30.8.06

berjaspretta sögð mikil...

Sigurður Ormur – fyrir og eftir

svartagallsraus

hef lengi haldið því fram að mörk hins byggilega heims séu dregin um Glerá. í dag er ástandið þannig að mér finnst einsýnt að færa verði þessi mörk verulega mikið sunnar. nú, eða að fara að leita að skíðaáburðinum.

það er nú einu sinni þannig að mannskepnan, eins og annað sem lífsanda dregur, er ekki mikið flóknari búnaður en sólarrafhlaða.

29.8.06

hagyrðingakvöld

þetta kvæðahjal rifjaði upp bréfaskipti mín við Guðmund Halldórsson skordýrafræðing fyrir nokkrum vikum. vorum að ræða væntanlegan fund en GH sá öll tormerki á fundi þessum þar sem Menningarnótt var um svipað leyti og hann yrði óvinnufær minnst viku á eftir. hann fékk þá þessa limru:

Óvíst um þrek bæði og þrótt
því þrælslega er að honum sótt,
en skyldur skal rækja
og skemmtanir sækja,
­ skunda á Menningarnótt.

og limrunni fylgdi að ég væri á leið suður og ætlaði að vera viðstaddur Gay Pride gönguna. fékk þessa strax til baka:

Nú lyftir Svanur lend og hupp,
nú líst mér vel á gripinn.
Brettir báðar ermar upp
– orðinn hýr á svipinn.

kveðskapur þarf ekki endilega að vera fokdýr til að létta manni lund augnablik...

flug

ályktanir vegna síðustu færslu minntu mig á enn eitt kvæðið:

KOMA

Fylgist með vélunum koma inn
til lendingar í lygnu rökkri.

Nú væri gott að koma heim
hafa farið.

...svo flugnámið er sennilega næst á dagskrá, þótt ég sé viss um að það sé hundauðvelt að fljúga og nám því varla merkilegt. er þetta ekki svona bílpróf fyrir himininn þar sem vegurinn er rosalega breiður? manni dugðu nú þrír ökutímar hérna í den.

og ekki hefur vafist fyrir Frökkum að fljúga á Peugeot 406 í Taxi-myndunum – því skyldi ég ekki gera það líka fyrst ég er á annað borð með tækið í höndunum?

28.8.06

haustkvæði

haustið knúði dyra hér nyrðra um helgina og voru hroðaleg umskipti frá blíðu vikunnar á undan. og á svona dimmum síðsumars- eða haustkvöldum, þegar þokan nær niður undir flæðarmál og aldan á Pollinum brotnar í norðangarra, skríður maður undir teppi, kveikir á kertum og leggst í þunglyndi.

pabbi sálugi orti á sínum tíma fínt haustkvæði sem endar á þessu erindi:

Nú sumarið sefur rótt
á svæfli sem haustið gaf.
Við skulum hafa hljótt
svo við höfum veturinn af.

sjálfur setti ég saman söngtexta í svipuðum anda fyrir nokkrum árum sem byrjar svona:

Litur á túnum er tekinn að gulna
því tíminn hann snýst eins og jörðin.
Það er liðið á sumar og ljós í glugga
berst langt út á fjörðinn.

Og reynirinn ummyndar öll sín blóm
í eldrauð ber.
Berin þau næra beyg fyrir vetri
í brjósti mér.

Það haustar og rökkrinu rignir niður
– rennblaut nóttin hún vakir.
Fortíðin guðar á gluggann og biður
að gefnar verði upp sakir.

en nú er það svo að hjá mér er hvorki raunverulegur tregi eða harmur tiltækur og meira gaman að vera til en verið hefur mjög lengi. en ef ég legðist í að grufla upp orsakir fyrir drunganum gæti ég reyndar komið upp með 388 ástæður: það eru kílómetrarnir milli Akureyrar og Reykjavíkur.

