31.1.07

lausum endum fækkar

mikið annríki í prívatlífinu þessa dagana.

vel heppnuð málverkaútsala að baki um síðustu helgi og staðið í ströngu í pökkun og sorpeyðingu. yfirgengilegt hvað safnast upp hjá manni af drasli. skil það reyndar ekki. úr kjallaranum einum saman eru farnir þrír fullir sendibílar á haugana. og einn úr íbúðinni sjálfri sem þó var tekin algjörlega í gegn fyrir réttum tveimur árum. þarf að passa mig á þessu framvegis.

og tókst að leigja út íbúðina í kvöld. það var síðasta vafamálið í flutningaferlinu. afhendi íbúðina á föstudaginn kemur og þarf að gera eitt og annað fyrir þann tíma. samt ekkert óyfirstíganlegt. húsgögnin verða sennilega erfiðust viðfangs, þeas að troða þeim inn í kjallarann. sé það yfir höfuð hægt.

útfararpartí úr Spítalavegi og Stíl á fimmtudagskvöldið klukkan tuttugu. gestir fá að bera bókasafnið í kjallarann...

síðasti vinnudagur á Stíl á morgun eftir hálft ellefta ár. semsagt tímamót. í raun er ég að skipta um vinnu í annað sinn á ævinni svona í alvöru. fyrir utan æsku- og námsár í hinu og þessu eins og gengur. kannski verður sagt um mig eins og ágæt kona sagði við son sinn þegar hann um þrítugt skipti í fyrsta sinn á ævinni um starf: „ætlar þú að verða einn af þessum mönnum sem tollir hvergi í vinnu?“

og svo á að keyra suður á föstudagskvöldið með búslóð sem rúmast í Peugeot 407 sedan. semsagt sokkaplöggin, tölvuna og gítarinn... eitthvað af myndlist á veggi. og bling! fluttur. í bóhemstúdíó við Tryggagötuna eins og vera ber og passar mér best.

26.1.07

kom að því!

í gær voru stofuð Landssamtök landeigenda til höfuðs þjóðlendulögunum sem ég hef minnst á hér nokkrum sinnum. nú er loksins eitthvað að gerast í þessu og afbragð ef þetta verður að kosningamáli í vor eins og líklegt er.

og athyglisverð sú staðreynd að þessi fráleitu lög hafa verið í gildi í 9 ár án þess að hafa komið til umræðu á Alþingi í eitt einasta skipti. aldrei. enginn þingmaður hefur nokkru sinni séð ástæðu til þess að taka þetta til umræðu. enda lögin á sínum tíma samþykkt samhljóða án umræðna.

það er líka merkilegt að ríkisstjórn framsóknar- og sjálfstæðisflokks skuli standa fyrir svo stórfelldri eignaupptöku og þjónýtingu. beinlínis fráleitt. og svo ætlar Guðni að ganga fram fyrir skjöldu núna, kortéri fyrir kosningar og snúa við blaðinu. hver tekur mark á slíku?

umfjöllun um stofnfund samtakanna hér:
http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1249476

25.1.07

tætingur

það er ekki bara leti sem veldur þessum gisnu bloggfærslum síðustu daga. bara svo þið vitið það.
er að glíma við ýmsa hluti á mörgum vígstöðvum og þessi þáttur víkur á meðan.

• pakka niður og sortéra eina búslóð. allsherjar tiltekt í leiðinni og stefnir í að enn verði að stækka sorphaugana á Glerárdal til að koma því fyrir sem fórnað er til urðunar.
• útsala á málverkum um helgina, reyndar tilbúin til opnunar.
• ítrekaðar tilraunir til að koma íbúðinni í útleigu. má alveg fara að ganga upp. vil flytja eftir viku.
• ganga frá ótal hlutum í vinnunni áður en ég yfirgef stöðina, bæði gagnvart vinnufélögum og viðskiptavinum.
• sinna aukavinnunni fyrir Populus tremula sem er að hefja útgáfustarfsemi á næstu dögum.
• sinna aukavinnunni fyrir hina útgáfuna, Uppheima, sem ég hef svikið um verk undanfarna daga.
• og helginni verður eytt með góðum gesti, auk þess að sitja yfir útsölunni. hugsanlega síðasta helgin í Spítalaveginum að sinni.

