21.3.07

um konur

á forsíðu Blaðsins í gær var tilkynnt að með blaðinu fylgdi átta síðna sérblað um konur. þetta er orðrétt svona, UM KONUR.

ok, gott mál. og átta síðna kálfur svosem engin ofrausn ef fjalla á um hálft mannkynið. er ekkert að gefa í skyn að þessu hafi fylgt sérstakar væntingar en þegar kom að sérblaðinu þótti mér umfjöllunin um fyribærið konur dulítið klén. fyrir þá sem ekki flettu þessu sérblaði ætla ég að tiltaka hér allar fyrirsagnir þessu riti. þær eru svona:

Góðar vörur og mikið úrval. Fallegar snyrtivörur frá Rifka
Sjálfstyrking eftir skilnaðinn
Fallegir fætur án fyrirhafnar
Hugaðu að húðinni
Rósir og rómantík
Ertu tískufrík?
Aukið heilbrigði hársins
Snyrtivörur fyrir allar konur
Baugar á bak og burt
Rauðar og kyssilegar varir
Mesta áherslan á augun
Bleikt og stelpulegt með Barbie
Nærandi fótakrem

skal viðurkenna að ég las ekki staf í þessu riti. en skil betur af hverju femínistar eru svona fúlir yfir staðalímyndum.

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Flott!

Þörf ábending - fer vonandi sem víðast og enn meira gaman ef umræða skapast - ekki veitir af. Skil ekki af hverju Femínistar veita þessu atriði ekki meiri athygli. Væri t.d. áhugavert að gera úttekt á vikublaðinu Vikunni í eitt ár nákvæmlega á þennan hátt - þ.e. taka fyrirsagnir af forsíðunni. Gæti orðið athyglisverð niðurstaða.

19:12  
Anonymous Nafnlaus said...

Er þetta bara ekki eitthvað sem konur hafa áhuga á að lesa. Það eru konur sem kaupa þessi blöð og halda þeim á lífi, ekki rétt?

09:28  
Anonymous Nafnlaus said...

best að gangast við hver ég er loksins!

Hárrétt. Það eru örugglega konur sem kaupa Vikuna svo merkilegt sem það nú er. Full ástæða þess vegna að við konur - allar konur - veltum fyrir okkur og ræðum hvað veldur og hvort við séum sáttar og ánægðar með þessa mynd af okkur. Ég get játað að ég er það ekki. Er gjörsamlega ofboðið þegar ég sé blað "um konur" eins og þetta í Blaðinu sem Aðalsteinn lýsir. Alveg jafnofboðið þegar www.femin.is varð til á sínum tíma og hef aldrei farið þar inn síðan. Er þessi nálgun markaðsfræðinga raunveruleg spyr ég? Getur verið að það séu auglýsendurnir og seljendurnir frekar en neytendurnir sem stýra því að svona blað verður til? Gaman að velta upp en verður ekki svarað hér. Geri mér grein fyrir að Vikan kæmi sennilega ekki út enn nema af því hún selst - því miður! Ætti kannski ekkert að vera agnúast út í hana - allt í lagi að þeim hópi sem hún höfðar til sé sinnt. Það sem er ekki í lagi eru þessi skilaboð að allt sem ætlað er fyrir konur snúist um útlit og ósjálfbjarga konur sem þurfa hjálp við alla hluti - hafa ekkert brjóstvit til að finna út úr neinu sjálfar. Ég er kona og þessi skilaboð höfða ekki til mín - tilheyri ég miklum minnihluta? Gaman að velta upp og væri enn meira gaman að fá svör!

10:51  
Anonymous Nafnlaus said...

