30.9.06

vopnin kvödd

til hamingju Ísland!

nú dugar ekkert minna en vitna í stólaxa eins og Hemingway og Sylvíu Nótt.
því í dag er hersetu Kana lokið á Íslandi. því hlýtur hver Íslendingur að fagna og var kominn tími til.

eftir sig skilja þeir á Minesheiði, eins og hvar sem herir koma, sviðna jörð. draugabæ á illbyggilegri heiði, sorphauga sem enginn veit hvaða viðbjóð hafa að geyma og yfirvofandi kakkalakkafaraldur svo eitthvað sé nefnt. hafa að vísu ekki stundað stórtæk manndráp hérlendis enda haft valdhafa í vasanum alla tíð.

meira að segja suðurnesjamenn eygja nú von um að geta byggt upp samfélag sem byggir á raunverlulegum hlutum en ekki þeirri skynvillu og gróðrarstíu spillingar sem herstöð erlends stórveldis með ótakmörkuð fjárráð óhjákvæmilega er.

farið hefur fé betra!

29.9.06

gróðahyggjan og siðferðið

„gullkálfurinn hefur aldrei talist neitt sérlega góður uppalandi.“

þetta snilldarkomment kom upp í skemmtilegu símaspjalli áðan og má til með að tjá mig aðeins um það.
iðnaðarnjósnamálið í ÍE kom til umræðu og mér var bent á nokkuð sem ég hafði hreinlega ekki leitt hugann að (enda verið hjakkandi í hjólfari eins og fram hefur komið).

semsagt það að peninga-, gróða- og eiginhagsmunahyggjan, sem gert hefur svo vel heppnaða innrás í íslenskt samfélag, hafi óhjákvæmilega þau áhrif að siðferði fari hnignandi. að sá ört vaxandi hópur Íslendinga sem hefur gróðahyggjuna að leiðarljósi fórni gildum eins og tryggð, heiðarleika og vináttu umyrðalaust ef þess er þörf til að skara eld að sinni köku.

þetta vita náttúrulega allir og maður kannast svosem við dæmin þegar maður leiðir að þessu hugann. hef allt of lítið gert af því að velta fyrir mér þjóðmálum síðustu árin. best að þurrka af gleraugunum og fara að líta í kringum sig.

orð dagsins

jamm. þá er búið að reka negluna í Kárahnjúkastíflu og uppvask aldarinnar hafið. hættum að láta okkur dreyma um að aftur verði snúið úr þessu.

eftirfarandi er stolið úr forystugrein Baggalúts sem birtist fyrst í gær:

„...Og þeim, altsvo stjórnvöldum, er vitanlega nett sama.
Skítsama.
Skítdrullusama þó eitthvað trjáknúsandi hippalistapakk grenji úr sér augu og lungu á hálendaskýlum sínum yfir einhverri örfoka landspildu lengst uppi á heiði, sem engum er til gagns hvað þá gleði.
Flotskítdrullusama.
Þeim er sama þó Draumlendingurinn Andri taki allar þeirra röksemdir og fyrirætlanir, brjóti þær niður svo ekki stendur steinn yfir steini. Þeim er sama þó hann taki að svo mæltu hvern þann stein og moli mélinu smærra með orðkynngi og hugmyndaauðgi. Þeir þegja bara. Brosa og þegja. Vitandi sem er að Íslendingar hlusta ekki á skáld sín heldur lesa þau.
Og jafnvel þó sjálfastur Ómar Ragnarsson brjóti sinn eldfima huga til mergjar og varpi fram stórfenglegri hugmynd landi sínu til varnar — sinni bestu — þá er þeim sama.
Þeir hlusta ekki einu sinni á Vigdísi. Bölvaðir.“

svo mörg voru þau orð dagsins.

27.9.06

nóg komið

Sá kerrugarmur sem mitt auma hversdagslíf er hefur um skeið verið gjögtandi í örmjóu en að sama skapi djúpu hjólfari. Legurnar stirðar og öxullinn boginn. Nú er nóg komið!