næsta vika verður illa klikkuð því þá koma til framkvæmda öll leiðinlegu smámálin sem tengjast búferlaflutningum.
en þvílíkur léttir sem það var þegar fyrirhafnarlaust datt upp í hendurnar á mér íbúð á besta stað í Reykjavík (fyrir einhleypan bóhem NB) sem bíður mín fullbúin. það var magnað.

21.1.07

ritskoðun

gerði í morgun og fram eftir degi margítrekaðar tilraunir til að koma hér inn mínum fyrsta pistli um pólitík.

skemmst frá því að segja að blogspot.com ritskoðaði pistilinn og hafnar birtingu hans. frýs allt um leið og talið berst að stjórnmálum, enda vinstri slagsíða á innihaldinu, ef eitthvað. gefst upp að sinni.

20.1.07

Útrýmingarbrunaútsalan!






Laugardaginn 27. og sunnudaginn 28. janúar kl. 14:00-17:00 mun Aðalsteinn Svanur Sigfússon halda ÚTSÖLU á eigin málverkum í Populus tremula. Til sölu verða málverk frá 10 ára tímabili á allt að 90% afslætti! Kaupendur geta gengið út með verkin gegn staðgreiðslu. Allt á að seljast!

18.1.07

unginn á Spáni


þessari bráðfínu mynd stal ég blogginu hennar Kötlu minnar.

hún situr nú við spænskunám í smábænum Nerja í Andalúsíu, við strönd Miðjarhafs. svona meðan maður er krókloppinn í myrkrinu að skafa af bílrúðum og moka tröppurnar. hún liggur í sólbaði við heimalærdóminn meðan maður er hættur að nenna út að reykja fyrir snjó og frosti. sem er í sjálfu sér ekki alslæm afleiðing vetrarríkisins.

og segir mér að hún ætli að fara að læra köfun. sennilega ekkert að því að gera það í Miðjarðarhafinu þótt glansinn fari kannski af hér úti við Íshafið.

fyrir ekki svo mörgum árum hefði eini samskiptamátinn verið sendibréf sem voru hálfan mánuð á leiðinni (kynntist spænsku póstþjónustunni eins og hún var fyrir 20 árum) eða rándýr símtöl. núna aftur á móti er ekkert mál að vera í daglegu sambandi, þökk sé netinu. tölvupóstur er makalaust fyrirbæri og bloggið dugar ágætlega. er reyndar sú risaeðla að hafna því að tileinka mér msn – nóg er samt.

bestu kveðjur til España – þangað langar mig alltaf.

mannanöfn

var eitthvað að tjá mig um mannanafnanefnd um daginn. í framhaldi af því ætla ég að stelast til að birta eftirfarandi, sem er tekið þráðbeint af Baggalúti, forystugrein skrifuð af Enter:

„Jæja.
Nú þegar loksins má nefna blessuð börnin Hólmfastan Kaktus, Ljótan Dreka, Bíbí Blíðu og Hugljúfa Þúfu — er þá ekki mál að finna blessuðu fólkinu sem skipar mannanafnanefnd eitthvað vitrænt að sýsla — og vísa jafnframt áhugasömum og frumlegum málnotendum með djúpstætt hatur á afkvæmum sínum beint að skírnarfontinum?
Maður spyr sig.“

17.1.07

janúarútsalan framundan

jæja. nú líður óðum á útsölumánuðinn og eins gott að fara að huga að því að taka þátt í þeim slag.

