17.11.06

nugga sér utaní

eftir skemmtilegt kjaftæði um trúarinnrætingu á öðru bloggi rifjaðist upp vísa eftir prófessor Jón Helgason.

Jón er reyndar eitt af albestu skáldum sem Ísland hefur alið og slíkur höfuðsnillingur lýríkur, tungumáls og brageyra að það er vel við hæfi að vitna í hann að nýlokum degi íslenskrar tungu. vísan er (eftir minni) svona:

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist
sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í krist,
þá vaknar sú spurning að lokum hvort mikils sé misst
þótt maður að síðustu lendi í annarri vist.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

I
Liðið er hátt á aðra öld;
enn mun þó reimt á Kili,
þar sem í snjónum bræðra beið
beisklegur aldurtili;
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
hleypur svo einn með hærusekk,
hverfur í dimmu gili.
II
Þverhöggvið gnapir Þúfubjarg
þrútið af lamstri veðra;
Ægir greiðir því önnur slög,
ekki er hann mildur héðra;
iðkuð var þar á efstu brún
íþróttin vorra feðra:
Kolbeinn sat hæst á klettasnös,
kvaðst á við hann úr neðra.
III
Nú er í Dritvík daufleg vist,
drungalegt nesið kalda;
sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda;
Tröllakirkjunnar tíðasöng,
tóna þeir Hlér og Alda;
Fullsterk mun þungt að færa á stall,
fáir sem honum valda.
IV
Upp undir hvelfing Helgafells,
hlýlegum geislum stafar;
frænda sem þangað fór í kvöld
fagna hans liðnir afar;
situr að teiti sveitin öll,
saman við langeld skrafar,
meðan oss hina hremmir fast,
helkuldi myrkrar grafar.
V
Alvotur stendur upp að knjám
öldubrjóturinn kargi
kagandi fram á kalda röst
kvikur af fuglaþvargi;
býsn eru meðan brothætt jörð
brestur ei undan fargi
þar sem á hennar holu skurn
hlaðið var Látrabjargi.
VI
Kögur og Horn og Heljarvík
huga minn seiða löngum;
tætist hið salta sjávarbrim
sundur á grýttum töngum;
Hljóðabunga við Hrollaugsborg
herðir á stríðum söngum,
meðan sinn ólma organleik
ofviðrið heyr á Dröngum.
VII
Ærið er bratt við Ólafsfjörð
undarleg klettahöllin;
teygist hinn myrki múli fram
mynnist við boðaföllin;
kennd er við Hálfdan hurðin rauð,
hér mundi gengt í fjöllin;
ein er þar kona krossi vígð
komin í bland við tröllin.
VIII
Liggur við Kreppu lítil rúst,
leiðirnar ekki greiðar;
kyrja þar dimman kvæðasón
Kverkfjallavættir reiðar;
fríð var í draumum fjallaþjófs
farsældin norðan heiðar,
þegar hann sá eitt samfellt hjarn
sunnan til Herðubreiðar.
IX
Séð hef ég skrautleg suðræn blóm,
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meira í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði.
X
Eldflóðið steypist ofan hlíð,
undaðar moldir flaka;
logandi standa í langri röð
ljósin á gígastjaka;
hnjúkarnir sjálfir hrikta við,
hornsteinar landsins braka,
þegar hin rómu regindjúp
ræskja sig upp um Laka.
XI
Vötnin byltast að Brunasandi,
bólgnar þar kvikan gljúp;
landið ber sér á breiðum herðum
bjartan og svalan hjúp,
jötunninn stendur með járnstaf í hendi,
jafnan við Lómagnúp,
kallar hann mig og kallar hann þig...
kuldaleg rödd og djúp.


Svona kvæði fáum við bara einu sinni á öld. Jafnvel einu sinni á árþúsundi?

00:17  
Anonymous Nafnlaus said...

Mig setur hljóðann!

00:35  
Anonymous Nafnlaus said...

áfangar. ef eitthvað stendur með síðustu færslu er það þetta kvæði.takk Hjálmar.

svo eru það líka öll hin sem komu úr lansduðri. nema helvítis kvæðið um tannlækningarnar... þoli það illa.

01:30  
Anonymous Nafnlaus said...

Þýðandinn Jón Helgason

Sjálfslýsing Piere Vidals

Ef fer ég mínum fáki´ á bak
með feigðarspá og málmabrak,
ég hendist hauki líkur
sem hirðir lítt um smáfuglas kvak.
Og fjendur mínir vita vel
hve voðaþrungin högg ég sel:
sú ætlan öngvan svíkur
sem á þá von á bráðri hel.

Ef væðist ég í vopnaglamm
og veð af stað með þungan hramm
á bláum benja naðri,
þá bifast grund þar stíg ég fram.
Og gikkir þeir með heimsklegt háð
sem hneisa vildu mína dáð,
þeir fyllast felmtran hraðri;
að flýja sjá þeir vænsta ráð.

Af prúðleik ég af brögnum ber
sem Berart frá Montdidier,
í randagný ég reynist
sem Rollant og sem Oliver.
Úr öðrum löndum allt í kring
ég á því margan gullin hring;
minn orðstír öngvum leynist,
mér ýmsir senda dýrmæt þing.

Nær drengir háðu dust og burt
ég drjúgum beysti margan furt
og rak úr söðli rekka,
í roti smættist þeirra kurt.
Og dramba lét ég hátt minn hest
þá hrópað var – af kvenþjóð mest
með prís og prýði þekka:
Ó Piere, þú ert hetjan best!

Mér aldrei nokkur íþrótt brást;
ég yrki dýrst, ég hleypi frást,
á blíðubeði kvenna
mér betri garpur seint mun tjást.
Um allar jarðir frægð mín fer,
hvert fjör og vit og afl ég ber,
og sá skal krafts mins kenna
er kallast vildi jafnsnjall mér.

Ég tvisvar fernar tylftir veit
úr tignarkvenna fremstu sveit
af heitri munúð höfgar
er hverfa jafnan mín á leit.
Og þar líf svo láni fyllt
mér léði guð, ég veit mér skylt
að forðast allar öfgar
en iðka dagfar ljúft og milt.

Um hól og skrum ég hirði síst,
ég hata raup, en tvennt er víst;
ég kyssi konur göfgar
og karlmenn drep ág þá mér líst.

01:46  

Skrifa ummæli

<< Home