Vissulega er oft gaman á þessari ökuferð og aldrei skemmtilegra en þegar heillandi farþegar hoppa uppí og taka sér far en kerruferðin hefur samt verið tilgangslítil hringrás um andskotann ekki neitt. Nú er semsagt nóg komið!

Því hvað sem tautar og raular ætla ég að komast upp úr hjólfarinu og taka í taumana. Beiti til þess þeim meðulum sem finnast kunna. Fyrst er að henda óþarfa farangri og fórna því sem fórna þarf.

Byrjaði á því í dag þegar ég sagði mig frá ritstjórn skógarbókarinnar sem hefur legið á mér eins og mara í meira en ár og haldið fyrir mér vöku ófáar nætur. Næstu brellur eru í undirbúningi og vinnslu. Meira um það síðar en svo sannarlega er nú nóg komið!

Nýtt líf skal það vera.

26.9.06

pestar og önnur skemmtilegheit

hef legið heima í dag og í gær með heiftarlega magakveisu og tilheyrandi leiðindi. gjörsamlega óþolandi ástand en fer eitthvað skánandi. verst hvað maður er eitthvað druslulegur á eftir.
þetta skýrir hvað færslur hafa verið stopular undanfarna daga.

annars var helgin fín; Hlynur Helgason, gamall vinur og félagi úr Mynd- og handó sýndi í Populus og svo fylgdist maður með djamminu í kringum Sjónlist. það var ekkert leiðinlegt.

annars er það nýjast að bókmenntakvöld heglað undirrituðum verður haldið í Populus tremula föstudaginn 6. október, eftir hálfa aðra viku. ætla fara með nokkur lög í lok dagskrár og gera það eins vel og mér er kostur... framundan eru stífar æfingar um leið og viðunandi heilsu er náð.

23.9.06

batnandi manni...

bara hreinlega verð að deila þessari snilld. þetta orti félgi Sigurður Jónsson á nótæm í gærkvöld í framhaldi af einhverjum óverðskulduðum hálfkæringi um Ómar garminn Ragnarsson:

Vegna ómaklegra aðdróttana um að Ómar Ragnarsson ætti helst að þegja, skal áréttað:
Allajafna hefði ég verið sammála, en á einu dægri snerist ég á sveif með honum eins og uppreisnarmönnum yfirleitt.
Þessvegna orti ég sjálfun mér til gamans.

Batnandi manni er best að lifa


Ómar Ragnars aldrei heldur kjafti
æ, svo hvimleitt allt hans jarm
opinn niðrí endaþarm
háloftin hann ríður um á rafti.

þar kom þó að karlinn yrði reiður
þandi út sinn breiða barm
braut af sér þann dyrakarm
sem áður olli því hve hann var leiður

nú er hann frjáls og aldeilis fjúkandi reiður
fréttamanns gáttin gufuð upp
gengur með byssu sér við hupp
hjálpi þér guð, ef þú ræðst á hans hugsjón og heiður

þegar af bræði ólgar Ómars blóð
ættir þú að varast
viljirðu ekki farast
allt þetta veit mín elskulega þjóð

Ómar mun sigra að lokum og landinu bjarga
lónbotninn skrýðast lyngi
ljóma hver sál á þingi
og lofasyngja það sem asnarnir ætluðu að farga.

21.9.06

kvæði dagsins

rúmri hálfri öld áður en Ingólfur og Hjörleifur héldu af stað frá Noregi að nema Ísland orti Po Chü-i þetta kvæði austur í Kína. Vésteinn Lúðvíksson þýddi:

HÁTÍÐ

Ég er á fertugasta og níunda aldursári.
Jafnvel sólin virðist gömul og þreytt.

Í kvöld er verið að fagna einhverju. Tunglið
er meðal gestanna og lýsir upp himininn.