ætla semsé að halda útsölu á myndlist um aðra helgi. rýmingarsölu á málverkum sem kúldrast í geymslu undir tröppum í Poulus tremula. sú geymsla er reyndar kölluð Reiðhöllin. nafngiftin á rætur í þeim árum fjölmörgum sem Kristján Pétur og Jón Laxdal ráku vinnustofu í plássinu. hjá þeim var gestkvæmt og í kompu þessari var dívangarmur alla þeirra tíð.

man ekkert nákvæmlega hvað er í þessari reiðhöll af málverkum en alla vega fer dálítið fyrir þeim og þarf að koma þeim burtu. og var búinn að heita þvi að flytja þau ekki milli geymsla einu sinni enn svo nú verður haldin brunaútsala. verður fróðlegt að sjá hvernig viðtökur verða. einhver tvö úrvalsverk verða þarna með, í stærri kantinum. svo alls konar malerí frá árunum frá svona '86 til '96 eða svo.

lít reyndar á þetta sem gjörning, hef enda gert þetta áður. að benda á að málverk eru vissulega markaðs- og neysluvara eins og hvað annað og ekkert athugavert að slá verulega af verði þeirrar vöru sem ekki selst vel og tekur lagerpláss. málverk eru ekki heilagir hlutir þótt þau hafi stimpilinn listaverk.

þannig að... fyrir þá sem hafa alla tíð alið þá von í brjósti að eignast málverk eftir Aðalstein Svan er þetta gullið tækifæri. mun standa dagana 27. og 28. janúar frá kl. 14:00 - 17:00

16.1.07

imbinn í tuttugu stiga frostinu

grimmdarfrost og fallegt við Eyjafjörð í dag. Vaðlaheiði hvarf nánast í frostþokunni og ekki amalegt þessa stund sem sólin skein um hádaginn. nema ef maður asnaðist út – þvílíkur brunagaddur! reyndar komið niður fyrir fimmtán þegar þetta er slegið inn.

hef annars dormað yfir sjónvarpinu síðustu kvöld, aldrei þessu vant. einhvern veginn vantað orku til annars.
sá meðal annars magnað viðtal við Dorrit forsetafrú. heillaði mig upp úr skónum með opinskáum heiðarleika og skynsamlegum svörum. djörfum á köflum. Dorrit er æðisleg.
í spaustofunni var fyndinn skets – þegar leikhúsgestir voru beðnir að slökkva á farsímum. minnstu brandararnir þeirra eru oftar ekki bestir.
og hef svo komist að því að á Sirkus er verið að endursýna fínar seríur. Ali G (sem ég fylgdist nánast ekkert með á sínum tíma) er bara fyndinn. hlæ hástöfum aleinn í kotinu.

skondið af því að ég hef nánast ekki horft á sjónvarp síðustu árin. og ætla ekki að gera það að vana að liggja yfir því langtímum saman.

hafði bara ekki meiri speki að miðla að sinni...

14.1.07

myndlist

mikill myndlistardagur á Akureyri í gær. við Atli Sigfús náðum 5 sýningum seinni partinn, þar af 4 opnunum.

Jón Óskar er með makalausa sýningu í Listasafninu og Joris Rademaker með frábæra sýningu hjá Jónasi Viðari. fleira var skemmtilegt.

mest gaman var samt að hafa Atla með. hann sló algerlega í gegn og heillaði kalla og þó einkum konur gersamlega upp úr skónum og fékk sannarlega að njóta sín. stoppuðum stund á Karólínu á heimleiðinni þar sem hann fékk að valsa um allt með Albertu þjóni og þau urðu mestu mátar. svo var ég spurður þrisvar hvort ég væri afi hans – fannst það ekkert leiðinlegt heldur.

svo komum við heim og hann skreið til mín upp í sófa og tók utan um mig og sagði: „þú ert besti vinur minn.“
á semsagt ekkert erfitt með að bræða harðsnúnasta lið sá stutti.

