25.5.07

til hamingju Ísland


hafði ætlað mér að þegja þunnu hljóði um pólitík og stjórnarmyndun en stenst ekki mátið.

var nefnilega að átta mig á því í morgun að í fyrsta sinn erum við með ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem er samkynhneigður og ekkert að leyna því. þótt hún svosem flaggi því ekkert sérstaklega enda alger óþarfi. ráðherra félagsmála, Jóhanna Sigurðardóttir.

þetta finnst mér flott og ánægjulegt. hefðu verið stórtíðindi fyrir ekki svo löngu síðan en er ekki einu sinni til umræðu núna. sem er líka mjög ánægjulegt. mátti samt til að nefna þetta.

23.5.07

ekkert er fegurra . . .

. . . en vorkvöld í Reykjavík. svo mælti Tómas allavega og í gærkvöld var nokkuð til í þessu hjá kallinum.

örstuttur göngutúr að heiman og út á Granda þar sem þessi mynd var tekin á ellefta tímanum í gærkvöld. voða sætt en skítkalt reyndar.



er hættur við fyrirhugaða norðurferð um hvítasunnu, ekki síst vegna veðurs. Sigurður Ormur kemur fljúgandi til mín í staðinn og við ætlum að mála bæinn rauðan – og nærsveitir er allt fer að óskum.

VIÐBÓT:
SHJ hefur bent mér á að það var alls ekki Tómas sem orti þetta heldur Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur. var svo handviss að mér datt ekki í hug að tékka á því. leiðréttist hér með.

22.5.07

The Painted Veil


sá aðra afbragðsgóða bíómynd í gærkvöldi. The Painted Veil í leikstjórn John Curran. byggir á sögu eftir W. Somerset Maugham og stjörnur myndarinnar eru Naomi Watts og Edward Norton. og Kína, Guangxihérað nánar til tekið.

gullfalleg mynd, flott saga um mannleg örlög og breyskleika að hætti Somersets Maugham og verulega vel gerð í alla staði. epískt drama eins og þau gerast hvað best og hreint augnakonfekt. mæli með henni.

Fyrirgefning syndanna


Það er gott þegar manni er fyrirgefið. Syndirnar eru margvíslegar og mismunandi og það er fyrirgefningin líka. Skemmtilegasta dæmi um fyrirgefningu er sala aflátsbréfa sem var stunduð bæði af kaþólskri kirkju og Snorra Ásmundssyni. Og er fínn bisniss. Samt hefur aflátssala alltaf þótt frekar ómerkileg viðskiptahugmynd og er ekki hátt skrifuð.

Þess vegna er skondið að fylgjast með auglýsingum bílainnflytjenda og fleiri fyrirtækja þessa dagana sem auglýsa grimmt sölu nýrra aflátsbréfa. Nú má kaupa sér hreina samvisku í umhverfismálum. Með því að kolefnisjafna bílinn.

Skógræktarmaðurinn í mér er alsæll með þetta, enda hafa skógarmenn talað fyrir þessu í hálfan annan áratug fyrir daufum eyrum. Sem svo fóru loks að heyra síðasta misserið og nú er þetta hin skemmtilegasta tískubylgja. Sem þýða mun aukna skógrækt og þar með bindingu kolefnis sem vinnur gegn gróðurhúsaáhrifum. Gott mál í rauninni en það sem er ergilegt við þetta er aflátssölufyrirkomulagið.

Þá á ég við að kaupa sig frá vandanum í stað þess að ráðast að rótum hans með því að draga úr útblæstri koltvísýrings.
Sjá: www.kolvidur.is

12.5.07

risessa á kjördag


búinn að kjósa – í Ráðhúsinu í Reykjavík að þessu sinni. orðin allnokkur ár síðan ég tók síðast þátt í þessum leik og virkjaði atkvæðið. hef meira verið í því að drulla yfir lýðræðið og halda mig fyrir utan þann pakka. en hef skipt um skoðun eins og fram hefur komið. nú verður beinlínis spennandi að fylgjast með fyrstu tölum í kvöld.

júróvisjón má frjósa úti mín vegna. framundan kvöldverður með góðum vinum og sjónvarpskvöld með öli og umræðum. hlakka til.

var að koma úr miðbæjartúr þar sem ég fylgdist með risessunni og þeim feðginum. frábær upplifun enda brúðan sú bara heillandi. tala nú ekki um græjuna sem hún hangir í og er notuð við stjórn brúðunnar. þetta er brilliant og allt sem því tengist. bílarnir víðs vegar um bæinn sem risinn hefur látið reiði sína bitna á eru hreint frábærir.
og í dag er ég viss um að mannfjöldinn í miðbænum skipti tugum þúsunda. var æðislegt fyrir utan helvítis veðrið sem klikkaði. norðan næðingur í staðinn fyrir logn – ský fyrir sólu og skítakuldi. en flottur performans og góður dagur.

11.5.07

Stóri bróðir besti

Líf annarra – bíómyndin góða sem ég sagði frá í síðustu færslu – hefur kveikt ýmsar pælingar og umræður.

Björn B. vill her og leyniþjónustu. Steingrímur J. vill netlöggu. Kolbrún Halldórs vill banna að auglýsa „óhollan“ mat. Maður fer ekki í flug með viskífleyg í pokanum lengur. Kanar taka fingraför af manni áður en þeir hleypa manni í heimsókn. Í vídeóleigunni og jafnvel í Bónus er maður í mynd allan tímann. Hasshundar taka tékk í framhaldsskólunum. Tóbak má ekki sjást í verslunum. Stórhert viðurlög við umferðarlagabrotum. Sífellt háværari raddir sem krefjast harðari refsinga við hvers konar brotum á reglum samfélagsins og síauknar kröfur um fleiri bönn. Refsingar eru töfraorðið – því harðari, því betra. Í þeirri kórvillu að hótanir um refsingar fækki „brotum“. Sem er alþekkt og þaulrannsakað um allan heim að er bull.

