30.3.07

auglýsingar virka... ?

áfram með málefnið.

auglýsingar eru í eðli sínu einfalt fyrbæri. tilkynningar um hvaðeina sem menn vilja vekja athygli annarra á. hvort það er varningur eða þjónusta til sölu (sem er vissulega algengast), bjóða í afmælisveisluna sína eða listsýninguna, eða yfirleitt koma einhverju á framfæri. jafnvel skoðunum á hverju sem vera skal.

að kaupa birtingu á auglýsingu er eins og hver önnur neysla. þurfi maður eða vilji auglýsa kaupir maður birtingu á auglýsingu. velur þann miðil sem manni hentar, semur um það sem semja þarf um og auglýsir. þetta eru semsagt einföld og klár viðskipti sem þjóna hagsmunum beggja aðila eins og vera ber.

ítreka frá síðustu færslu að enn tala ég meðvitað einungis um birtingar auglýsinga.

hvað í helv. getur verið athugavert eða óeðlilegt að fyrirtæki eins og Alcan í Hafnarfirði eyði stórfé í auglýsingar þegar framtíðarhorfur verksmiðju þess eru í húfi og lagðar í hendur íbúa smáæjar? er það ljótt af yfirmönnum Alcan að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með hefðbundnum hætti? ítreka: hefðbundum hætti.
sorrí, en mér er gjörsamlega fyrirmunað að sjá hvaða vit er í því áliti.

með þessu er ég alls ekki að taka afstöðu í kosningunum í Firðinum á morgun. enda eru þær absúrd og áttu aldrei að verða. beinlínis asnalegar og ekkert í gangi annað en það að pólitískt kjörnir fulltrúar skorast undan því að taka ábyrgð og vísa henni til föðurhúsanna; til kjósendanna aftur. en það er allt annað mál og kemur innihaldi pistilsins ekkert við.

af nógu er að taka á þessum vettvangi. læt duga í dag en boða enn framhald.

og ef þið þurfið að auglýsa þá er ég í símaskránni.

29.3.07

að segja öllum frá

það er nokkuð ljóst af viðbrögðum að umfjöllun um innræti dýra höfðar lítt til lesenda – hvorugs þeirra. svo ég geri tilraun til að nálgast pólitísk málefni. samt út frá vinnutengdum sjónamiðum.

hvernig stendur semsagt á því að þegar fjallað er um kosningabaráttu – nánast hvaða kosningabaráttu sem er (á Íslandi, þekki ekki annað) – hafa fjölmiðlar ekki áhuga á neinu nema því hve miklu sé til kostað, sérstaklega í auglýsingar?

var rétt í þessu að horfa á frétt á RÚV um komandi kosningar í Hafnarfirði og viðtöl við formælendur andstæðra blokka snerust upp í umfjöllun um kostnað við birtingu auglýsinga. ég nota orðið birtingu meðvitað.

og nú hafa semsagt stjórnmálaflokkarnir haft með sér opinbert samráð um útgjöld í auglýsingar í fjölmiðlum á landsvísu í kosningabaráttunni fyrir komandi þingkosningar.

og nú spyr ég:
hvers vegna er akkúrat þessi þáttur svona áberandi og (að því er virðist) svo mikilvægur?
hvers vegna er það látið líta svo út að í pólitík og öðrum kosningamálum sé það beinlínis ljótt að auglýsa?
hvers vegna þarf að setja þak á útgjöld í auglýsingum?

hef fullan hug á að fjalla meira um þetta á næstunni.

27.3.07

Lohan er komin


hún er komin að kveða burt snjóinn. snjó hvað?

hef ekki opnað útvarp svo í dag að ekki sé verið að tala um fugla. fuglar eru merkilegir (samt kannski ekki eins merkilegir og englar sem HKL sagði í Guðsgjafarþulu að væru merkileg dýr) enda fastir gestir í fréttum eins og ég nefndi fyrir skemmstu.

á Borgarfirði eystri hafa menn heyrt og séð heilar tvær lóur í dag og í gær. lóan sem sást í dag er að sögn heimamanna ekki sú sama og sást í gær en þó lík henni.
ég hef líka upplifað þetta, að sjá tvær lóur sem voru sláandi líkar hvor annarri. datt bara ekki í hug að hafa samband við fréttastofuna út af því.