12.1.07

bókasafnið


jæja, þá er undirbúningur flutninga hafinn loksins. íbúðin óleigð ennþá reyndar.

bókasafn heimilisins er semsé komið í kassa eins og sjá má á myndinni. þetta er lagleg stæða og það sem meira er, hún inniheldur verulega góðar bókmenntir. hef ekki talið en giska á að í þessum 64 kössum (tugur eða svo til viðbótar er í kjallaranum, samtals á áttunda tuginn) séu minnst 2.000 bindi. að stærstum hluta skáldsögur.

þessu bókasafni kom ég mér að mestu leiti upp á þrítugsaldri. sótti alla bókamarkaði sem þá voru að byrja fyrir alvöru og lá í fornbókaverslunum. eyddi öllu sem ekki fór í brýnustu nauðþurftir í bækur.

er nánast hættur að kaupa bækur fyrir löngu. en einhvern veginn vilja þær nú safnast að manni samt og það fækkar ekki í safninu.

kosturinn við að hafa svona nokk á heimilinu (ekki í kössum reyndar) er að maður getur hvenær sem er gengið að hvers konar bókmenntum til lestrar eins og manni hentar hverju sinni. er svo heppinn að geta lesið sömu bókina margoft og notið hennar í hvert skipti eins og um frumlestur væri að ræða.

hafði reyndar á orði við Kristján vin minn í Uppheimum í gær að það væri búið að gefa út alveg nóg af bókum. spurning um að fara að láta þetta gott heita...

þessi kassastæða finnst mér falleg. á næstunni þarf ég að bera allan staflann niður í kjallara... sjálfboðaliðar kannski?

10.1.07

leiguhúsnæði

jæja gott fólk – nú reynir á vini og ættingja!

þarf að leigja íbúðina við Spítalaveg hið fyrsta, helst frá næstu mánaðamótum. gjarnan með húsgögnum til að byrja með.
set á hana lágmark 80.000 fyrir utan hita og rafmagn (sem er nærri tíuþúsundkallinum). vil helst leigja fjölskyldufólki og gjarnan til árs hið minnsta. íbúðin á hæðinni er 97 fermetrar (3 svefnherbergi) og svo er sameiginlegt þvottahús í kjallara. geymslur í kjallara leigjast ekki út að sinni.

jafnframt vantar mig húsnæði í Reykjavík. herbergi gæti dugað í einhverjar vikur en svo íbúð.

látið mig endilega vita ef þið vitið af einhverju eða hafið sambönd sem gætu virkað. hef ekkert sinnt þessum þætti og er að verða klaufalega seinn til – kæruleysið uppmálað.

síminn er 860 6707, netföngin eru: adalsteinn.svanur@simnet.is og adalsteinn@still.is

9.1.07

heimsmet!

við erum best í heimi! Íslendingar standa öllum þjóðum framar á öllum sviðum og við vitum það. umheimurinn hefur kannski verið dálítið tregur til að átta sig á þessu en við vitum það. og nú höfum við enn á ný slegið allri heimsbyggðinni við og sett nýtt heimsmet. ekki nóg með að hér séu sterkustu karlmennirnir og fallegustu konurnar, ónei, það er bara byrjunin.

samkvæmt frétt á visir.is í dag er semsé svo komið að á Íslandi er líklega hæsta matvælaverð í heimi.

nú kemur sér vel ofsagróði bankamanna og annarra atvinnufjárfesta með útrásaræði. verst að þeim auði er að leiðinlega litlu leyti deilt milli annarra en ofurlaunaðra milljarðamæringa. samt ekki að sjá af holdafari að einu sinni þeir séu að éta yfir sig.

kannski er þarna komin leiðin til að stemma stigu við offitufárinu: sjáum bara til þess að matvaran sé svo dýr að enginn belgi sig út umfram brýnustu nauðsyn. svona sama sístem og hefur frá ómunatíð verið beitt til að stemma stigu við reykingum og drykkjuskap. með þeim afleiðingum að maður hefur ekki efni á að fá sér nýja skó.

sagnfræði

datt einhverra hluta í það í gær að lesa mér aðeins til um valdatíma Pols Pot í Kambódíu á áttunda áratugnum. vissi mjög lítið um þetta fyrir enda meira krakki en kall meðan á þessu stóð. nöfn man maður úr fréttum.

eitt af því sem ég vissi ekki var hlutur Bandaríkjamanna í uppgangi Pols Pot og Rauðu khmeranna, en hann er umtalsverður og tengist hernaði USA í Vietnam.