Svo hjartanlega sammála henni systur minni auðvitað! Ég læt þetta fara svo GEÐVEIKT í taugarnar á mér! Vinkona mín vann einu sinni hjá Nýju lífi og bað mig um að taka þátt í könnun um blaðið. Hún hefur varla talað við mig síðan, þar sem ég hraunaði svoleiðis yfir það. En það er einmitt blað "fyrir konur" og fjallar aðallega um snyrtivörur og megrunaraðferðir o.s.frv. Svo vann hún reyndar seinna hjá Fyrstu skrefin og þar lét ég það fara jafn mikið í taugarnar á mér að hún var alltaf með frægt fólk á forsíðunni. Ég átti erfitt með að trúa að þess þyrfti til að fólk keypti blað sem fjallar um börn! Fékk mig a.m.k. til að þrjóskast við að kaupa aldrei blaðið! :p

En því miður virðist fólk oft halda að konur skiptist upp í tvo flokka - þessar "venjulegu" sem hafa bara áhuga á útliti og tísku (kannski heiladauðar?) og svo "femínista" sem eru auðvitað bara ljótar og feitar konur sem raka sig ekki undir höndunum og geta ekki náð sér í kall en eru kannski pínu klárar! :S

13:29  
Anonymous Nafnlaus said...

Kristján vinur minn flíkar gjarnan bók sem hann gaf konunni sinni þegar þau voru að draga sig saman. bókin er síðan um eða fyrir miðja síðustu öld og heitir því snotra nafni „Aðlaðandi er konan ánægð“.

er beinlínis leiðbeiningarit um hvernig ná skuli þessu markmiði.

líklega hefur ekkert breyst síðan. enda tekur milljón ár að breyta dýrategund án stökkbreytingar. en á að vera hægt að móta viðhorf á umtalsvert skemmri tíma hefði maður haldið...

og velkomin á síðuna Heiðrún!

15:56  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst þið nú tala niður til kvenna sem hafa áhuga á því sem stendur í þessum blöðum. Er ekki allt í lagi að hafa áhuga á því sem þar stendur. Þær þurfa ekki að vera heimskar og ósjálfbjarga þótt þær hafi áhuga á svona blöðum.

Ég sé ekkert að því að spá í útlitið. Við sjáum t.d. margar konur í áhrifastöðum sem eru flott klæddar, málaðar og fínar í tískufötum. Þær eru þræl vel gefnar en samt flottar og fylgjast með tískustraumum.

17:55  
Anonymous Nafnlaus said...

Æ það gat nú verið að umræðan þróaðist í þessa átt. Ég spái í útlitið líka og skammast mín sannarlega ekki fyrir það og ég fyrirlít sannarlega ekki konur sem það gera. Ég aftur á móti hef ekki þol fyrir því að þegar blöð ætla að höfða til KVENNA þá er umræðuefnið alltaf í þessa veru, snyrtivörur, tíska, sjálfshjálparbækur af ýmsu tagi. Kannski snýst þetta um það að markaðssetningin sé á þrengri hóp en "KONUR" þegar umræðuefnið er svo þröngt sem raun ber vitni. KONUR eru ansi stór hópur og fjölbreyttur og sannarlega eða vonandi alla vega margar okkar sem hafa engan áhuga á snyrtivörum, tísku og sjálfshjálparbókum. Hvenær sjáum við blöð sem hafa yfirskriftina "UM KARLA"? Hvert skyldi verða umræðuefnið í slíku blaði?

18:15  
Anonymous Nafnlaus said...

það er nú eiginlega þannig að annar hver maður er kona. á heimsvísu erum við að tala um á fjórða milljarð manna, á Íslandi svona 150.000 sálir ef talið er frá vöggu til grafar. lágmark 100.000 stelpur á blaðalestursaldri.
hafa áhuga á tónlist, bílum, kvikmyndum, stjórnmálum, mynlist, útivist, tísku, umhverfismálum ferðalögum, hestum, fjallgöngum, leikhúsi, viðskitum, kynlífi, gólfefnum, skipulagsmálum og bara nefndu það. eins og annað fólk. hver með sínum hætti. ekki bara tísku og snyrtivörum.

sannarlega felst í því virðing fyrir sjálfum sér og öðrum að hugsa um eigið útlit og heilsu og ekkert verið að fetta fingur út í það hér – held ég

22:21  

Skrifa ummæli

<< Home