31.10.06

furðurfuglaflensa

á dögunum var mér bent á það að í kringum mig væri mikið af skrítnu fólki. og þá var ekki átt við eintóma uppsalagísla.

held að þetta sé nú misskilningur en byggðist á því að ég var að segja einhverjar sögur af hinum og þessum sem ég hef rekist á eða umgengist undanfarin misseri.

það er þó í þessu þannig sannleikskorn að mér hefur hlotnast sú gæfa að kynnast og umgangast, lengur eða skemur, fjölda fólks sem ekki lætur stjórnast af viðurkenndri meðalhegðun eða gleypir hráar kröfur umhverfisins til slíkrar hegðunar. þetta er líkast til algengara meðal þeirra sem lifa og hrærast í listum en þeirra sem gera það ekki og væri fróðlegt að vita hvað er orsök og hvað afleiðing í því samhengi.

vissulega kannast maður við dæmi þar sem fólk leggst í sjálfskipuð skringilegheit til þess eins að stimpla sig inn í heim listarinnar en það er nú oftast til að fela eigin vanmátt og erindisleysu í þann heim. og svo er hitt að smáborgararnir eiga það til að búast við því af listafólki að það sé skrítið fólk. stundum gaman að leika sér að slíku smá stund.

en „skrítna“ fólkið kringum mig er ekkert skrítið. það er þvert á móti upp til hópa óvenju vel gert fólk sem ber meiri virðingu fyrir eigin lífsskoðunum og lífinu almennt heldur en staðalímyndum og smáborgaraskap.

blessunarlega rekur á fjörur manns einn og einn furðufisk – þeir eru ágætir líka og gaman að segja af þeim sögur.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Það er tómt vesen með venjulegt fólk

15:10  
Anonymous Nafnlaus said...

Heill og sæll.

Sammála þér að það er gaman að hitta furðufiska öðru hvoru. Þeir eru reyndar vandfundnari en áður þegar þeir fengu að ganga um á meðal fólks.

22:38  
Anonymous Nafnlaus said...

Ætli þetta sé ekki eins og með önnur lífsins gæði, þau bestu eru vandfundnust og gæfa að höndla þau.

00:02  
Anonymous Nafnlaus said...

hver hefur bannað furðufuglum að ganga um meðal fólks?

öll eintökin sem ég hef hitt eru mitt á meðal vor og í speglinum stundum.

hafna þeirri paranoju að búið sé að steypa alla í sama mót. það bara er ekki þannig.

22:19  
Anonymous Nafnlaus said...

við erum gæfumenn.

að njóta þeirra hlunninda að geta hitt furðufiskana og -fuglana (jafnvel greinast í oddaflugi með þeim) og speglað okkur í þeim.

22:36  

Skrifa ummæli

<< Home