18.9.07

ljóðagangan

er að undirbúa Ljóðagönguna góðu. og það er gaman.

að hringja í skáld og trúbadúra, spjalla og spekúlera og allir taka erindinu vel. enda ljóðagöngur búnar að vinna sér tryggan sess í Eyjafiði. þessi hugmynd félaga Sigurðar Jónssonar frá 1998 að ganga um haustskóg og sameina skóginn, haustið og póesíuna er hreint afbragð og hefur undið skemmtilega upp á sig.

á fyrstu árunum voru leiðsögumenn og lesarar yfirleitt ekki færri en gestirnir en nú hefur það breyst svo um munar.
í fyrra fórum við með 50 manna rútu frá Akureyri í Garðsárreit og þurfti tug einkabíla að auki til að ferja þá sem ekki komust í rútuna. og almenn gleði og samkennd ríkjandi – enda boðið upp á brennheitt ketilkaffi og Brennivín í göngulok.

þetta árið ætlum við í Hánefsstaðaskóg í Svarafaðardal – hreina perlu sem gaman verður að kynna. og hópur skálda og tónlistarmanna boðinn og búinn að taka þátt í þessu. hlakka til að koma norður og vera með í þessu þann 29. september.

fylgist með auglýsingum í næstu viku...

5.9.07

kenning dagsins

forsjárhyggjan er mesta mein aldarinnar.

lausn vandans!

snemma í morgun laust niður í huga mér lausn áfengisvandans í miðbæ Reykjavíkur. og skylda mín sem samfélagsþegns að deila þessari afburðahugmynd með þjóðinni:

fram hefur komið að menn hyggjast koma sér upp hreyfanlegri lögreglustöð í miðbænum. Þráinn Bertelsson taldi að það væri til þess að löggan þyrfti aldrei út af stöðinni.
mín tillaga er sú að ÁTVR komi sér upp hreyfanlegri vínbúð í miðbænum í stað þessa vandræðagemlings við Austurstræti sem alltaf er grafkyrr á sama blettinum, rétt við Austurvöll.

með hreyfanlegri vínbúð gætu menn einfaldlega lagt á flótta með ríkið þegar rónarnir nálgast; þeir nenna örugglega ekki langt til þess eins að fá volgan bjór.