13.8.08

spilda númer sjö

það var stoltur skógareigandi sem heimsótti Niðurlot og spildu númer sjö á Hálsi í Eyjafjarðarsveit nú í lok júlí.

skógarplönturnar sem voru kringum 15 sm á hæð þegar þær voru gróðursettar kringum 1996 eru nú orðnar að ungskógi og hæstu tré komin yfir fimm metra hæð. lerkið æðir upp og reyndar vex þarna allt eins og arfi. skógareigandinn í jaðri lerkiteigs og Signý milli tveggja gráelritrjáa. selja, lindifura og lerki allt um kring.


Goðafoss og Mývatn 30. júlí

læt þetta gott heita í bili af Vestfjörðum.
dvöldum svo tæpa viku á Akureyri í lúxuxíbúð Heiðu og Lúlla sem þau lánuðu okkur Signýju af rausnarskap sínum. hitabylgja gekk yfir landið eins og frægt varð og heitasta daginn, þann 30. júlí, fórum við hefðbundinn túristadagstúr til Mývatnssveitar og hitamælirinn fór í 27°C. nokkrar klassískar myndir af Goðafossi, úr Dimmuborgum og Höfða. kom enn einu sinni í Jarðböðin en tók ekki upp myndavélina þar. dýrðardagur í íslensku sumri eins og það verður flottast.

frá Akureyri héldum við svo föstudaginn 1. ágúst og dvöldum í Borgarfirði til mánudagsins 4. ágúst að við héldum loksins heim eftir 31 dags útilegu.






Hesteyri 23. júlí

þann 23. júlí gengum við sex saman hraustmennin frá Látrum til Hesteyrar og til baka.
rúmir fjórir tímar hvora leið og yfir fjallveg að fara, Háuheiði.
þetta þótti okkur talsvert afrek þótt Kristbjörn frændi minn Eydal hafi sagt mér að hann hafi verið sjö ára þegar hann var sendur þessa sömu leið til að kaupa eitthvað smotterí í búðinni á Hesteyri...

það er alltaf gaman að koma til Hesteyrar og í Læknishúsinu er rekið gistiheimili og kaffihús þar sem við fengum okkur kaffisopa og pönnsur.

frá Hesteyri liggur gullfallegur bílvegur áleiðis til fjalls en endar þar sem menn voru staddir í vegagerðinni þegar síðustu íbúarnir fluttu burt snemma á sjötta áratug síðustu aldar. steinhlaðin ræsin flytja enn allt það vatn sem að þeim rennur eftir meira en hálfa öld án viðhalds og bera því vitni að menn vönduðu til verka. yfir heiðina er svo ævaforn vörðuð gata sem af og til hverfur undir fönn þótt komið sé undir júlílok. brotnir símastaurarnir eins og skinin bein.






12.8.08

Straumnesfjall 20. júlí

nokkur hraustmenni gengu frá Látrum á Straumnesfjall, út á Trumbu, niður Öldudal í Rekavík bak Látur. átta eða níu tíma ganga. við Atli Sigfús héldum okkur við strandlífið á meðan enda hann of ungur fyrir þessa göngu og ég búinn að fara hana margoft.
útsýni af fjallinu er stórbrotið til allra átta þótt ekki hafi ég enn náð að sjá til Grænlands þaðan eins og sagan segir að eigi að vera hægt í björtu veðri. yst á Straumnesfjalli, þar sem heitir ýmist Skorar eða Trumba, eru utalsverðar menjar eftir radarstöð Bandaríkjamanna sem þeir reistu seint á sjötta áratug síðustu aldar á enda heimsins.
ísbjarnaleitarþyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið meðan liðið var á fjallinu og hrein heppni að þau komust til baka, enda tvö í ljósum flíspeysum...






11.8.08

Aðalvík 18.-19. júlí

sigldum með Ramonu frá Ísafirði til Látra í Aðalvík þann 18. júlí.
þessar myndir eru frá fyrstu dögunum þar nyrðra þar sem baðstrandalífið var allsráðandi enda er í Aðalvík flottasta baðströnd Evrópu fyrir norðan Miðjarðarhaf og engir túristar að bögga mann...






