20.12.06

vika max

síðustu vikur, eins og reyndar flestar vikur, hafa verið merktar ákveðnum málefnum í umfjöllun fjölmiðla og þjóðfélagsumræðu.
og hvert málefni endist sjaldnast nema vikuna, þá víkur það fyrir nýju stórmáli sem fjölmiðlar slá upp og allt sem á undan er gengið er gleymt og grafið og vekur ekki nokkrum kjafti áhuga.

við höfum t.d. fengið mikla umfjöllun undanfarið um banaslys í umferðinni. í tenslum við þá umræðu var fjallað um samgöngumál á landinu. hvort tveggja afar mikilvæg mál en síðustu daga hefur ekki heyrst orð af þeim vettvangi.

við höfum fengið mikla umræðu um innflutt vinnuafl á Íslandi – allt mjög yfirborðskennt sem ég hef séð af því og raddirnar þagnaðar. annað mikilvægt stórmál „afgreitt“ á viku.

nenna fréttahaukarnir ekki að kafa neitt í málin og fylgja þeim eftir? eða er þeim kannski bannað að gera það?

hvert málefnið rekur annað en engu eru gerð markviss skil í fjölmiðlum. og nú er það spurningin hvort þjóðargarmurinn hefur ekki þol til að meðtaka gagnrýna umræðu sem fylgt er eftir, eða hvort fjölmiðlar hafi ekki áhuga á öðru en slá upp nýjum og nýjum fréttum, helst safaríkum. og með nýju máli er það næsta á undan fallið í gleymsku.

samanber nýjasta málið sem er á allra vörum og í öllum fjölmiðlum, Byrgið og allt það fargan. er ekki ennþá viss hvaða skoðun ég hef (eða mun hafa) á frumkvæði þeirra Sigmundar Ernis í því máli en spái því að áður en vikan verður liðin heyrist hvergi orð um það mál. líka þótt ekki væru að detta á jól.

og hvar í fjandanum er umfjöllun og úttekt fjölmiðla á þjóðlendumálinu? ha...

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Umhugsunarverð pæling og sannarlega tímabær. Að mínu viti ekki síst í ljósi þess hversu miklu hlutverki fjölmiðlamenn vilja halda fram að fjölmiðlar gegni í samfélaginu. Ég reyndar efast alltaf sífellt meir um það hlutverk og sakna þess mjög að það komi ekki oftar upp á yfirborðið.
Ég er á þeirri skoðun að fjölmiðlar á Íslandi allavega séu sérlega sjálfumglaðir og þar af leiðandi illa til þess fallnir að gegna neinu hlutverki sem skiptir máli. Gæti haldið um það heilu ræðurnar en þetta er kannski ekki nákvæmlega rétti vettvangurinn! Besta nýlega dæmið er uppsögn Sigurjóns M. Egilssonar ritstjóra Blaðsins. Guð minn góður hugsaði ég bara. Ef konur á Íslandi fengju einhvern tíma sömu umfjöllun og áhuga fjölmiðla eins og þessi eina uppsögn þessa ritstjóra þá væri nú skemmtilegra að lifa. Gæti nefnt fleiri dæmi um áhuga karl- fjölmiðlamanna á sjálfum sér og nefni hér bara nöfnin - Robert Marshall, Árni Snævarr... man ekki fleiri í augnablikinu en ég veit þau eru fleiri. Hef oft hugsað að ég hefði áhuga - og kannski bara best að nota tækifærið hér - á að skora á háskólanemendur þessa lands að gera nú rannsókn á því hvernig blaðamenn stjórna áherslum fjölmiðlanna en SPEGLA ÞAU EKKI eins og þeir vilja alltaf halda fram. Háskólanemendur í dag! Skora hér með á ykkur - leitið til mín eftir hugmyndum að verkefnum á sviði fjölmiðla - þó eru ótalmörg - og ég lofa - raunsæ og áhugaverð fyrir allan almenning í landinu og því góð fyrir ykkur líka!
Læt þetta duga að sinni!

00:28  

Skrifa ummæli

<< Home