Álútur held ég um hnén og velti vöngum
yfir því sem varð og ekki varð – þegar

vitlaus stelpa og ruglaður strákur kalla:
Hvernig væri nú að drífa sig út og dansa!

20.9.06

þetta er orðið ansi dimmt sumar

hefur verið líkt farið síðustu dægur og Ronju ræningjadóttur þegar hún hafnaði haustinu eftir sumarið góða í skóginum með Birki. talaði um að það væri kalt í sumar þegar í raun var að koma vetur.

en á endanum verður að horfast í augu við myrkrið og klæða af sér kuldann hversu nöturlegt sem það er. að baki er sumar sem ég hef notið til fulls af áfergju og fögnuði. ætla að vitna aftur í tregafullt kvæði pabba gamla um sumarlokin, að þessu sinni tvö fyrstu erindi ljóðsins:

Nú er sumarið gengið um garð.
Grátt er hið mislynda haust.
Ég sá ei hvað af sumrinu varð
en sakna þess endalaust.

Sumarið gaf mér þá gjöf
sem ég geymi í brjósti mér,
að elska uns geymist í gröf
það sem gott og fagurt er.

...

18.9.06

barnatrúnni er ég búinn að gleyma...

vinkona mín ein er eitthvað að kynna sér trúarbragðakennslu um þessar mundir og það minnti mig að ég heyrði á dögunum að ágætur kennari við Brekkuskóla, þar sem Sigurður minn Ormur ungur nemur, hefði verið að fræða ungdóminn á þeirri staðreynd að forsprakkar nasista í Þýskalandi hefðu allir verið hommar...

þetta er sami barnafræðarinn og stóð fyrir bókabrennum og brenndi (í bókstaflegri merkingu) þungarokksdiska í Vestmannaeyjum hérna um árið og gengur undir nafninu Snorri í Betel. sá hefur verið við kennslu hérna fyrir norðan í nokkur ár og hef ekki til þessa heyrt öðruvísi en vel af manninum látið.

þetta er hins vegar stóralvarlegt mál ef satt er.

17.9.06

í náttúrulegu umhverfi



enn ein Ljóðagangan er frá. sprakk heldur betur út með þátttöku í gær, 40 manna rútan troðfylltist og þurfti 10 einkabíla eða svo til viðbótar svo þátttakendur kæmust á staðinn. minnst 60 manns!

tókst í alla staði frábærlega og mikil ánægja með framtakið hjá þeim sem voru viðstaddir.

auk snillinga sem lásu kvæði eða sungu fyrir göngufólk, kom undirritaður fram sem trúbadúr og kyrjaði tvö kvæði. myndin er af þeim gjörningi, tekin af Sigurði Ormi, 10 ára hirðljósmyndara Populus tremula. nokkrir gesta kvörtuðu yfir því að seinustu tveimur orðunum í enda annars kvæðisins var sleppt – (það voru þessi þrjú sem höfðu heyrt kvæðið áður og þar með auðvitað sú sem ljóðmælandi ávarpar þessum orðum í lok bragsins...) heheh

14.9.06

sumarið 2006

þetta kvæði varð til að kvöldi 28. júní sl. að gefnu tilefni
(og gullfallegur lagstúfur með, þótt ég segi sjáfur frá):

Reynitrén í bænum standa í blóma í kvöld og sóln skín.
Gluggarnir austur á Garðsá loga líkt og gjörvöll vitund mín.
Síðan ég sá þig fyrst á sautjánda júní.
Síðan ég sá þig fyrst um sumarnótt.

Á Pollinum dró gamli Maxim Gorkí áðan akkerin um borð.
Reykurinn stígur til himins og hverfur svona eins og ósögð orð.
Ég hef hugsað til þín síðan sautjánda júní.
Ég hef hugsað til þín síðan sá ég þig fyrst.