24.8.06

skogræktarbransinn

er að leggja af stað suður yfir heiðar enn einn ganginn og núna er það fóðrað með því að mæta á skógræktarþing í Hafnarfirði á laugardag og sunnudag. stefni að því að njóta lífsins í Borgarfirði þangað til.

er mæti á aðalfund Skógræktarfélags Íslands í skrilljónasta sinn sem einn af fulltrúum Eyfirðinga. að þessu sinni ætlum við að vera áberandi og bera höfuðið hátt. nýbúin að lýsa gróðrarstöð félagsins gjalþrota og í stað þess að mæta eins og hnípin þjóð í vanda ætlum við að berjast fyrir manni í stjórn og leggjum fram tvær fínar tillögur sem ég á frekar von á að verði vel tekið. samdi reyndar báðar sjálfur... heheh

þessir fundir, eða þing, eru fyndnar samkomur. leiðinleg fundahöld en skemmtilegar skoðunarferðir með miklu magni af Brennivíni, sem er drykkur skógarmanna eftir að Hvannarótin leið undir lok. mætti á mitt fyrsta skógræktarþing 1990, þá þrítugur og var barnið í hópnum. núna, þessum 16 árum síðar, er ég ennþá í unglingahópnum. það er ansi gaman. hef lítið skipt mér af þingstörfum gegnum árin nema oft verið með leiðindi í nefndum sem afgreiða tillögur... það er líka gaman! en að þessu sinni verður það lobbíisminn út í eitt.

verður ágætur bíltúr því ég þarf ekki að keyra sjálfur og stekk af lestinni í Borgarfirði. hlakka til.

23.8.06

viðskiptahugmynd

kem hér með á framfæri viðskiptahugmynd til að slá á offituvandann:

málið er að gefa út, kynna og selja matreiðslubók.
það er lykilatriði að fá fitukeppina til að kaupa bókina og nota hana, helst í hvert mál.

í bókinni yrðu einungis uppskriftir að mat sem er hroðalega vondur á bragðið og ólystugur (t.d. hálfkaldar sviðalappir).

og sjá: spik mun renna!

nú er bara að sjá hver grípur boltann á lofti og fræmkvæmir þetta snilldarplan!

21.8.06

populus tremula fer i gang

nú líður að því að menningarsmiðjan Populus tremula hefji vetrarstarfið; byrjum eftir hlé á Akureyrarvöku um næstu helgi.

störtum að sjálfsögðu með glæsibrag: myndlistarsýning Kristjáns Steingríms Jónssonar, tónleikar með Dean Ferrell kontrabassaleikara og stórsnillingi og tónleikar með BELA - Baldvin Ringsted sem er fyrrverandi Populusfélagi og hefur virkilega verið að slá í gegn á síðustu vikum.
ætla reyndar sjálfur að vera fjarri góðu glensi og sitja skógræktarþing í Hafnarfirði á meðan.

framundan í haust og vetur eru svo viðburðir óðum að tínast inn:
myndlistarmennirnir Hlynur Helgason, Gústav Geir Bollason, Helgi Þorgils Friðjónsson, Áslaug Thorlacius og Bryndís Kondrup eru komnir á blað og fleiri í farvatninu auk Kristjáns Steingríms sem áður er nefndur.
leiksýning í lok september, frumsamið verk Rögnu Gestsdóttur og Kötlu minnar Aðalsteinsdóttur.
bókmenntadagskráin er lítt mótuð ennþá en m.a. áform um útrás á þeim vettvangi og hugsanlega bókmenntakvöld tileinkað kvæðum Aðalsteins Svans.
hljómsveit hússins hefur legið í dvala í sumar en fer að móta sínar hugmyndir á næstu vikum og hefja æfingar. ekkert gefið upp að sinni hvert verkefnið verður.

í fyrravetur stóðum við fyrir á fjórða tug viðburða í Populus en áformum að draga frekar úr þetta árið; auka frekar listrænan metnað þótt allt sem við gerum sé á „underground level“ og munum halda því þannig.

20.8.06

hnattræn spikvæðing

í vikunni mátti rekast á fréttir þess efnis að nú væri svo komið að í heiminum glímdu fleiri manneskjur við offitu en við næringarskort. þetta er athyglisvert og spurning hvort þetta séu slæmar fréttir eða góðar?

