9.11.06

fleira er matur en feitt ket

fyrst er að þakka skemmtileg viðbrögð við síðustu færslu.

eftir að hafa lýst því yfir í sumar leið að ætla að fara að taka þátt í mannlífinu, fylgjast með og jafnvel mynda mér skoðanir af og til, hef ég reynt að fletta Fréttablaðinu nokkrum sinnum í viku. sem er fínt en get ekki sagt að það hafi gert mig að betri manni ennþá – efast satt að segja um að svo verði þótt ekki sé vanþörf á.

mest hef ég nefnilega gaman af slúðurfréttunum sem eru afar forvitnilegt fyribæri. veit t.d. orðið ýmislegt um skilnað Pauls og Heatherar enda lesið sömu fréttina með lítið breyttu orðalagi í hverju tölublaðinu á fætur öðru. og undanfarnar vikur líður ekki sá dagur að Hasselhoff garmurinn fái ekki nokkra dálksentímetra. þeir pistlar nálgast hámark ekkifréttamennskunnar, bull um ekkert. svo núna síðast er poppdrottningin unga að skilja, þessi elska. hvað verður nú um Britney og börnin?

áhugi mannskepnunnar á einkalífi ókunnugra er merkilegur. hef kynnst ótrúlegum slúðurkellingum (þær svæsnustu karlkyns) sem lifa fyrir það að smjatta á intím upplýsingum um ókunnuga, helst hvers konar gönuhlaup á fylliríi eða ástarfari. þetta pirrar mig því það er ekki áhugi á fólki – þetta er áhugi á slúðri, oftast rætnu.
þrífst auðvitað best í litlum samfélögum þar sem hægt er að hafa yfirsýn yfir alla en þegar borgarsamfélagið tekur við og einstaklingarnir geta horfið í fjöldann er það slúðrið um hina frægu sem tekur við. frægð Hasselhoffs um þessar mundir virðist snúast um það eitt að gegna þessu hlutverki.

þekki líka fólk sem veit allt um alla en á öðrum forsendum; semsé raunverulegum áhuga á öðrum manneskjum. er allt annars eðlis og stundum gaman að fletta upp í gagnabönkum í kolli slíkra.
um einn kunningja minn sagði ég einhvern tíma að hann þekkti ekki bara ættir og uppruna allra Íslendinga, hann þekkti þá alla persónulega. eru ekkert svo svæsnar ýkjur.
fyrir einfara sem svona almennt er frekar illa við annað fólk er þessi eiginleiki framandlegur.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sæll félagi, ég vogaði mér ekki inní umræðuna sem varð í síðasta bloggi um ríki versus þjóð enda fólk þar sem bloggaði með ákveðnar skoðanir og þekkingu sem ég hef ekki myndað mér né pælt í yfirhöfuð. En siðferðiskennd hef ég og ég verð að segja að það sem Siggi sagði um almenna umgengni almennings hugnast mér, einsog í Sverige.

En að nýja blogginu þínu. Talandi um lágmenningu um daginn þá held ég að Tyra vinkona mín og þátturinn hennar American next top model sé eitthvað sem þú verður bara að sjá. Með þessari setningu fylgir bros út í annað.

En annars er til fólk sem er svo assgoti innihaldslaust að það hreinlega verður að nærast á gjörðum fræga fólksins til að finna tilveru sinni tilgang.

23:14  

Skrifa ummæli

<< Home