í morgunfréttunum var talsvert fjallað um óvininn sjálfan, sílamávinn.
borgaryfirvöld í Reykjavík ætla semsagt að gera tilraun með að drepa hann á mannúðlegri hátt en áður.
hingað til hefur sílamávurinn einfaldlega verið skotinn. nú verður tekin upp sú skemmtilega nýbreytni að sérsveit borgarinnar mun í vor ganga á varpstöðvar sílamávs og dreifa brauðmolum í hreiður. í brauðmolunum verður svefnlyf. síðan þegar bíbí fer að lulla eftir að hafa tekið lyfin sín fer sérsveitin annan stofugang og drepur fuglana meðan þeir sofa.

mannúðin sem í þessari aðgerð er fólgin er tvíþætt:
annars vegar særast engir fuglar og komast undan, þeir eru allir drepnir með skilvirkum hætti.
hins vegar, og í því liggur snilldin, er engin hætta á að saklausir fuglar verði fórnarlömb í þessari helför. vegna þess að þeir eru bara svæfðir. éti góðu fuglarnir svefnlyfin eru þeir einfaldlega vaktir af svefninum.

það getur vel verið að sílamávur sé í eðli sínu vondur fugl, hef ekkert kynnt mér það. fréttamenn hafa samt ekki bent mér á aðrar sakir sem á hann eru bornar en þær að honum finnist fátt skemmtilegra en að borða andarunga. andarungar eru jú sætir og góðir og þess vegna er þetta athæfi mávsins ólýsanlega ljótt. og það sem böggar borgaryfirvöld mest er að kvikindin éta andanungana á Tjörninni. því er spurning, af því að ráðhúsið stendur nú beinlínis í þessari sömu tjörn, hvort borgarstjórn ætti ekki hreinlega að koma því inn í lögreglusamþykkt borgarinnar að ekkert dýr megi borða annað dýr?

annars virkar þetta svosem ágætlega, að drepa bara vondu dýrin.

svo skal ég hætta í bili að tjá mig um góða og vonda fugla og önnur dýr.

23.3.07

samráð

stjórnmálaflokkarnir eru að rotta sig saman um að sammælast um hámarkseyðslu í auuglýsingar fyrir kosningarnar í vor.

þetta heitir samráð. en er það löglegt?

22.3.07

bíbí og brabra


alltaf af og til spretta upp heitar umræður um fugla. einhverra hluta vegna.

á miðju síðasta sumri varð mikil umfjöllun um mávagerið í miðborg Reykjavíkur. þeir átu brauðskorpurnar frá öndunum og gengu jafnvel svo langt að skíta á Austurvöll. Gíslimarteinn var óður af bræði og talaði um plágu og varg.

svo núna um daginn í kjölfar strands Wilson Muuga á Reykjanesi varð slíkt umhverfis- og olíuslys að hvorki meira né minna en tvær æðarkollur fyndust olíublautar í fjörunni. myndir af þessum tveimur kollum birtust í sjónvarpsfréttum á besta tíma og örlög þeirra rakin ítarlega. svo grimm voru þau örlög að 50% þessara fugla drapst. ergo: dauði einnar æðarkollu var umtalsverð frétt á landsvísu. blessuð sé minning hennar.

var við Tjörnina á dögunum að henda brauðmolum í hausinn á öndum (sem hjálmlausum féll það þungt) og ekki eitt mávskvikindi var á flugi eða vappi. það er nefnilega búið að skjóta þá alla. á vegum hins opinbera eru drepin hundruð eða líklega frekar þúsundir fugla. og reyndar hvers konar annarra dýra. það eru vondu dýrin. farist eitt gott dýr af slysförum fáum við andlátsfregnina í sjónvarpsfréttum.

góðu dýrin og vondu dýrin – alltaf jafn skemmtilegt að velta því fyrirbæri fyrir sér.