Í heiðinni hafa fannirnar nú hopað fyrir sumargrænum kjól.
Og björgin fyrir handan eru bleik um miðja nótt af ungri sól.
Ég hef saknað þín síðan sautjánda júní.
Ég hef saknað þín síðan þú kvaddir mig fyrst.

12.9.06

populus tremula á netinu

menningarsmiðjan góða er komin á netið loksins.
slóðin er: poptrem.blogspot.com og er reyndar hérna til hægri >>>

verkalýðsbaráttan blífur

heyrði um daginn af unglingsstelpu sem var að vinna í sumar í tískuvörubúð hér í bæ. hafði óvart ekki fengið útborgað í tvo mánuði eða svo þegar hún hætti til að fara í skólann. og fékk þær upplýsingar frá vinnuveitendanum að það væri bara ekki hægt að borga út marga mánuði í einu; hún fengi því peninga fyrir ágúst en hitt yrði hún að taka út í fötum – það væri nú bara þannig –sorrí.

og svo vildi stelpan helst ekkert gera í þessu vegna þess að þá yrði hún örugglega sett á lægsta taxta með allan pakkann.

ergo: vinnuveitandinn er krimmi og stelpukrílið samdi ekki um nein laun í upphafi, eða neinn fyrir hana.

þetta dæmi vakti upp pælingar um hvort langvarandi friður á vinnumarkaði og hagsæld landans svona í heildina litið væri að ala upp heilu kynslóðirnar sem hafa enga reynslu, tilfinningu fyrir eða þekkingu á kjarabaráttu og réttindamálum launafólks.

nokkuð viss um að það er þannig og það eru bæði góðar fréttir og slæmar. samt ekki frá því að þær séu meira í neikvæða kantinum, því fjandinn má vita hversu lengi við lifum í þessari neysluvímu meintrar ofgnóttar sem mun vera Davíð og Halldóri einum að þakka. og stendur í kolröngu hlutfalli við gluggapóstinn sem berst hingað í Spítalaveginn.

því hvað sem öðru líður liggur endalaus barátta og harðvítugar deilur að baki hvers smáatriðis sem varðar réttindi launafólks. saga sem bagalegt er að hverfi úr vitund þjóðar. erum við eitthvað annað en afsprengi liðins tíma?

10.9.06

takið laugardaginn frá!




laugardaginn 16.9. nk. verður LJÓÐAGANGAN farin í Garðsárreit í Eyjafirði í samvinnu Skógræktarfélags Eyfirðinga, Amtsbókasafnsins á Akureyri og Populus tremula. Garðsárreitur er magnaður.

skógurinn verður kynntur, hellt uppá ketilkaffi og bragðbætt með kúmeni að vanda.

til upplyftingar andanum munu eftirtaldir lesa eða syngja kvæði fyrir göngufólk:
Arna Valsdóttir, Hannes Örn Blandon, Helgi Þórsson, Jón Kristófer Arnarson og Steinunn Sigurðardóttir auk undirritaðs.

þau ykkar sem eruð að asnast á suðvesturhorninu: nú er bara að drífa sig norður og taka þátt í Ljóðagöngu um næstu helgi.
¡hasta luego!

tungutak

af því að ég er byrjaður að mæla með vefsíðum má ég til að koma að öðrum vef sem ég heimsæki á nokkurra vikna millibili. það eru pistlar Sverris Páls Erlendssonar um íslensku, hann kallar þetta Mannamál. slóðin er:
http://svp.is/?s=blog&action=blogs&category=1

Sverrir Páll tekur fyrir allan fjandann og ég er svosem ekkert alltaf sammála honum – þó oftar en ekki. fyrir þá sem hafa gaman af íslensku yfirleytt er þetta fínt efni, stuttar ádrepur mest.

sjálfur er ég haldinn þeirri þráhyggju að taka ekki mark á vondum texta annarra. þess vegna böggar („bögg“ er fallegt íslenskt orð, segir Megas) það mig að málfari í fjölmiðlum hefur hrakað á síðustu árum. þetta er hrokafull afstaða, en hvað með það?

