17.2.07

bókastúss

undanfarið hef ég auk annarra hluta verið mikið að stússast í kringum bókaútgáfu. og færst í aukana frekar en hitt.

hef eins og menn vita tengst Uppheimum mikið frá stofnun þess fyrirtækis sem hönnuður á kápum og kynningarefni. er nú kominn á skrá yfir starfsmenn þess félags enda fara umsvif þess sívaxandi og gaman að taka virkan þátt í því. síðast í gær sendi ég frá mér kápu á kiljuútgáfu á nýjustu glæpasögu Ævars Arnar.

síðustu tvö ár var ég svo mjög innvinklaður í útgáfu Skógarbókar Grænni skóga, ritstýrði því verki framan af auk þess að hanna útlit bókarinnar og leggja drög að umbroti hennar. sagði mig reyndar frá því verki á síðustu metrunum vegna annríkis á öðrum vígstöðvum en bókin kom út með sóma í byrjun desember.

svo núna síðustu vikur hefur það merka félag Populus tremula ráðist í útgáfu lítilla bóka. sú fyrsta kom út í gær – úrval ljóða eftir Jón Laxdal Halldórsson. tengd bókmenntakvöldi sem haldið var í gærkvöld og tókst frábærlega.
Populuskver númer tvö fór frá mér í prentun í gær; textakver Guðmundar Egils sem halda mun trúbadúrtónleika í Populus um næstu helgi. þessir gripir eru prentaðir í 100 eintaka upplagi sem er númerað og áritað af höfundum.

fyrir lok starfsárs Populus tremula í sumarbyrjun verða komnar út lágmark fjórar bækur og nokkur verkefni á teikniborðinu. t.a.m. er þegar ákveðið að gefin verða út kver með textum Kristjáns Péturs Sigurðssonar og Guðbrands Siglaugssonar í tenglsum við trúbadúrakvöld þeirra síðar í vetur.

þetta er bráðgaman og á tímum stafrænnar prenttækni hlægilega auðvelt í framkvæmd.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Heill og sæll, þú ert náttúrulega kjörinn til þessara starfa svo þú ert á heimavelli. Bara flott.

19:02  

Skrifa ummæli

<< Home