21.3.07

um konur

á forsíðu Blaðsins í gær var tilkynnt að með blaðinu fylgdi átta síðna sérblað um konur. þetta er orðrétt svona, UM KONUR.

ok, gott mál. og átta síðna kálfur svosem engin ofrausn ef fjalla á um hálft mannkynið. er ekkert að gefa í skyn að þessu hafi fylgt sérstakar væntingar en þegar kom að sérblaðinu þótti mér umfjöllunin um fyribærið konur dulítið klén. fyrir þá sem ekki flettu þessu sérblaði ætla ég að tiltaka hér allar fyrirsagnir þessu riti. þær eru svona:

Góðar vörur og mikið úrval. Fallegar snyrtivörur frá Rifka
Sjálfstyrking eftir skilnaðinn
Fallegir fætur án fyrirhafnar
Hugaðu að húðinni
Rósir og rómantík
Ertu tískufrík?
Aukið heilbrigði hársins
Snyrtivörur fyrir allar konur
Baugar á bak og burt
Rauðar og kyssilegar varir
Mesta áherslan á augun
Bleikt og stelpulegt með Barbie
Nærandi fótakrem

skal viðurkenna að ég las ekki staf í þessu riti. en skil betur af hverju femínistar eru svona fúlir yfir staðalímyndum.

19.3.07

aldarfjórðungur


er þessa dagana af og til að leggja drög að myndlistarsýningu um páskana. í Deiglunni á Akureyri og haldin að frumkvæði Gilfélagsins. þetta er afmælissýning. það var nefnilega um páskana 1982 sem ég hélt mína fyrst myndlistarsýningu í Árskógi og eftir það varð ekki aftur snúið. það er svo fjandi gaman að halda sýningu, sérstaklega að opna hana. vera gestgjafi um stund og miðpunktur athyglinnar. hef alltaf notið þess og raunar haldið þvi fram lengi að þetta sé ástæðan fyrir því að ég harka enn í myndlistinni; það er svo gaman að opna sýningu.

ælta mér að sýna ljósmyndir eins og undanfarin ár enda um áratugur síðan ég þreif penslana. vinnuheiti á sýningunni er „Tíminn snýst eins og jörðin“ og er sótt í söngtexta sem byrjar svona:

Litur á túnum er tekinn að gulna
því tíminn hann snýst eins og jörðin.
Það er liðið á sumar og ljós í glugga
berst langt út á fjörðinn.

6.3.07

refsigleðin


innslag í Kastljósi í gærkvöldi um fangann Geir í Bandaríkjunum var þörf áminning. strákur sem afplánar 20 ára dóm fyrir líkamsárás í skelfilegu tugthúsi við stöðuga lífshættu.

áminning um það hvað refsidómar eru fáránlegt fyrirbæri sem aldrei bætir nokkurn mann. og tímabær áminning þessa dagana þegar samfélagið er pakkfullt af háværum kröfum um þyngri refsingar við hverju sem er.

krafa um þyngri refsingar er krafa um hefnd. hefnd er andstyggilegt fyrirbæri og ömurlegt að heyra skynsamt fólk kalla eftir þessu með kröfum um þyngri refsingar. sú leið leysir engan vanda, hefur aldrei gert það og mun ekki gera það.

í Bandaríkjunum hafa menn þetta eina úrræði við hvers konar samfélagsvanda. stinga höfðinu í sandinn og vandanum í steininn. þetta er kallað að sópa skítnum undir teppið. í Evrópu, og til allrar lukku hér líka, eru eitthvað 30 eða 40 manns í tugthúsi af hverjum 100.000 íbúum. í Bandaríkjunum er þessi tala 700! það svarar til þess að ef við hefðum sama hátt á hér væru á þriðja þúsund manns í fangelsum á Íslandi. það er nánast allir íbúar á Húsavík svo dæmi sé tekið.

reynum nú frekar að grafast fyrir um rætur vandamálanna og fyrirbyggja þau heldur en að sópa undir teppið og væla á þyngri refsingar við afbrotum.

5.3.07

meistari Cohen


var áðan að horfa á heimildamyndina I'm Your Man, mynd um Leonard Cohen og tribute-tónleika sem haldnir voru í Ástralíu.

Cohen er heillandi karakter, afburða skáld og tónlistarmaður. hefur fylgt mér í meira en 30 ár; kynntist honum fyrst árið 1975, þremur árum eftir að fyrsta platan hans kom út. hef líklega hlustað meira á Cohen en nokkurn annan tónlistarmann gegnum tíðina og geri enn. finnst nýjasta stöffið best. hann er ennþá óhemjuflottur, kominn á áttræðisaldur. manngæskan, gáfurnar og fegurðarþráin skína af honum og öllum hans verkum. hann á þessa mögnuðu ljóðlínu:

"There's a crack in everything – that's where the light gets in"

það sem hins vegar angraði mig alla myndina í gegn var tónlistarflutningurinn á þessum konsert í Ástralíu. fannst hvert einasta lag sem tekið var miklu síðra í ábreiðuútgáfunum heldur en hjá kallinum sjálfum. meira að segja stórsnillingurinn Nick Cave var að gera hluti sem mér fundust ömurlegir.

var satt að segja allan tímann með það í huga að húsbandið í Populus tremula myndi gera þetta miklu betur.

