13.10.06

dimman dettur á

fyrirsögnin er stolin frá Megasi: Tvær stjörnur.

en dimman er dottin á. maður vaknar í myrkri og vakir lengi kvölds í myrkri. saknar sumarsins.

sumarið 2006 kom norður á 17. júní með blómstrandi reyniviði og angandi ösp og sólin skein um miðja nótt. því lauk með dýrðarhausti sem tók enda á sunnudaginn var þegar fór að snjóa og litirnir hurfu af runnum og trjám.

þessa sumars naut ég til fulls og það gerði mig að betri manni. var ekki vanþörf á og vona að það haldi. hef tekið flest viðhorf til lífsins og heimsins til endurskoðunar eins og ég hef svosem nefnt á þessum vettvangi. og held áfram að glenna upp skjáina og líta í kringum mig í forundran að enn skuli veröldin vera í lit. þótt skeggrótin sé orðin svarthvít.

þrátt fyrir að hafa varla tekið frí frá vinnu í sumar náði ég því að fara helgarferðir tvær í Skorradal, Bjarmalandsför yfir Kjöl í afmælisveislu í Árnessýslu, helgarferð á Snæfellsnes og tvær ferðir í Jökulsárgljúfur auk fjölmargra annarra bíltúra, langra og stuttra. og að vera gestgjafi oftar og meira en nokkru sinni. kynnast nýju fólki, styrkja vinabönd. brosandi út að eyrum allan tímann.

sumrinu 2006 er lokið. sakna þess en minnist þess glaður lengi. kveð það með erindi úr kvæði Megasar sem ég nefndi í upphafi:

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Meistari Megas kann að koma að því orðum sem angrar, og hefur líka lag á að hugga.
víst er nóttin stundum dimm, víst er maður stundum fanginn.

En meistari Brecht á líka svör:

Í hyljum í Moldá er hreyfing á steinum.
Það hvíla þrír keisarar grafnir í Prag.
Allt stórt hrynur niður, og nýtt rís í leynum.
Hver nótt er tólf tímar. Þá glittir í dag.

03:10  
Anonymous Nafnlaus said...

þetta er snilld félagi Sigurður. takk. þarf augljóslega að kynna mér Berthold Brecht...

11:00  

Skrifa ummæli

<< Home