29.10.11

helvítis

frá barnæsku hef ég átt mín bankaviðskipti við sparisjóðina.
sá fyrsti átti lögheimili í eldtraustum skáp heima á Rauðavík.
átti þar tékkareikning nr. 10. og þegar maður var fluttur að heiman á sextánda ári var það svo útibú Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps að Brekkugötu 5 á Akureyri. þar sem Dísa stjórnaði og Lára og þessar stelpur allar voru almennilegheitin ein og þekktu kúnnann á færi.

við sjóðinn minn hef ég haldið tryggð í þriðjung aldar, elt hann úr Brekkugötu / Glæibæjarhreppi í Ljóskuna við Skipagötu þegar sameinað var í Sparisjóð Norðlendinga.
vegna þess að áfram var það þannig að maður gat gengið inn um dyrnar og var tekið fagnandi – ekkert verið að krefjast skilríkja af því að það þekktu mann allir. kosti og lesti.

á tveggja áratuga tímabili hef ég nokkrum sinnum tekið bílalán. til að geta liðið þokkalega á þjóðvegunum og nenni ekki eða kann að skipta um bremsuklossa, viftureimar eða dempara. alltaf skipt við Sparisjóðina mína sætu sem voru eins og Staupasteinn: Where Everybody Knows Your Name.

og les nú bréf frá Landsbankanum þar sem mér er tilkynnt að sæta góða krúttlega sparisjóðabílalánið mitt (sem um tíma sýndi skuld sem var þrefalt verðmæti bílsins) sé komið í eigu Landsbankans. og í bréfinu stendur orðrétt: „ ... og þar mun öflugur hópur starfsfólks veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu.“ ekki verið að segja manni að hverju muni stefnt heldur lýsa staðreynd. í sendibréfi til mín með tilkynningu um eitthvað sem ég var aldrei beðinn um að hafa skoðun á. trúi ekki einu orði.

mig langar ekki til að vera viðskiptavinur Landsbankans.

Sparisjóður Norðlendinga varð partur af Byr án þess að ég væri spurður.
ég vildi ekki verða kúnni hjá Byr.

og stefnir í að reikningarnir mínir, debet eða kredit og draslið allt, flytjist í Íslandsbanka.

hef álíka mikinn áhuga á að vera viðskiptamaður þar og í Landsbankanum.

helvítis.

15.6.11

Kveðja til vinar


Sigurður Heiðar Jónsson lést 7. júní 2011.
Þessi mikli öðlingur verður til moldar borinn í dag, 16. júní.


Siggi – mikið skelfilega sakna ég þín.

Það voru engin takmörk fyrir því hvað við gátum kjaftað eftir að við loksins kynntumst. Á tíunda áratugnum þegar miðaldra gæi, lágvær en einbeittur á vínrauðum jakkafötum og með hringlótt gleraugu fór að láta til sín taka á félagsfundum í Gilfélaginu með svo beinskeyttum fyrirspurnum og hnitmiðuðum ábendingum að framhjá varð ekki horft.
Milli okkar varð fljótt kunningsskapur sem hverfðist um skáldskap og aðrar listir, en þróaðist á fáum misserum í vináttu. Vináttu sem með árunum varð dýpri, hlýrri og einlægari en ég hef átt við aðra menn. Og öll þessi kjaftakvöld og -dagar gegnum árin þar sem ekkert var okkur óviðkomandi og enduðu um helgar á Café Karólínu í reykjarkófi, djúpum bjórglösum og rjúpu. Þurftum samt með tímanum ekkert á því að halda að vera kenndir til að tala saman í fullum trúnaði og gráta hvor á annars öxl. Sem við svikalaust gerðum þegar á þurfti að halda. Þú – þetta eldklára ljúfmenni með þína miklu fortíð – gafst mér meira en mér bauðst nokkru sinni færi á að endurgjalda. Og svo veit ég að er um fleiri.
Haustið 1998, þegar þú varst orðinn allt í öllu í Listagilinu, var að þínu frumkvæði gengin fyrsta Ljóðagangan í eyfirskum skógi. Ári síðar steigstu á trjástúf og fluttir kvæðið Haustskógur, eftir Rúdólf Rósenberg – hliðarsjálfið sem þú beittir löngum fyrir þig og lést jafnvel gefa út bók. Þetta kvæði reyndist bera í sér spá um það sem koma skyldi ásamt leiðbeiningum. Því lýkur svona:

hve léttbært er ei lífsins haust og laust við sorg og trega
er litaskrúð í blaðverkinu blindar augu mín
og máttur lífsins virðist ætla að vara eilíflega
í vinafjöld þótt hausti að við leiki, ljóð og vín


