29.10.11

helvítis

frá barnæsku hef ég átt mín bankaviðskipti við sparisjóðina.
sá fyrsti átti lögheimili í eldtraustum skáp heima á Rauðavík.
átti þar tékkareikning nr. 10. og þegar maður var fluttur að heiman á sextánda ári var það svo útibú Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps að Brekkugötu 5 á Akureyri. þar sem Dísa stjórnaði og Lára og þessar stelpur allar voru almennilegheitin ein og þekktu kúnnann á færi.

við sjóðinn minn hef ég haldið tryggð í þriðjung aldar, elt hann úr Brekkugötu / Glæibæjarhreppi í Ljóskuna við Skipagötu þegar sameinað var í Sparisjóð Norðlendinga.
vegna þess að áfram var það þannig að maður gat gengið inn um dyrnar og var tekið fagnandi – ekkert verið að krefjast skilríkja af því að það þekktu mann allir. kosti og lesti.

á tveggja áratuga tímabili hef ég nokkrum sinnum tekið bílalán. til að geta liðið þokkalega á þjóðvegunum og nenni ekki eða kann að skipta um bremsuklossa, viftureimar eða dempara. alltaf skipt við Sparisjóðina mína sætu sem voru eins og Staupasteinn: Where Everybody Knows Your Name.

og les nú bréf frá Landsbankanum þar sem mér er tilkynnt að sæta góða krúttlega sparisjóðabílalánið mitt (sem um tíma sýndi skuld sem var þrefalt verðmæti bílsins) sé komið í eigu Landsbankans. og í bréfinu stendur orðrétt: „ ... og þar mun öflugur hópur starfsfólks veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu.“ ekki verið að segja manni að hverju muni stefnt heldur lýsa staðreynd. í sendibréfi til mín með tilkynningu um eitthvað sem ég var aldrei beðinn um að hafa skoðun á. trúi ekki einu orði.

mig langar ekki til að vera viðskiptavinur Landsbankans.

Sparisjóður Norðlendinga varð partur af Byr án þess að ég væri spurður.
ég vildi ekki verða kúnni hjá Byr.

og stefnir í að reikningarnir mínir, debet eða kredit og draslið allt, flytjist í Íslandsbanka.

hef álíka mikinn áhuga á að vera viðskiptamaður þar og í Landsbankanum.

helvítis.