það mun vera svo að spikvæðingin sé sem óðast að dreifast um fátækari deildir heimsins, svokölluð „þróunarlönd“.

heyrði því líka haldið fram á ráðstefnu í vor að sú kynslóð sem nú er að vaxa upp á vesturlöndum sé sú fyrsta síðan sögur hófust sem á sér skemmri lífslíkur en kynslóðin á undan. ástæðan: hreyfingarleysi og ofát.

pabbahelgin

einhver besti dagur ársins á Norðurlandi í dag, svona miði maður við veður.

fórum tiltölulega snemma á fætur feðgar og eftir stuttar samningaviðræður lét ég eftir óskum Sigurðar Orms um að fara í Jarðböðin við Mývatn. vorum komnir þangað um hádegi eftir nokkur stopp á leiðinni.

renndum austur yfir Námaskarð eftir baðið og röltum um hverasvæðið. alltaf fallega viðbjóðslegt.

hverabrauð með reyktum Mývatnssilungi og heitt súkkulaði í Gamla bænum við Hótel Reynihlíð, í annað skipti hjá okkur í sumar. nautnalífið hélt semsagt áfram í dag og argaþras hversdagsins víðs fjarri.

reyndar er það svo að svona eiga ekki allar pabbahelgar að vera; tóm skemmtilegheit og fjör. þarf líka að vera raunhæfur skammtur af kröfum og leiðindum, raunverulegt heimilislíf semsagt. en núna var öllu slíku sleppt, enda miklu meira gaman...

nokkrar myndir komnar á vefinn á slóðinni: http://www.simnet.is/adalsteinn.svanur/pages/myvatn06.html

19.8.06

Niðurlot ...eða ekki

við feðgar urðum að yfirgefa Niðurlot eftir skamma dvöl í dag. höfðum ætlað að halda menningarnótt við varðeldinn.

Sigurður Ormur glímir nú við svo svæsna fóbíu gagnvart kóngulóm að ekki var annað hægt en virða það og flýja af vettvangi. hins vegar var gaman að koma inneftir því gróður hefur dafnað vel í sumar. tók mynd á „tímavélina“ og bætti inn á vefinn minn þar sem Hálsi eru gerð skil í nokkrum myndum. mögnuð þróun og réttur áratugur síðan fyrstu smáplönturnar voru settar í jörð. hef nánast ekkert verið þarna í sumar og ekki sett niður eina einustu plöntu.

síðustu ár höfum við Sigurður Ormur átt þarna okkar bestu stundir. í hvers konar brasi við plöntur, vatnsveitu, smíðar og þó einkum við varðeldinn góða með gítar að vopni. vona svo sannarlega að hann sigrist á þessari fælni áður en langt um líður.

spildan (2 ha eða 20.000 fm) er nú orðin að þvílíkum dýrðarreit, griðastað sem ég hef ásamt krökkunum búið til úr engu öðru en ofbeittum móum og alls konar drasli. hef í mörg ár haldið því fram að þetta sé það gáfulegasta sem ég hef gert um dagana; að taka þessa spildu á leigu á sínum tíma og hefja eigin skógrækt. næst á eftir börnunum manns er ekkert sem verðlaunar meira en gróskumikill ungskógur.

slóðin á myndasíðuna frá Hálsi er: http://www.simnet.is/adalsteinn.svanur/pages/hals.html

18.8.06

¡gracias amigos!

þakka góðar móttökur á þessum vettvangi, gaman að sjá ykkur líta við. og hér er tilvitnun í Draumalandið, birt algjörlega án leyfis:

„Það eru til milljón manna krummaskuð úti um allan heim og 1000 manna heimsborgir. Detroit er krummaskuð. Seyðisfjörður er heimsborg.“

fjöll og fyrningar

skoðanaleysi tekur enda

í sumar hef ég ákveðið að tímabil skoðanaleysis væri orðið nægilega langt hjá mér. tók meðvitaða ákvörðun fyrir 4 árum eða svo að mynda mér ekki skoðun á neinu sem ekki snerti mig eða mitt fólk með beinum hætti. hef staðið við það.

gerði þetta til að auðvelda mér lífið. hætti um svipað leyti að fylgjast með fréttum og skilgreindi mig sem anarkista. hef hunsað lýðræðið síðan og ekki notað atkvæðisrétt í kosningum. og ekki tekið afstöðu til nokkurra hluta, hér heima eða erlendis.

og vissulega hefur þetta gert hversdagslífið auðveldara. laus við hvers konar áhyggjur af „ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs“ eða hvort hálendi Íslands er eða fer, eins og Gestur vinur minn orðar það.

