8.1.07

heimsendir



átti um helgina stutt spjall við tvítugan frænda minn og ræddum kaldastríðstímann. hann hafði semsé verið að þvælast í einhverjum íþróttatilgangi í kjallara lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu þar sem áður var niðurgrafið sprengjuskýli eða kjarnorkubyrgi.

ég fór að lýsa fyrir honum ógninni af kjarnorkustríði sem fólk á mínum aldri ólst upp við. í raun stöðugur ótti við heimsenda einhvern daginn. í fréttum var látlaust hamrað á vígbúnaðarkapphlaupinu og því hversu mörg hundruð sinnum væri hægt að eyða öllu lífi á jörðinni, amk mannlífi. semsagt að alast upp í linnulausum ótta við gjöreyðingarstríð – ótta við að einhver ýtti á rauða hnappinn, jafnvel fyrir mistök eða á fylliríi.

það er talsverður kross að bera fyrir börn í mótun að búa við þetta og ánægjulegt að á þessu er ekki hamrað lengur. meira að segja svo langt síðan að tvítugir Íslendingar hafa ekki hugmynd um að þetta hafi verið svona. þau hafa gott af því að vita það.

vopnin eru að mestu leyti til ennþá en ógnin hefur yfirfærst á hryðjuverasamtök og full ástæða til. og í gær voru sagðar af því fréttir að Ísraelar væru að undirbúa kjarnorkuárás á Íran. nota bene til þess að stöðva kjarorkuáætlun Írana... er nokkur þverstæða þarna á ferðinni?

hins vegar er það svo, eins og Ólífur Ragnar benti á í áramótaávarpinu, að mesta ógnin er af völdum gróðurhúsaáhrifanna. fer ekki út í það að sinni.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home