18.6.08

tónleikafjöld

undanfarnar vikur höfum við skötuhjúin verið iðin við að sækja tónleika, bæði í Reykjavík og á Akureyri.


törnin byrjaði á Bob Dylan í Laugardalshöllinni. stórbrotið kvöld og fyrir mér var þetta trúarleg upplifun. sá að vísu ekki neitt enda fráleitt að bjóða upp á standandi tónleika með þessari músík. kallinn hefur aldrei verið flottari og hljómsveitin var geggjuð. við Gunnar frá Stíl mættum þarna saman með fylgdarliði og vorum báðir í trans allan tímann.


næst var ekið til Akureyrar í örstutta heimsókn til að vera við Uppgjör hljómsveitar hússins í Populus tremula þann 31. maí. vinir mínir og félagar héldu þar frábæra tónleika og gáfu út afbragðsgóða plötu með músíkinni sem þeir hafa verið að spila undanfarin misseri.


fimmtudaginn 12. júní mættum við feðgar, ég og Sigurður Ormur, á James Blunt, líka í Laugardalshöll. það var frábært kvöld. Blunt er búinn að vera átrúnaðargoð Ormsins í 2 ár og ekki var annað hægt en að bjóða honum þangað. Blunt var semsagt verulega flottur og þetta er maður sem kann að gleðja sína aðdáendur og gesti. mikil stemning og ólíkt skynsamlegri uppsetning í salnum þar sem allir sátu og sáu allt sem var að gerast á sviðinu allan tímann.


það var svo á laugardagskvöldið síðasta sem við Signý mættum með Sigurð Orm og Atla Sigfús í Café Flóru í Laugardal til að hlusta á Riddara söngsins, með Þórarinn Hjartarson fremstan í flokki, flytja lög við ástarljóð Páls Ólafssonar. verulega flottir tónleikar, fín músík, falleg kvæði og frábær flutningur. hljómsveitin var fiðla, klassískur gítar og kontrabassi og snillingur á hverjum streng. Ösp Kristjánsdóttir söng með Þórarni föðurbróður sínum og Árni Hjartarson frá Tjörn las úr áður óbirtum kvæðum skáldsins.


fimmtudaginn 19. júní var svo stormað á Organ á djasstónleika sem okkar ágæti Pétur Bjarnason stóð fyrir. ástralska undrahljómsveitin The Hoodangers spilaði, búin að flakka um Vestfirði og Norðurland. skemmst frá því að segja að þetta var bráðskemmtilegt og strákarnir komu mér sífellt á óvart. merkilega hljóðfærasett hljómsveit; t.d. enginn gítar heldur eru einu strengirnir banjó og kontrabassi. svo trommur, klarinett, trompet og básúna. og mér sem hefur alltaf leiðst brass fannst þetta alveg geggjað! og svo augljóst hvað hljómsveitarlimir skemmtu sér konunglega í einlægri spilagleði. gáfu mér nýjustu plötu sína að launum fyrir að hanna plakatið fyrir túrinn með þessari bráðfyndnu áletrun: Tak for poster min ven! og semsagt TAKK FYRIR MIG!

þeir spila reyndar aftur í Alþjóðahúsinu á sunnudagskvöld og gæti vel hugsað mér að mæta þar líka...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home