9.9.06

fagnaðarfundir

mikið er nú lífið skemmtilegra eftir að vefur Baggalúts opnaði að nýju fyrir rúmri viku eftir óvenju langt sumarfrí.

ef einhver af ykkur, þessum örfáu hræðum sem slæðist hingað, eru ekki að fylgjast daglega með þessum vef, ráðlegg ég ykkur eindregið að gera það framvegis. þroskaður menntaskólahúmor sem oft er fáránlega fyndinn og stundum beinskeyttur.

bendi sérstaklega á forystugreinina akkúrat núna, þessa sem heitir Magni kosinn. Enter þessi er höfuðsnillingur og frábær penni. svo er af sömu rótum smáauglýsing neðst á forsíðunni, beint til tónleikahaldara...

á bakvið liggja svo fjögurra ára birgðir af húmor fyrir þá sem hafa gaman af að gramsa.

kynntist þessum vef fyrir hreina tilviljun nokkrum vikum eftir að hann fór í loftið fyrir 4 árum og hef allar götur síðan haft hann sem „heima-síðu“ á vafranum hjá mér, þeas þegar ég opna browserinn kemur Baggalútur á skjáinn. það léttir manni daglegt amstur.

8.9.06

byggingameistarinn

7.9.06

glens

þessi finnst mér nokkuð góður:

hæna og egg lágu hlið við hlið í rúminu og allt í kuðli. hænan lygndi aftur augun með sælubros á vör meðan hún kveikti í sígarettu, rjóð í vöngum og dæsandi af vellíðan.

eggið hins vegar hundfúlt og úrillt tautaði í fýlulegum tóni:

„jæja, það er þá loksins búið að svara þessari fjandans spurningu!“

6.9.06

orkureikningar og okurreikningar

Af hverju í fjandanum eru ekki allir að plana eða taka þátt í uppreisn gegn okri símafyrirtækjanna?

Nú er svo komið að maður borgar álíka mikið fyrir afnot af síma og nettengingum (og þá er ég bara að tala um afnot, ekki notkun) heldur en samanlagt í hita og rafmagn.

Á síðasta símreikningi á mínu heimili var upphæðin um 7.500 kall. Þar af var símnotkun kr. 23 og einhverjir skilgreindir aurar! Hitt eru fastagjöld af síma og tölvutengingum. Að vísu með talsverðri notkun innifalinni en mér er fjandans sama. Taki ég afnot af RÚV og Skjánum með símreikningnum er ég kominn langt yfir orkureikningana.

Til gamans má geta þess að verð á heitu vatni á Akureyri er nú nánast það sama í KRÓNUTÖLU og það var árið 1990. Neytendur njóta þess semsagt í verðlagi að hagur fyrirtækisins vænkar.

Er viss um að símafyrirtækin eru að hala inn milljarða fyrir nánast ekki neitt.

Auk þess líður ekki sú vika að maður fái ekki sögur af hroðalegri þjónustu Símans eða Voðafóns.

Þetta er ótækt og með ólíkindum að það séu ekki allir að tala um þetta. Menn geta rifist um smáaura í raforkuverði en enginn skammast yfir þessu. Eða hef ég kannski ekkert verið að hlusta?

5.9.06

árs-kososandur

komst að því um síðustu helgi mér til furðu að á Árskógssandi býr enn hópur Kosovo Albana sem tilheyrðu flóttamannahópi fyrir allnokkrum árum. hélt þeir væru allir löngu farnir og hið besta mál að þeir eru þarna og una hag sínum við fiskvinnslu og slíka dægradvöl sem hæfir í íslensku sjávarþorpi og taka virkan þátt í atvinnulífinu.

svo vel una Kosovar sér á Sandinum að þeim fer fjölgandi, það bætist í hópinn nýtt fólk sem flytur að utan og hingað norður: systur og mágar, bræður, mágkonur, svilar, frænkur, frændur og mæðrabræður og hvað þetta heitir, eru smám saman að koma sér fyrir við utanverðan Eyjafjörð. fínt mál.

en viti menn: eftir því sem ættboginn stækkar á Sandinum minnkar samneyti þessara ágætu íbúa við samfélagið sem fyrir var og innflytjendahópurinn einangrast. þau láta sér nægja samneyti hvert við annað nema til að afla brýnustu nauðsynja.