Kjarni málsins semsagt. Populus tremula var stofnað haustið 2004. Enginn okkar sem tekið hefur þátt í því starfi er samur eftir. Drjúgur þáttur í hversu gjöfult allt það hefur verið og er, byggir á þeirri staðreynd að í því félagi hefur kynslóðabil ekki þekkst. Þótt aldursmunur sé nægur til að kynslóð eða tvær gætu hæglega skilið að hina elstu og yngstu, hefur ávallt ríkt jafnræði og virðing. Gagnkvæm. Það er þér að þakka, sem hafðir þennan eiginleika að umgangast aðra án fordóma eða fyrirfram gefinna forsenda. Af einskærum áhuga á öðru fólki. Áhuga á lífinu.
Dauðadóminn hlaustu sjálfur fyrir fáum árum. Þessi misseri sem liðið hafa síðan hafa verið samfellt námskeið í því hvernig lifa má með reisn – sigur andans yfir efninu. Skilur okkur hin nú eftir harmi slegin en stolt.

Af öllu því sem hent hefur mig um dagana er það að hafa eignast þig að vini eitt hið allra besta. Öllum sem syrgja færi ég samúðarkveðjur; BHS og börnum þínum öllum votta ég dýpstu samúð, afkomendum nær og fjær, ættingjum, félögum og vinum. Polulusgenginu. Innilegar þakkir öllum þeim sem gerðu þér kleift að bera höfuðið hátt til hinsta dags.

Takk fyrir allt minn kæri vinur,
Aðalsteinn Svanur Sigfússon

9.5.10

EYJAFJALLAJÖKULL 8.5.2010

Myndirnar hér að neðan voru teknar í áhfirfamikilli ökuferð um Suðurland þann áttunda maí 2010.







28.10.09

ORKUVER Í BÆJARLÆKNUM

Um þessar mundir fagnar fimm ára afmæli sínu merkilegt fyrirbæri í mannlífinu á Akureyri – Menningarsmiðjan Populus tremula (P.t.). Í starfsemi af þessum toga er það talsverður aldur og því ekki úr vegi að líta um öxl og segja í stuttu máli frá þessu fyrirbæri, tilurð þess og starfsemi.

Kveikjan að stofnun félagsins var sú að hljómsveit vantaði æfingapláss. Úr varð að hljómsveitin, skipuð 7 mönnum sem fengust flestir við skáldskap og myndlist auk tónlistarinnar, gekk til liðs við myndlistarmenn sem ráku vinnustofu og sýningarpláss í Gilinu. Haustið 2004 var stofnað formlegt félag um rekstur menningarmiðstöðvar í vinnustofunni og hún tekin á leigu. Stofnfélagar voru níu og sjö þeirra eru enn virkir innan félagsins. Nýir félagar hafa bæst í hópinn og aðrir horfið til annarra landa eða landshluta. Heilinn að baki félaginu og forgöngumaður er Papa Populus, Sigurður Heiðar Jónsson, sem var gjaldkeri þess og andlit út á við fyrstu fjögur árin.

Í þriðju grein félagssamþykkta P.t. segir orðrétt: „Starfsemi félagsins skal byggjast á hugsjónastarfi án efnahagslegs ávinnings og þjóna því markmiði fremst, að efla lifandi menningarlíf í umhverfi sínu. Félagið má ekki hafa tekjur af starfsemi sinni...“

Þarna kemur strax fram eitt helsta sérkenni þessarar menningarsmiðju – félagið tekur aldrei gjald af neinum, hvorki listamönnum né gestum, og borgar aldrei neinum neitt sem tengist viðburðum í Populus termula. Vissulega fylgir þessum rekstri umtalsverður kostnaður, og ber þar hæst húsaleiga, sem framan af var greidd af félagsmönnum úr eigin vasa. Með vaxandi starfi og velmegun í samfélaginu, sem nú má helst ekki nefna á nafn, gengu til liðs við P.t. styrktaraðilar sem gerðu það mögulegt að halda úti öflugu starfi án þess að félagsmenn þyrftu að bera af því umtalsverðan persónulegan kostnað. Fyrir það eru félagsmenn þakklátir, enda væri Populus tremula ekki það sem það er nema fyrir tilstuðlan Ásprents Stíls, Saga Capital, Norðurorku, Rub 23 og Akureyrarbæjar. Eftir sem áður byggir Populus allt sitt á þrotlausu sjálfboðastarfi félagsmanna allra.

