20.8.07

vargöldin í miðbænum

innan fárra daga lýkur búskap mínum í miðbæ Reykjavíkur þegar ég flyt út Tryggvagötu og inn í Laugardal.

téður miðbær hefur verið mikið í fréttum undanfarið, bæði vegna meints stríðsástands þar að næturlagi um helgar og líka vegna fyrirhugaðs niðurrifs gamalla húsa neðst við Laugaveg.

nú er það svo að þótt ég hafi búið síðustu sjö mánuði í jaðri miðbæjarins hefur vargöldin um nætur farið gjörsamlega framhjá mér og ég hef ekki haft sinnu á því að vera hræddur við að láta sjá mig í bænum um helgar. að vísu lítið verið á næturgöltri og kannski þess vegna sem ég er óstunginn enn af uppdópuðum hnífamönnum. ekki svo mikið sem verið vakinn upp um nætur af skrílslátum. en svosem vel í sveit settur hvað þetta varðar með gluggana út í portið bakvið hús.

Vilhjálmur borgarstjóri er reyndar búinn að finna brelluna sem á að leysa þennan „vanda“. og hálfnaður að koma henni í framkvæmd. það er semsé búið að fjarlægja ísskápinn í ríkinu við Austurstræti svo þar fær maður ekki lengur kældan bjór. væntanlega allt annað líf í bænum á eftir. til að bíta höfuðið af skömminni vill Villi þessi helst loka þessari sömu búð.
sem er einhver hjákátlegasta ræsisendaaðgerð sem ég hef heyrt fleygt lengi. pissa í skóinn.

---

samtímis er mikið fjallað um þessa tvo húskofa við Laugaveginn sem bisnissmenn vilja rífa og nýta lóðirnar undir stærri hús sem skili meiri arði. nýta lóðirnar. hef sjálfur lúmskan grun um að þarna séu menn á villigötum, þótt ég sé engin sérstök málpípa friðunar alls sem gamalt er. en þetta er varasöm stefna eins og reyndar allt bullið í tengslum við töfrahugtakið „þéttingu byggðar“. á þeim vettvangi hafa á síðustu árum verið gerð stórkostleg mistök í Reykjavík, blokkahverfin nýju í Túnunum og í Sogamýri skýrustu dæmin um það.
og borgaryfirvöld (svipað mál uppi í miðbæ Hafnarfjarðar síðustu daga) standa með lóðareigendum sem verða að byggja stórt til að lóðirnar skili ásættanlegum arði.

---

ég er með tillögu um allsherjar lausn á þessum deilumálum um stórhýsi í grónum miðbæjum. gerum tilraun í Reykjavík.
tillagan er sú að verk- og valdsvið Óbyggðanefndarinnar svokölluðu verði víkkað út og hún fái umboð til að gera kröfu til þess að Laugavegur, alla vega neðanverður, og Kvosin öll verði gerð að þjóðlendu með öllu því sem þar stendur.

væri nefnilega fjandi gaman að fylgjast með viðbrögðum hús- og lóðareigenda í Reykjavík ef ríkið tæki hús þeirra og lóðir eignarnámi með sama hætti og það hefur verið að gera með land í einkaeigu í stórum stíl á landsbyggðinni síðustu árin.

í framhaldinu mætti hugsa sér að fletta malbikinu af Laugaveginum og sjá til þess að hann verði að holóttum drullupollamalarvegi í staðinn, svona af því að það er svo miklu sætara og umhverfisvænna.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Besta hugmynd sem ég hef heyrt lengi - þyrfti að ná til þeirra sem fara með málaflokkinn - gæti orðið skemmtileg umræða.

10:15  
Anonymous Nafnlaus said...

hahahaha...
Villi frjálshyggjumaður alltaf með lausnina á reiðum höndum! :D

En annars, velkominn í Laugardalinn!

10:51  
Anonymous Nafnlaus said...

¡gracias!

12:40  
Anonymous Nafnlaus said...

Já það er ekki öll vitleysan eins. Áfengi er ekki vandamál, fólk er vandamál.

11:06  
Anonymous Nafnlaus said...

Erm... ætlaru norður á Akureyrarvökuna.... ég er íenni.

Langflottust auðvitað.

15:35  

Skrifa ummæli

<< Home