5.8.08

Borgarfjörður/Ísafjörður 17. júlí

langur en ánægjulegur bíltúr vestur um Brattabrekku, Þorskafjarðarheiði og Ísafjarðardjúp með góðu stoppi að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. þar er uppáhaldssunlaugin mín; 50 metra laug í fjöruborðinu með öskubökkum á bökkunum og malpokar leyfðir. styttist í að Reykjanes verði í þjóðbraut sem til þessa hefur verið fjarri lagi.
enduðum á Ísafirði enda á leið til Aðalvíkur á Hornströndum daginn eftir. enn nutum við gestrisni, að þessu sinni Önnu Gunnlaugsdóttur og barna hennar, í ókeypis gistingu og góðu atlæti. takk enn og aftur.

í blíðviðri eins og við nutum þennan dag er þetta óhemjuflott leið frá upphafi til enda.




Lækjarás í Borgarfirði 13.-17. júlí 2008

ókum með drengina suður í Borgarfjörð þar sem við nutum enn einu sinni gestrisni foreldra Signýjar og fengum afnot af sumarhúsi þeirra í Jötnagarðsási.
dvölin hófst á því að klippa mestallt hárið af Sigurði Ormi!
sundferðir í Borgarnes og Varmaland, sullað í læknum og að morgni þess 17. var byrjað að fagna fimm ára afmæli Atla Sigfúsar með pökkum og brúnköku.






Akureyri 11.-13. júlí 2008

brunuðum til Akureyrar þann 11. til að taka við Sigurði Ormi og Atla Sigfúsi og ekki síður til að vera við brúðkaup Heiðu og Lúlla.
gistum áfram í fellihýsinu sem við reistum á lóð brúðhjónanna. ekkert myndað í þessum túr nema brúðkaupið sem fór fram í Lögmannshlíðarkirkju þann 12. júlí.




Þjórsárdalur 4.-9. júlí 2008

útilegan hófst semsagt í Þjórsárdal.
þar gistum við á tjaldstæðinu í Sandártungu frá 4. til 9. júlí í fellihýsi sem Nonni, bróðir Signýjar, lánaði okkur og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

þetta er stórbrotið svæði og náttúruperlur á hverju strái. sjálf Sandá og umhverfi hennar heilluðu mig upp úr skónum. gaman að geta þess að Sandárbókin eftir Gyrði Elíasson gerist á þessum slóðum og ber nafn af ánni.

hiti fór aldrei niður fyrir 16°C og upp í 26°C við Háafoss. læt myndirnar tala sínu máli.


sullað í Sandá. óðum ylvolga ána fram og aftur kílómetrum saman í umhverfi sem minnir mest á myndir frá Alaska.


Hjálparfoss er flottur!


Gjáin í Þjórsárdal er stórbrotin perla en frekar óaðgengileg og lítt merkt. hafði ekki komið þar áður.


Gjárfoss er flottur í forminu eins og Hjálparfoss þótt ólíkir séu. þarna stungu menn sér til sunds þótt ég hafi ekki leikið það eftir...


Signý átti afmæli og þessi fíni blómavasi var grafinn upp í tilefni dagsins.


þetta er útsýnið út fellihýsinu á tjaldstæðinu í Sandártungu. Hekla naut sín í kvöldsólinni. eitt flottasta tjaldstæði sem ég hef komið á.


við enduðum Þjórsárdalsdvölina á að skoða virkjanaframkvæmdir og fara svo að Háafossi. mögnuð upplifun í steikjandi hita.

útilegan mikla 2008

í gærkvöldi komum við Signý heim eftir að hafa verið í útilegu í 31 dag, réttan mánuð. litum einu sinni við heima í rúman sólarhring á þessu flakki sem hófst í Þjórsárdal þann 4. júlí.

í sextán daga voru Sigurður Ormur og Atli Sigfús samferða okkur og m.a. var haldið upp á fimm ára afmæli Atla og fjörtíu og fimm ára afmæli Signýjar í túrnum, sem og brúðkaup Heiðu systur og Lúlla.

eknir voru um 3.400 kílómetrar á þessari sólarlandaferð um Ísland. aldrei í netsambandi og viku án símasambands. þetta var brotthvarf úr mannheimum og frábær mánuður. veður með ólíkindum gott og heppilegt til ljósmyndunar.

næstu daga er meiningin að hlaða hér inn nokkrum myndum frá þessu ferðalagi enda af nógu að taka. þetta verður gert eftir hendinni í tímaröð og skipt í færslur milli áfangastaða.