Tónlist hefur frá upphafi verið ríkjandi þáttur í starfi Populus tremula en strax á fyrsta starfsári félagsins var einnig farið að standa fyrir myndlistarsýningum og bókmenntakvöldum. Leiksýningar hafa verið fluttar í menningarsmiðjunni og raunar hafa flestar listgreinar fengið þar inni á þessum fimm árum. Viðburðir á þessu fimm ára tímabili skipta hundruðum og fjöldi gesta mælist í þúsundum. Ávallt eru allir velkomnir og aðgangur ókeypis, sama upp á hvað er boðið.

Frá upphafi hefur það verið stefna P.t. að taka vel á móti ungum listamönnum og gefa þeim kost á að koma verkum sínum á framfæri. Listnemar og ungskáld hafa fengið inni í Populus tremula á sömu forsendum og víðkunnir listamenn hvaðanæva að.

Í árbyrjun 2007 hóf Populus tremula bókaútgáfu með því að gefa úr litlar bækur í takmörkuðu upplagi. Bækur á vegum P.t. eru nú orðnar 19 talsins; ljóðabækur, myndlistarverk, tónlist og prósi eftir nánast jafnmarga höfunda. Þar á meðal eru verk landsþekktra listamanna í bland við fyrstu verk ungra skálda og listamanna.

Populus tremula er eitt af mörgum skilgetnum afkvæmum Gilfélagsins, sem ásamt Listasafninu á Akureyri ruddi jarðveginn fyrir grasrótarstarf í menningarlífinu á Akureyri. Öll þessi sjálfsprottnu gallerí og handverkshús, ásamt fyrrnefndum aðilum, Menningarmiðstöðinni í Listagili og þeim lifandi arfi sem Amtsbókasafnið, skáldahúsin og Minjasafnið standa fyrir, hafa virkjað þann listræna kraft sem býr í fólkinu í bænum – eru orkuver í bæjarlæknum.

Og starfinu í Populus tremula mun vonandi áfram haldið meðan túrbínan í Gilinu snýst.

12.3.09

SLÉTTUBÖND

tókst loksins að berja saman sléttubandavísu eftir mikið streð.
galdurinn er að ná því að merking vísunnar snúist algerlega við þegar hún er lesin afturábak.
sú fyrri er sálmur:

Síst ertu drottinn dauður,
drottinn þú ert minn.
Víst muntu öreiga auður,
akur er lífsins þinn.


...OG LESIÐ AFTURÁBAK:


Þinn lífsins er akur auður,
öreiga muntu víst.
Minn ert þú drottinn dauður,
drottinn ertu síst.

6.2.09

gæsla viðkvæmra persónuupplýsinga

í gær var verið að agnúast út í heilsugæslustöðina á Dalvík í fréttum. fram kom að Persónuvernd hefði gert alvarlegar athugasemdir við stöðina þar sem sjúkraskýrslur fyrir tveggja ára tímabil hefðu glatast.

fram kom ennfremur að þessi gögn hefðu glatast við að tölvukerfi stöðvarinnar „hrundi“ og að ekki hefði tekist að endurheimta þau.

mér er hins vegar spurn: er hægt að tryggja betur en þetta að svo persónulegar og viðkvæmar upplýsingar komist í hendur annarra? að láta gögnin hverfa í eitt skipti fyrir öll.

4.2.09

CO-OP á Hádegismóum


það hlýtur að teljast frekar kaldhæðnislegt að Mogginn blessaður skuli nú vera ríkisrekinn fjölmiðill.
þetta málgagn óheftrar samkeppni og frjálshyggju gegnum tíðina.

enn skondnara er þó, svona í sögulegu samhengi, að nú hafi tekið sig saman stór hópur fólks og stofnað einhvers konar samvinnufélag um að kaupa Moggann og taka við rekstri hans.

kannski Denni dæmalausi fari aftur að birtast í blöðunum?