23.2.07

höfuðborgarsólin


hef lengi gert óspart grín að mítunni um veðurblíðuna á Akureyri og rokið og rigninguna sem eilíflega á að vera í Reykjavík.

vann mér m.a. óvild nokkurra Akureyringa fyrir margt löngu þegar ég vann út frá staistík í þessu efni á samsýningu í Listasafninu á Akureyri. þar sem mælingar sýna fram á umtalsvert hærri meðalhita í Reykjavík og tala nú ekki um fjölda sólskinsstunda sem er miklu meiri hérna syðra.

er í sjálfu sér ekkert upptekinn af þessu – nema þessari bráðfyndnu mítu um hina eilífu blíðu á Akureyri. það er í raun ekkert annað en markaðssetning og áróður sem hefur tekist með afbrigðum vel. er í rauninni að mestu leyti lygi.

og ólst upp við sífellt ergelsi fyrir norðan þegar Jón Múli var ör af sumarblíðunni í morgunútvarpinu á gömlu gufunni og talaði um höfuðborgarsólina. og að hitamælingarnar væru kolvitlausar af því að þær væru gerðar á Veðurstofunni uppi á Öskjuhlíðarhálendinu. þetta fór svo í taugarnar á Eyfirðingum að Jón var hataður fyrir vikið.

í tilefni af þessum pælingum er hérna mynd sem var tekin af svölunum á Perlunni núna áðan í frábæru veðri. síðustu viku hefur mér fundist vera maí en ekki febrúar.

reyndar orðaði góður vinur minn það þannig í mín eyru á dögunum að veðurfarið síðustu misserin væri eins og vél sem hefði verið tekin sundur en menn ekki kunnað að raða rétt saman. allt virkar öfugt og út úr kú.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home