þegar Pol Pot náði völdum í Kambódíu 1975 varð hans fyrsta verk að afnema markaði, skóla, dagblöð, trúariðkun og eignarrétt. bara lokað og bannað. hann rak útlendinga úr landi og lokaði sendiráðum.
um leið tók hann t.d. opinbera starfsmenn, lögreglumenn, yfirmenn í her fyrri stjórnar, hvers konar trúarleiðtoga og starfsmenn, fólk úr millistétt landsins, kennara og allt menntafólk og tók af lífi. bara si svona.

hann taldi sig vera að stofna fyrimyndarríki kommúnismans. hann tæmdi borgir og bæi landsins og rak alla út í sveit og þjóðin skyldi öll vinna við landbúnað.

Pol Pot ríkti í 3 ár. á þeim tíma lést eða var tekinn af lífi fjórðungur til þriðjungur þjóðarinnar (allt að 3 milljónir manna). hungsneyð ríkti þrátt fyrir að þjóðin öll ynni við landbúnað.

svona hluti eigum við að muna, jafnvel þótt þeir hafi átt sér stað langt austur í Asíu. og það eru bara nokkrir dagar síðan.
hér eru afar vel dregnar saman upplýsingar um málið: http://www.moreorless.au.com/killers/pot.html

almenningssamgöngur i Eyjafirði


eins og fram hefur komið var í málefnasamningi bæjarstjórnarmeirihlutans á Akureyri eftir kosningarnar síðasta sumar að um áramótin 2006-2006 yrði ókeypis í strætó á Akureyri og einnig í Hríseyjarferjuna. af því að Akureyri yfirtók Hrísey fyrir nokkrum árum.

nú hefur þessi ákörðun orðið að veruleika og er hið besta mál, reyndar bæjaryfirvöldum til mikils sóma. líkt og bílastæðaklukkurnar árið 2005 sem svoleiðis þrælvirka og eru bráðsnjöll lausn. þarna ganga Akureyringar á undan með góðu fordæmi og ástæða til að vera stoltur af því.

hins vegar var ég, eins og aðrir íbúar sveitarfélagsins, að átta mig á því á dögunum að til að fá frítt í Hríseyjarferjuna þarf maður sannanlega að eiga lögheimili í Hrísey. get í sjálfu sér skilið að sú aðferð sé farin en málið er að þetta er bara ekki það sem talað var um í sumar og munar ansi miklu. það var talað um frítt í ferjuna, ekki frítt í ferjuna fyrir nokkra. því íbúar eyjarinnar eru ekki nema um 150 sálir eftir því sem ég best veit.

sjálfan mig skiptir þetta engu, fer ekki þarna út nema á margra ára fresti, en hvað t.d. með þann fjölda fólks sem á lögheimili á Akureyri (sama sveitarfélag) og á sumarhús í Hrísey? mér finnst þetta klaufalegt í meira lagi þótt ekki sé hægt að velta sér upp úr því sem neinu stórmáli.

8.1.07

sjaldséðir hvítir


heyrði á dögunum af Breta sem fannst stórmerkilegt að hitta Íslending eftir að hann áttaði sig á því að þjóðin telur aðeins 300.000 sálir. í sjálfu sér vel að verki verið að ramba á eintak úr svo fámennum hópi.
benti á að þegar stofn dýrategundar er kominn niður í 300 þúsund einstaklinga er hún skilgreind í útrýmingarhættu!

er þetta kannski eitthvað sem við ættum að nota í markaðssetningu á þjóðinni – að hún sé í útrýmingarhættu? jafnvel hægt að snapa fé úr erlendum sjóðum til verndar þessum stofni.

