessum svefnlyfjaáformum Reykvíkinga.

á Náttúrufræðistofnun horfa menn á þetta frá sjónarhóli náttúruvísinda en ekki tilfinninga. bentu á að sílamávur er kominn til að vera og ef halda eigi stofninum pínulitlum þurfi að standa að stórfenglegum fjöldamorðum á hverju ári um ókomna tíð. og virtust ekkert vera sérlega uppnæmir yfir því hvað mávurinn er illa innrættur. var ánægður með þeirra innslag.

07:01  

Skrifa ummæli

<< Home