22.3.07

bíbí og brabra


alltaf af og til spretta upp heitar umræður um fugla. einhverra hluta vegna.

á miðju síðasta sumri varð mikil umfjöllun um mávagerið í miðborg Reykjavíkur. þeir átu brauðskorpurnar frá öndunum og gengu jafnvel svo langt að skíta á Austurvöll. Gíslimarteinn var óður af bræði og talaði um plágu og varg.

svo núna um daginn í kjölfar strands Wilson Muuga á Reykjanesi varð slíkt umhverfis- og olíuslys að hvorki meira né minna en tvær æðarkollur fyndust olíublautar í fjörunni. myndir af þessum tveimur kollum birtust í sjónvarpsfréttum á besta tíma og örlög þeirra rakin ítarlega. svo grimm voru þau örlög að 50% þessara fugla drapst. ergo: dauði einnar æðarkollu var umtalsverð frétt á landsvísu. blessuð sé minning hennar.

var við Tjörnina á dögunum að henda brauðmolum í hausinn á öndum (sem hjálmlausum féll það þungt) og ekki eitt mávskvikindi var á flugi eða vappi. það er nefnilega búið að skjóta þá alla. á vegum hins opinbera eru drepin hundruð eða líklega frekar þúsundir fugla. og reyndar hvers konar annarra dýra. það eru vondu dýrin. farist eitt gott dýr af slysförum fáum við andlátsfregnina í sjónvarpsfréttum.

góðu dýrin og vondu dýrin – alltaf jafn skemmtilegt að velta því fyrirbæri fyrir sér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home