Allt er þetta samt vel meint í grunninn og rökin eru þau að verið sé að verja okkur hvert fyrir öðru og svo náttúrulega fyrir okkur sjálfum. Sem er í sjálfu sér gjörsamlega óþolandi og algerlega óþarft. Meðan önnur höndin fálmar eftir algeru frelsi og boðar lætur hin glamra í hlekkjum og handjárnum. Stasi.

og hástafirnir í þessari færslu eru þannig til komnir að textinn var sleginn inn í Word – Bill djöfull Gates og þeir Microsoftmógúlar eru líka í því að hafa vit fyrir okkur. sem er óþolandi.

9.5.07

líf annarra


var að koma úr bíó. í Háskólabíó er nú sýnd kvikmyndin Líf annarra, Das Leben der Anderen, eftir leikstjórann Florian Henckel von Donnersmarck.

það er skemmst frá því að segja að þessi kvikmynd er stórbrotið verk – bíómynd í hæsta gæðaflokki og hana eiga allir að sjá.
skilaboðin til þeirra sem kunna að lesa þetta eru einföld: farið og sjáið þessa mynd!
þetta er ekki ráðlegging eða góðfúsleg ábending; þetta er skipun!

Líf annarra gerist í Austur Berlín á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar og fjallar svona út á við um persónunjósnir Stasi – hinnar illræmdu leynilögreglu félaga Honeckers. saga og handrit er frábært og allir þættir kvikmyndagerðarinnar með afbrigðum vel af hendi leystir. lokaatriði myndarinnar er með þeim alflottustu.

efni þessarar kvikmyndir á svo grjóthart erindi við okkur núna að það er sláandi. ætla að fjalla meira um það áður en margir dagar líða. en skipunin verður ekki tekin aftur: SJÁIÐ ÞESSA KVIKMYND!

7.5.07

ellefu ára á morgun!


á morgun, þann áttunda maí, verður Sigurður Ormur ellefu ára.

Sigurður Ormur er magnaður strákur og afburðagóður félagi; skemmtilegur, klár og duglegur. hann er líka skemmtilega glúrinn ljósmyndari auk annarra hæfileika sem hann prýða.

það er eins og aðeins séu nokkrar vikur síðan hann kom heim af fæðingardeildinni hvítvoðungur, en samt er hann á góðri leið að komast á unglingsár.

við Reykjavíkurtjörn um daginn rifjaðist upp sagan af því þegar mamma hans fór með hann hálfs annars árs gamlan á Andapollinn á Akureyri og benti honum á að þarna kæmi brabra vagandi til þeirra. „Nei, þetta er stokkönd!“ gall í guttanum sem stóð ekki út úr hnefa.

Sigurði Ormi færi ég bestu hamingjuóskir og kveðjur með ósk um bjarta framtíð.

Reykjavík norður

jæja – kosningar framundan. bæði júróvissjón og Alþingi og verður mikið sjónvarpskvöld á laugardaginn kemur. örugglega rétti tíminn ef mann langar að prófa að fara yfir á rauðu á Miklubrautinni.



lét loksins verða af því í dag að kanna í hvaða kjördæmi ég ætti að kjósa ef sú yrði raunin að ég gerði það. og niðurstaðan varð sú að það er Reykjavík norður. kjörstaður í Ráðhúsinu góða hérna í þarnæsta húsi við mig. og ákvað í framhaldinu að kjósa. hef mikið verið að velta því fyrir mér að sleppa því eins og undanfarin fimm eða sex ár og átt í vandræðum með að ákveða mig. en semsagt: í dag er ég ákveðinn. og það verður Samfylkingin.



því svo mislagðar hendur sem fylkingunni eru og misgóð þingmannsefni fyrir minn smekk, þá er það eini flokkurinn sem ég get hugsað mér að greiða atkvæði. og þar hafið þið það.

6.5.07

það er komið vor . . .

í gær átti ég annað aldarfjórðungsafmæli. prívat og persónulega.
Sigtryggur og Pétur voru þátttakendur og völsuðu silfurbauga.

í nótt rifjaðist upp brot úr vorkvæði í þessa veru:

það er kominn maí – enn einu sinni
það er komið vor og sólin skín alla nóttina

austur í heiði eru fannir að hopa
lækirnir vaxa og lerkið grænkaði í dag

. . . og alveg burtséð frá kvæðum eru það magnaðir galdrar sem náttúran seiðir fram þessi dægur sem lerkið og aspirnar grænka. sem hún gerði um síðustu helgi og fyllti hjartað gleði og angan - enn einu sinni.

1.5.07

Fyrsti maí


Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins. 1889 hittust fulltrúar (annarra) alþjóðasamtaka kommúnista á ráðstefnu í París, í tilefni af því að hundrað ár væru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna. Þar var ákveðið að gera fyrsta maí að baráttudegi hreyfingarinnar. Þessi tiltekni dagur var valinn meðal annars til að minnast blóðbaðsins á Haymarket í Chicago í Bandaríkjunum þremur árum áður. Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á fyrsta maí gengin 1923.

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök!
Nú bárur frelsis brotna á ströndum
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burtu vér brjótum
Bræður! Fylkjum liði í dag!
Vér bárum fjötra, en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.


Þó að framtíð sé falin,
grípum geirinn i hönd!
Því Internationalinn
mun tengja strönd við strönd.