28.8.06

haustkvæði

haustið knúði dyra hér nyrðra um helgina og voru hroðaleg umskipti frá blíðu vikunnar á undan. og á svona dimmum síðsumars- eða haustkvöldum, þegar þokan nær niður undir flæðarmál og aldan á Pollinum brotnar í norðangarra, skríður maður undir teppi, kveikir á kertum og leggst í þunglyndi.

pabbi sálugi orti á sínum tíma fínt haustkvæði sem endar á þessu erindi:

Nú sumarið sefur rótt
á svæfli sem haustið gaf.
Við skulum hafa hljótt
svo við höfum veturinn af.

sjálfur setti ég saman söngtexta í svipuðum anda fyrir nokkrum árum sem byrjar svona:

Litur á túnum er tekinn að gulna
því tíminn hann snýst eins og jörðin.
Það er liðið á sumar og ljós í glugga
berst langt út á fjörðinn.

Og reynirinn ummyndar öll sín blóm
í eldrauð ber.
Berin þau næra beyg fyrir vetri
í brjósti mér.

Það haustar og rökkrinu rignir niður
– rennblaut nóttin hún vakir.
Fortíðin guðar á gluggann og biður
að gefnar verði upp sakir.

en nú er það svo að hjá mér er hvorki raunverulegur tregi eða harmur tiltækur og meira gaman að vera til en verið hefur mjög lengi. en ef ég legðist í að grufla upp orsakir fyrir drunganum gæti ég reyndar komið upp með 388 ástæður: það eru kílómetrarnir milli Akureyrar og Reykjavíkur.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Breyttu treganum í söngva vinur kær, þú þarft að koma þér upp dagskrá að flytja underground - þú ert búinn að sanna að það er þér vel fært. Ég held að það mundi hressa þig, rétt eins og aðra.

22:19  
Anonymous Nafnlaus said...

Bílisminn er kominn
á sálina
á sumum

- kauptu flugvél!

22:44  
Blogger POPULUS TREMULA said...

heheheh – man ekki betur en við höfum rætt það Kristján að fyrirtæki sem heitir Uppheimar VERÐI að eiga flugvél – annað er bara asnalegt! hvað kostar annars eitt ítem flugvél?

annars er þetta þunglyndi ekki að rista djúpt – eða eins og segir einvers staðar í Kveikisteinum:

„... hvorki söknuður né harmur tiltækur.
Aðeins þessi drungi sem fylgir því að fara á fætur í myrkri.“

23:21  
Anonymous Nafnlaus said...

Flugvél??? Jaaaaá. En maður flýgur hærra á vængjum söngsins.
Áðan fór ég útá svalir og heyrði í náttmyrkrinu svo þéttan gæsaklið að hundruð hljóta þar að hafa verið á ferð. Þær grípa gæsina meðan hún gefst og fá nú meðbyr suður í nokkra daga.
Syngdu vinur, syngdu!

01:33  
Anonymous Nafnlaus said...

Já það er gaman að vera til og hver árstíð hefur sinn sjarma. Það er kannski best fyrir þig Eðalsteinn að læra flug og kaupa þér rellu, margt vitlausara hægt að gera. En ef þessar 388 ástæður eru til þess að hleypa skáldagyðjunni á flug þá er það ekki svo slæmt hmm.

17:55  
Anonymous Nafnlaus said...

má maður nokkuð fljúga fullur eða skelþunnur?

mér líst ekkert á þessar flugpælingar... frekar skal ég yrkja – sem er svosem ekki að gerast heldur!

19:29  

Skrifa ummæli

<< Home