gersemi
lék túrista í gær og fór á Þingvöll og þaðan að Geysi. var eiginlega ekkert sérstakt, búinn að koma á þessa staði of oft til að þeir nái að heilla mann, jafnvel í dýrðarverðri eins og í gær. var reyndar gaman að keyra Lyngdalsheiðina eins og alltaf.
en eftir að hafa séð Strokk freta þrisvar var haldið örstutta leið inn í skóginn í Haukadal þar sem Skógrækt ríkisins hefur ræktað gífurlega barrskóga á undanförnum áratugum með frábærum árangri.
fyrir nokkrum árum var gert mikið átak í lagningu göngustíga og merkingum í skóginum og er skemmst frá því að segja að þetta er magnað útivistarsvæði. stígurinn upp með Svartagili er frábær og umhverfið allt feikifallegt og raunar framandlegt með þessum hávaxna barrskógi.
við Geysi var fjöldi fólks í bálhvössum norðanþræsingi en í skóginum, þar sem ekki hreyfir vind, var varla kjaftur á ferð.
látið ekki þessa perlu fram hjá ykkur fara og gangið upp í gilið næst þegar þið verðið á þessum slóðum.
1 Comments:
Heill og sæll, ég kíki á þessa perlu þegar ég kem þarna næst.
Skrifa ummæli
<< Home