hef umgengist mikið af góðu fólki undanfarin misseri og mikið spjallað. og smám saman hefur runnið upp fyrir mér ljós: þetta skoðanaleysi er flótti frá lífinu, gangslaus skel til að brynja sig óþægindum. er að hætta þessu rugli.

ekki svo að skilja að ég sé á leið í pólitíska umræðu, fjarri því. skilgreini mig hins vegar aftur sem félagshyggjukrata einhvers konar, kýs kannski í vor... tilvistarkreppunni sem fylgdi hruni kommúnismans á sínum tíma er að ljúka.

fæ dygga aðstoð þessa dagana því mér var fært Draumalandið að gjöf með skipun um að lesa ritið. bókin auðveldar manni vissulega að mynda sér skoðun á ýmsum þáttum íslensks veruleika. finnst þetta stórmerkileg bók og hefur áhrif á skoðanir mínar.

ef þið eruð ekki búin að því: LESIÐ ÞESSA BÓK!

Goðafoss

Botnstjörn i Asbyrgi

17.8.06

um blogg og bloggara

Þættinum hefur borist bréf; Kristján Kristjánsson skrifar (birt með treglega veittu leyfi höfundar!):

„Að mínu viti er álíka gáfulegt að hætta sér úti í bloggið eins og að kaupa sér mjólkurkvóta á lánum og byrja beljubúskap - eða að gefa út frídagblað í veldi Dana - tóm kvöð og pína þar sem helst er verið að tutla einhverja júgurbólguspena. ÖLL vinna er klárlega refsing eins og góðir kaþólikkar vita - . . . en inngróið samviskubit áhangenda Lúters hefur þó stundum leitt til margs konar sjálfspíninga - jafnvel bókaskrifa. Bloggið er reyndar soldið sérstök sjálfspyntingaraðferð - en klárlega í anda þeirra syndasela sem vilja AGA sig til ákveðinna verka sem þeir alla jafna myndu aldrei láta sér detta í hug að nenna að inna af hendi - eins og að halda sálardýpkandi dagbók eða setja saman skárri texta en kjaftæði um daginn og veginn.

Vildi bara svona minna þig á að þú skuldar mér ljóðabókarhandrit – sem ég vonast enn til að geta gefið út með umtalsverðu tapi!

kv.
KK“

samgöngur

áðan var ég búinn að semja langan og einstaklega hnitmiðaðan og greindarlegan texta um samgöngumál á Íslandi. tókst að týna honum fyrir einhvern asnaskap...

hef í sumar keyrt þjóðvegi landsins sem svarar fimm ferðum um hringveginn að mér telst til (rúmir 7000 km síðan í lok maí) og niðurstaðan er þessi: þjóðvegakerfið er ónýtt. nema auðvitað þar sem lagðir hafa verið flottir vegir á síðustu misserum þar sem umferð er lítil. Tjörnesið og Kelduhverfið er fín hraðbraut, Ísafjarðardjúp er að verða það líka. en meginæðarnar eru hroðalegar; seinfarnar dauðagildrur. þökk sé þungaflutningum á landi og umferðarþunga sem er langt umfram það sem vegakerfið ber.

líka farið Kjalveg og stytt mér leið sem nemur 153 km milli staða. mátti teljast góður að komast þokkalega heill frá því ævintýri með ungana í bílnum.

eins gott maður er í kontakt við verðandi samgönguráðherra landsins!

...svona til að drepa timann

sælinú.

fyrir ykkur sem kannist við mig ætti ekki að koma á óvart að ég komi mér upp bloggi. er náttúrulega vegna þess að ég hef svo fáu öðru að sinna að ég verð að drepa tímann einhvern veginn – eða þannig.

langar til að prófa þetta og nú reynir á hvort kallinn hefur eitthvert úthald í að sinna þessu. er skemmtilegur miðill og hefur alltaf hentað mér betur að koma hlutum frá mér í rituðu máli en töluðu eins og þið vitið. nota tölvupóstinn frekar en símann sumsé.

sendi þannig póst um tilurð þessa miðils á lítinn hóp nánustu vina til að sjá hvort þetta virkar og hvort einhver nennir að lesa eða álykta á færslur. næstu daga ætla ég að reyna að koma með nokkrar færslur og kanna viðbrögðin. verði þau lítil verður eðlilega lítið úr þessu... og ekki mikið í húfi.

en væri gaman að heyra frá ykkur af og til.