25.11.06

orðanna vegna

dagur íslenskrar tungu var um daginn, þann 19. ef ég man rétt. þá hvatti Baggalútur landsmenn til að fara í hressilegan sleik.

hef lengi ástundað markvissan tvískinnung í öllu því sem snýr að málefnum íslenskunnar; annars vegar fulltrúi þeirra afla sem vilja viðhalda málinu og halda í grónar hefðir (sem byggir á því að hafa þokkleg tök á þessu verkfæri til tjáningar) og hins vegar sem boðberi þeirrar kenningar að skiljanlegt mál sé rétt mál. sletti óhikað eins og menn hafa kynnst hér en markvisst.

síðustu misseri ber meira og meira á asnalegri hugsun í málnotkun í fjölmiðlun og það böggar mig meira en „röng“ málnotkun. t.d. þegar sagði í fyrirsögn í Frbl í vikunni: „Mannfall í Írak nær nýjum hæðum“. þetta finnst mér verra en bein þýðing á enskri hugsum (orðið á götunni segir) sem er að verða að viðteknu talmáli.

af öðrum toga er klaufaskapur:
fyndnasta dæmið um þetta er síðan menn vou að vandræðast með kornabarn eftir flóðin miklu við Indlandshaf og stærðar hópur gaf sig fram og þóttist vera foreldrar þessa barns. þá var fyrirsögn í sama blaði þessi: „Allir vilja óþekkt barn“.
er svipað og þegar Ómar kallinn Ragnarsson var einhverntíma að lýsa dýrð óbyggðanna og var „heltekinn af fegurð“.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

AF frekari ambögum

Skiljanlegt mál er rétt mál, en það sem í mínar fínustu fer er þegar orðskrípið 'formælandi' er notað.

Mikið hefur borið á þessu ógeði í mæltu máli og þá einkum og sérílagi í fréttaflutningi. Talað er um formælanda einhvers eða einhverra og nístir það í hvert sinn.
Að formæla einhverju var mér kennt sem barni var að blóta einhverju í sand og ösku - leiðrétti mig hver sem getur, en sé ég að tvinna saman orðum og láta titla mig formælanda tel ég að ekki sé annað í gangi en formælingar af minni hálfu. Alþjóð veit jú hvað formælingar eru, vísast skilja menn betur það hugtak en t.d. landmælingar en það er máski til hliðar við yfirlýst markmið.

Formælandi PT (sem ég er að titla mig í þessum rituðum) segir að ekki sé öll djöfulsins andskotans helvítis bölvuð vitleysan eins.

Orð dagsins verður því, Ingibjörg, FORMÆLANDI.

Lifið heil

06:54  
Anonymous Nafnlaus said...

Fátt er skemmtilegra en pælingar um mál, málfar og orð. Heilshugar tek ég undir það að gott mál er aðeins það mál sem er skiljanlegt. En það er þó ekki nóg að maður skiljist, málið þarf að vera lipurt og leikandi. Athyglisvert er að skoða nýlega útgáfu af upphafsorði þessarar setningar, "athyglivert" - nútímaklúður sem á rætur sínar í þrælslegri undirgefni við rökhyggju og málfræðilegt harðlífi, ásamt misskilinni fullkomnunaráráttu. Það er enginn vandi að sanna að þessi óskapnaður sé réttur og hin gamla notkun hugtaksins röng. En hvað stoðar það? Laxness sagði að þjóðin skildi ekki það sem skólakennarar og málfræðingar kölluðu gott mál og fagurt og hún daufheyrðist við "réttu" máli væri það dautt. "Athyglisvert" er hljómfagurt, það flýtur, hljómar og er harmoniskt - "athygli-vert" er óskapnaður og lætur illa í munni og eyrum hvaða rök sem tínd eru til því til varnar. Lipurt mál er fagurt mál.
Gamansögu heyrðum við Aðalsteinn í dag um óskapnaðinn "að þjónusta". Við skemmtum okkur við að pæla í því hvert þessi vitleysa getur leitt. Það var til dæmis ekkert að þjónustuninni á Karólínu, þjónustunarstúlkan var elskuleg og við vorum allir afskaplaga vel þjónustaðir. Börkur sagði okkur frá deilu sinni við nokkra vini sem sáu ekkert athugavert við sögnina að þjónusta, fyrr en hann sagði við þá "strákar, það þjónustar engum tilgangi að ræða þetta frekar" - Þá kviknaði á perunni.

Að lokum legg ég til, ekki síst til að gleðja félaga Aðalstein, að orðið gjaldfrjáls verði lagt til hvílu og hið ágæta gegnsæja orð ókeypis notað í staðinn

21:41  

Skrifa ummæli

<< Home