19.8.06

Niðurlot ...eða ekki

við feðgar urðum að yfirgefa Niðurlot eftir skamma dvöl í dag. höfðum ætlað að halda menningarnótt við varðeldinn.

Sigurður Ormur glímir nú við svo svæsna fóbíu gagnvart kóngulóm að ekki var annað hægt en virða það og flýja af vettvangi. hins vegar var gaman að koma inneftir því gróður hefur dafnað vel í sumar. tók mynd á „tímavélina“ og bætti inn á vefinn minn þar sem Hálsi eru gerð skil í nokkrum myndum. mögnuð þróun og réttur áratugur síðan fyrstu smáplönturnar voru settar í jörð. hef nánast ekkert verið þarna í sumar og ekki sett niður eina einustu plöntu.

síðustu ár höfum við Sigurður Ormur átt þarna okkar bestu stundir. í hvers konar brasi við plöntur, vatnsveitu, smíðar og þó einkum við varðeldinn góða með gítar að vopni. vona svo sannarlega að hann sigrist á þessari fælni áður en langt um líður.

spildan (2 ha eða 20.000 fm) er nú orðin að þvílíkum dýrðarreit, griðastað sem ég hef ásamt krökkunum búið til úr engu öðru en ofbeittum móum og alls konar drasli. hef í mörg ár haldið því fram að þetta sé það gáfulegasta sem ég hef gert um dagana; að taka þessa spildu á leigu á sínum tíma og hefja eigin skógrækt. næst á eftir börnunum manns er ekkert sem verðlaunar meira en gróskumikill ungskógur.

slóðin á myndasíðuna frá Hálsi er: http://www.simnet.is/adalsteinn.svanur/pages/hals.html

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home