þetta er svosem alþekkt fyrirbæri en að frétta af því í dvergvöxnu sjávarþorpi á hjara veraldar, þorpi sem ég nauðþekkti í æsku, er sláandi.
kannski hefðu Hornstrandir aldrei farið í eyði ef menn hefðu haft rænu á að bjóða þangað hópum flóttafólks á fimmta áratugnum... landflótta gyðingum til dæmis. væri kannski töluð hebreska í Hælavík.

4.9.06

andræði fyrir svefninn

stelst til að birta hér eitt af Andræðum Sigfúsar Bjartmarssonar:

Oft
verður
hógvær maður
hornreka.

Og auðmjúkur
mun áfram verða
undirtylla.

Og lúsera-
flokkinn munu
svo lítillátir
fylla.

Atli Sigfus – Þelamörk

af veðri og færð

magnað að ná sannkölluðu indíánasumri á suðvesturhorninu um helgina. kom með flugi til Reykjavíkur um sjöleytið á föstudagskvöldi með höfuðfat og í peysu úr nepjunni nyrðra. að stíga út úr vélinni í Vatnsmýrinni var svipuð upplifun og maður hefði lent í Malaga – logn og hiti og borgin verulega flott. og að rölta um miðbæinn fram eftir kvöldi var frábært í þessu veðri: útlönd í Reykjavík.

svo haldið í norðangarrann í Skorradal á laugardag en í gær var þar frábært veður – og heitur pottur, flottur skógur á Stálpastöðum og félagsskapur eins og best gerist. Skorradalur er flottur. dugði mér fínt en var hálfslæptur eftir enn einn bíltúrinn norður undir kvöld. var gott að fá Sigurð Orm í gistingu í gær.

3.9.06

berserkjasveppur ur Skorradal

1.9.06

undir utanaðkomandi pressu

vegna fjölda áskorana (sem koma reyndar allar frá sama aðila) er ekki ólíklegt að hnoðað verði saman í vetur dagskrá með kvæðum undirritaðs til flutnings í Populus tremula. lesin eða sungin sitt á hvað enda lagasafnið smástækkandi. bætist að jafnaði við eitt stef á ári...

útgefandinn góði á Akranesi er líka annað slagið að bögga mig með því að heimta ljóðabókarhandrit sem hann ætlar að gefa út með umtalsverðu tapi. slík áform eru vissulega göfug og ljótt af mér að sinna ekki manninum af neinu viti. en seinustu misserin hefur mér þótt miklu meira gaman að hnoða saman söngtexta en liggja í að hefla til smákvæði.

svo er stefnt að myndlistarsýningu í vetur í JVS Gallerí í Listagilinu. um svipað leiti er aldarfjórðungur síðan ég byrjaði að fikta við myndlist og spurning hvort verður reynt að slá upp almennilegu partýi í tilefni af því.

(var nú ekki meiningin upphaflega að þetta bloggkríli yrði að einhverri frétta- eða aðdáendasíðu um sjálfan mig, en svona geta einbúar í dreifbýli orðið andskoti egósentrískir... og aðrir eru nú ekki vanir að hafa hátt um mín afrek, síst þessi óunnu)

hvað um það – næsta partý er í Skorradal annað kvöld. Rauðavíkursystkinin og ættmóðirin ætla að jórtra fisk og hella í sig áfengi utan alfaraleiðar eins og best hæfir því liði. gæti orðið bráðfínt.

klakabjörk – reyndar siðan i lok mai i vor...