4.3.07

enn um ofsaakstur og vegi

enn ein færslan um bílismann sem ég tek vissulega fullan þátt í:

eftir að hafa síðustu 3 vikur unnið í Hafnarfirði og búið í Vesturbæ Reykjavíkur hefur enn skýrst fyrir mér atriði sem ég hef svosem vitað af lengi. það er þetta með skilaboðin sem felast í umfjöllun um ökuhraða annars vegar og viðbrögðin við „ofsaakstri“ hins vegar.

einn morguninn á dögunum var ég að hlusta á morgunfréttir í útvarpi á leið í vinnuna og þar var smáfrétt um ökumann sem hafði verið stöðvaður við ofsaakstur í Reykjavík á 103 km hraða þar sem hámarkshraði var annað hvort 50 eða 60. þetta segir manni svo sem ekki neitt um afbrotið það sem aðstæður geta hæglega verið þannig að þetta sé stórhættulegt. er þó alls ekki gefið.
en meðan ég var að hlusta á þessa frétt var ég einminn í bílalestinni á leið þarna suðureftir og hraðinn var í kringum 115 km/klst. sem er bara umferðarhraðinn á leiðinni og enginn skiptir sér af því. hef reyndar ekki kynnt mér hámarkshraðann á leiðinni en hann er sennielga 60 og kannski einhvers staðar 80. hef ekki hugmynd um það.

en málið er að maður fer þessa leið tvisvar á dag, í rauninni innanbæjar, í þéttri umferð án athugasemda eða eftirlits, á hraða sem myndi þýða stórsektir í umdæmi Blönduósslöggunnar. á þjóðvegi þar sem er engin umferð miðað við Hafnarfjarðarveginn og úsýni oftast margir kílómetrar.

þarna er löggæslan semsagt að gefa ökumönnum svo misvísandi skilaboð að það er fáránlegt. og á sama tíma eru fjölmiðlar að velta sér uppúr glæframennsku sem er kannski ekkert öðru vísi en víða er stunduð dagsdaglega og látin óáreitt.

ekki halda að ég sé ekki sáttur við að geta keyrt þessa leið á nó tæm á fimmta gír – mér finnst það fínt. en að vita af því að væri maður á svipuðu róli úti á þjóðvegi yrði maður stoppaður og sektaður um tugi þúsunda fyrir glæframennsku á svipuðum ökuhraða við miklu betri skilyrði, það er fáránlegt.

---

þessum hlutum á að halda í þokkalegu lagi. en meðan skilaboðin sem ökumenn fá eru svona misvísandi er erfitt að taka mark á nokkrum hlut.

1.3.07

skemmtilega hlutverkið

í gær tók skemmtilega hlutverkið sem felst í að búa í miðborg Reykjavíkur gildi. gestgjafahlutverkið.

fékk góðan næturgest að norðan. Helgi vinur minn Þórsson mætti um kvöldmatarleytið á leið til Rotterdam með myndlistarsýningu og var setið og kjaftað í allt gærkvöld. farið vítt yfir sviðið með áherslum á myndlist, tónlist og skógrækt; allt frá Eyjafirði til Anchorage með stuttum stoppum í Mongólíu og á miðhálendinu. fiktað í gítar og raulað inn á milli.

fín kvöldstund og gaman að rifja upp kynnin. Helgi er einn af mörgum góðum félögum sem tengslin hafa rofnað of mikið við undanfarin ár. áttum mikið saman að sælda í áratug þegar við unnum báðir hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. höfum langa reynslu af því að kjafta út í eitt.

vekjarinn var stilltur á hálffimm í morgun og ætlaði á fætur með gestinum og skutla honum á flugrútuna á BSÍ. en þegar ég vaknaði við klukkuna var Helgi þegar farinn úr húsi – hefur sofið létt og tekið taxa snemma. óska honum góðs gengis með myndlistina og á allt eins von á að hann heilli landa Rembrants frá Rín.