24.10.07

krakkar


um síðustu helgi voru Atli Sigfús og Katla að vísitera hann pápa sinn. sem var hreint afbragð.
þessi mynd var tekin í Laugardalnum á sunnudaginn.

nýtt ljóðskáld


í síðustu viku hlaut Ari nokkur Jóhannesson Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Öskudaga. Uppheimar gáfu bókina út sama dag.

Ari er læknir á sextugsaldri og hefur aðeins ort í örfá ár - sem kemur á óvart við lestur bókarinnar, enda fullþroska skáldskapur þar á ferð og verulega flottur. á nýbirtum „metsölulista" Eymundsson er bókin í þriðja sæti yfir innbundin skáldverk og ljóðabækur.

í þætti Egils Helgasonar, Kiljunni, verður talað við Ara í kvöld og ég ráðlegg ljóðaunnendum að fylgjast með.

---

þar verður einnig fjallað um nýjustu bók Gyrðis Elíassonar, Sandárbókina, sem er líka nýkomin út á vegum Uppheima. enn hefur þessi bók einungis fengið hástemmt lof, m.a. hjá Ástráði Eysteinssyni í Lesbók Moggans um síðstu helgi og í Víðsjá í gær var hún skilgreind sem snilldarverk. og er nú í fjórða sæti metsölulista Eymundsson yfir innbundin skáldverk.

---

í næstu viku sendum við svo frá okkur nýtt smásagnasafn eftir Böðvar Guðmundsson, Sögur úr Síðunni.

---

semsagt – eins og segir í ágætu viðlagi sem fylgdi vinnustaðasöng á Stíl fyrir nokkrum árum: það er gaman í vinnunni!

22.10.07

kýr og kaupahéðnar


af því að ég hef ekki sett inn færslu í þrjár vikur ætla ég að láta tvær vaða í kvöld – hér er sú síðari, og líka innblásin af sjónvarpsfréttunum:

Landbúnaðrháskólinn er búinn að reikna það út fyrir kúabændur í landinu að með því að skipta um kúakyn geti þeir sparað sér milljarð á ári. þeas allir kúabændur samanlagt. þúsundmilljónkall. þetta var fyrsta frétt á rúv í kvöld.

menn hafa verið að deila um kúakyn síðusku ár og Guðni gekk svo langt að kyssa belju beint á munninn fyrir blaðamenn. hef enga skoðun á kúakynjum en fannst áhugavert að samanlagður kúabændastofn landsins er að tala um árlegan sparnað sem er svo mikill að verða að fyrstu frétt í sjónvarpi allra landsmanna – en samt bara sama talan og einn töffari úr viðskiptalífinu gaf Háskólanum í Reykjavík um daginn. líka sama tala og Bjarni Ármannsson lagið í REI (til viðbótar við hálfa milljarðinn sem hann setti í dæmið mánuði fyrr).

það er semsagt þannig að upphæðir sem skekja kúabændastéttina í heild eru eitthvað sem nýríkir strákar snara upp úr rassvasanum persónulega og prívat eins og að drekka vatn.

bækur

hugsa og fæst við bækur og bókaútgáfu alla daga um þessar mundir. sem er bráðgaman.

kannski er það ástæðan fyrir því að það vakti sérstaka athygli mína að í aðalfréttatíma sjónvarpsins í kvöld voru tvær fréttir um bækur. nýútkomnar bækur en samt óvenjulegar fréttir – eða öllu heldur óvenjulegar ástæður þess að bækurnar eru í fréttum.

önnur bókanna hefur reyndar verið í fréttum dögum saman og hefur komið út áður – og þar liggur „hnífurinn grafinn í kúnni". biblían.

hin bókin er líka margútgefin áður en kemur nú út eftir að hafa verið ófáanleg áratugum saman og öfugt við biblíuna hefur engu verið breytt frá fyrstu útgáfu: Tíu litlir negrastrákar.

það sem er skondið við fréttir og deilur um þessar bækur er hins vegar það sama varðandi báðar: pólitísk rétthugsun.

það böggar fólk að þýðingu biblíunnar skuli hafa verið breytt, enda er svo að sjá að innihaldi texta hafi verið hliðrað til svo það falli að smekk Íslendinga þessa dagana – og þótt það angri smekk Gunnars í Krossinum. bræður verða systkin, svo dæmi sé tekið. kannski er þetta bara sætt en ber þess samt óþægileg merki að opinber rétthugsun sé að teygja anga sína fullvíða.

sem kristallast einnig í því að enginn hefur þorað að gefa út negrastrákana tíu fyrr en Skruddumenn taka nú af skarið. þótt hér sé um rammíslenskt verk að ræða, texti í bundnu máli og myndir eftir sjálfan Mugg, Guðmund Thorsteinsson. í sjálfu nafni ritsins er óímunntkanlegt orð, negri. sem var sjálfsögð skilgreining á þeldökku fólki í upphafi tuttugustu aldar.
reyndar er ég nokkuð viss um að þetta sé vond bók, en hún er fyndin heimild um hugsanagang fyrir öld síðan og bara gaman að sé gefin út enn á ný. en má búast við að rétthugsandi forðist gripinn og reyni að vernda unga sína fyrir slíku.

1.10.07

stóra bomban

sá hrikalegi atburður átti sér stað á föstudaginn var að hann Haukur bróðir minn sprakk í loft upp. á verkstæði BHS á Árskógsströnd. lá ofan á báti sem hann var að vinna við þegar allt rauk í háaloft.

og svo makalaus getur heppni manna verið að hann slapp frá þessu nánast óskaddaður. sem miðað við lýsingar og myndir af vettvangi er óskiljanlegt með öllu.

þetta voru bestu fréttirnar í langan tíma. eins og að eignast þennan góða bróður aftur. því eins og segir í ágæti kvæði hjá hinum ástsælu Spöðum: „ber er hver að baki nema sér stóra bróður eigi."