eina hættan er sú að alþjóðasamfélagið bregðist við eins og Ögmundur um daginn þegar hann var að velta því fyrir sér að viðskiptabankarnir færu úr landi: „Farið hefur fé betra“. rétt að taka fram að ég er ekki sammála téðum Ögmundi.

heimsendir



átti um helgina stutt spjall við tvítugan frænda minn og ræddum kaldastríðstímann. hann hafði semsé verið að þvælast í einhverjum íþróttatilgangi í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu þar sem áður var niðurgrafið sprengjuskýli eða kjarnorkubyrgi.

ég fór að lýsa fyrir honum ógninni af kjarnorkustríði sem fólk á mínum aldri ólst upp við. í raun stöðugur ótti við heimsenda einhvern daginn. í fréttum var látlaust hamrað á vígbúnaðarkapphlaupinu og því hversu mörg hundruð sinnum væri hægt að eyða öllu lífi á jörðinni, amk mannlífi. semsagt að alast upp í linnulausum ótta við gjöreyðingarstríð – ótta við að einhver ýtti á rauða hnappinn, jafnvel fyrir mistök eða á fylliríi.

það er talsverður kross að bera fyrir börn í mótun að búa við þetta og ánægjulegt að á þessu er ekki hamrað lengur. meira að segja svo langt síðan að tvítugir Íslendingar hafa ekki hugmynd um að þetta hafi verið svona. þau hafa gott af því að vita það.

vopnin eru að mestu leyti til ennþá en ógnin hefur yfirfærst á hryðjuverasamtök og full ástæða til. og í gær voru sagðar af því fréttir að Ísraelar væru að undirbúa kjarnorkuárás á Íran. nota bene til þess að stöðva kjarorkuáætlun Írana... er nokkur þverstæða þarna á ferðinni?

hins vegar er það svo, eins og Ólífur Ragnar benti á í áramótaávarpinu, að mesta ógnin er af völdum gróðurhúsaáhrifanna. fer ekki út í það að sinni.

3.1.07

í fréttum er þetta helst

var að lesa mbl.is rétt í þessu og þar er vitnað í Jón Geir Pétursson, skógfræðing hjá Skógræktarfélagi Íslands.

fréttin fjallar um að barrtré dragi stórlega úr svifryki – hreinlega síi það úr loftinu og mælt með stóraukinni ræktun barrtrjáa meðfram umferðaræðum. vitnað til erlendra rannsókna.

enda nýtt hitamál í fjölmiðlum hér á ferð sem ég spái að verði gleymt um næstu helgi.

jamm. tré eru ekki bara falleg, þau eru góð.

og gleðilega rest

jams. komið 007 og mikið fjandi var gaman að sprengja það gamla í loft upp.
fyrir mér hófst síðasta ár þann 17. júní og var því í styttra lagi en þeim mun þéttara og ánægjulegra.

pennalatur upp á síðkastið eins og sést. hef legið, eins og Íslendingar flestir vona ég, í glórulausu nautnalífi. það er satt að segja enginn helgiblær yfir mínu jólahaldi – bara neysla og letilíf – hversdagslífið lagt til hliðar smá tíma. svona eins og vetrarfrí á Kanaríeyjum, bara styttra flug.

síðustu vikuna hef ég svo einangrað mig að mestu frá umheiminum og búið á eyðieyju heima í Spítalavegi. sem fylltist reyndar af fólki um áramótin – en eyðieyja samt. ekki fylgst með neinu, síst af öllu fréttum. sá skaupið samt (og þótti gott).

en nú er mál að opna augun, reyra saman fleka og sigla til mannheima. vinnan komin á fullan snúning og í mörg horn að líta ef mínar áætlanir um búferlaflutninga eftir nokkrar vikur eiga að standast. og fullt af veislum, partíum og þorrablótum framundan!

en hvað um það: GLEÐILEGT ÁR og takk fyrir samfylgdina á þessu bloggkríli það sem af er.