24.12.07

gleðilega hátíð!


ættingjum, vinum og öllu góðu fólki sendi ég óskir um gleiðega hátíð og ánægjulegt komandi ár. þakka samskipti og samveru á árinu og allt gamalt og gott.
góðir vinir og venslafólk er jú það sem skiptir mann hvað mestu máli í lífinu. á því sviði er ég mikill gæfumaður og þakklátur fyrir það.
gleðileg jól.

23.12.07

ber er hver að baki...

...nema sér stóra bróður eigi. sungu Spaðar.


á föstudaginn var varð Hjalti Örn bróðir minn sextugur. heill sé honum. myndin er tekin nokkru fyrir sextugsafmælið af Hjalta og Krumma.
af þessu tilefni urðu til Hjaltarímur hundgamals og eru svona:

Áratugur æviskeiðs er enn að baki.
Sorglegra en tárum taki.
Trúi ég að flestu hraki.

Sýnast þó á sjötugsaldri syndir nægar,
sem er gott að sinna vægar.
Í sakirnar að fara hægar.

Lifa má hann framvegis á mysu og malti.
Getan verður senn að gjalti.
Gamall verður bráðum Hjalti.

Afbragðsgott að vera löngu orðinn afi.
Í vinnu sinni vera á kafi.
Verkefni ég tel hann hafi.

Óskir færum aldurhnignum allra bestar.
Góðar stundir, gæfumestar,
gefist þér sem allra flestar.

14.12.07

jólalögin

fátt er jafn ómerkilegt og jólalög. eins og þau hafa birst manni undanfarna áratugi í íslensku útvarpi. með örfáum undantekningu reyndar. svosem jólaplötur Rögnvaldar gáfaða hérna um árið og auðvitað Baggalútur, sem hefur komið með hverja snilldina á fætur annarri á þeim vettvangi.

nú stendur Poppland á Rás2 fyrir jólalagakeppni. þar eiga mínir góðu vinir og félagar, og bráðfínu músíkantar, Helgi og hljóðfæraleikararnir, lag sem er helvíti gott. flott kvæði við gott lag. 80 kvenna jól. og þjóðin kýs. kjósið þá.

http://ruv.is/heim/vefir/poppland/jolalagakeppni/

flugveður

ætlaði að vera á Akureyri í kvöld að halda litlu jól með vinum og félögum í þeim ágæta klúbbi Populus tremula.
af því ferðalagi verður ekki vegna veðurs – næsta athugun á flugi er kl. 06:45 í fyrramálið (eða fyrramoli eins og það hét á Ströndinni).

búinn að slá ferðalagið af enda var erindið að hitta vinina í kvöld og synina á morgun. verð einfaldlega að eiga þetta inni.

finnst það merkilegt að þetta er í þriðja sinn á rúmum mánuði sem þetta gerist; síðustu tvo skiptin sem Sigurður Ormur hefur komið til mín suður fljúgandi hefur hann ekki komist norður með pöntuðu flugi, þurft að gista aukanótt í bæði skiptin.

hélt að þetta væri liðin tíð en svo er auðvitað ekki. náttúran er söm við sig og hún ræður.

13.12.07

forystusauður hins frjálsa heims

á unglingsárum var mér kennt að Rússar væru góðir og Bandaríkjamenn vondir.
Alræði öreiganna þar sem allir voru jafnir og höfðu næga vinnu, húsnæði á vegum ríkisins og samheldnin ein ríkti annars vegar – gróðahyggja auðmanna sem arðrændu almúgann og sköruðu eld að sinni köku hins vegar. trúði þessu öllu fram á síðustu stundu; þangað til kommúnisminn var endanlega hruninn og ekki stóð steinn yfir steini frekar en í múrnum mikla í Berlín. og eins gott að flett var ofan af því svínaríi öllu.

eftir stóðu vesturveldin með pálmann í höndunum: þetta sögðum við alltaf! hjá okkur ríkir frelsið - hjá þeim... ja, STASI, svona gott dæmi um algjöra kúgun borgaranna sem eru undir stöðugu eftirliti allan tímann. njósna hver um annan og gubba svo upplýsingunum inn til flokksmaskínunnar miklu.

í fréttatímum í dag og gær hefur verið sagt frá fólki sem lent hefur í hremmingum á flugvöllum í Bandaríkjunum af tilefnum sem eru svo smávægileg að viðbrögðin og móttökurnar ganga fram af öllum. ofstækið og ofsóknaræðið sem skín af slíkum málum er algjört og réttlætingin jafn hláleg og var austantjalds hér á árum áður: að verja borgarana, frelsið og kerfið.

eftirlit með almenningi hefur kannski aldrei og hvergi verið meira en það er þessa dagana í þeim löndum sem helst kenna sig við frelsi og umburðarlyndi; Evróðusambandslöndin og Bandaríkin. og þegar paranojan er komin á þetta stig fer fjöldi fórnarlamba vaxandi: hver einasti kjaftur er grunsamlegur, hættulegur og þar af leiðandi fjandsamlegur. og ber að meðhöndla sem slíkan.

ég minntist á bíómynd fyrir allmörgum mánuðum síðan: Líf annarra heitir hún, er þýsk og baklandið er STASI. full ástæða til að minna á hana aftur og dagkipunin er sem fyrr: SJÁIÐ ÞESSA MYND - er á leigunum.

braghenda númer tvö

Þótt bloggað sé í bundnu máli er bull ei minna.
Ættir frekar öðru að sinna
eða lesa pistla hinna.

10.12.07

Friðarsúlan hnigin að sinni


Friðargeislinn fannst mér vera flottur drjóli.
Náði hann í næturskjóli
niður undan drottins kjóli.